Friday, May 8, 2015

Rannslan og naglalakkablætið hennar!

Obbosí, ég á við vandamál að stríða og það vandamál snýr að þessu sinni að snyrtivörum, kræst ég veit ekki hvar þetta endar, ég á aragrúa af allskonar fallegum naglalökkum og mér finnst ég vera hálf nakin eða eiginlega bara allsber þegar ég er ekki með naglalakk á puttunum mínum, ó það er magnað hvað eitt lakk getur sett punktinn yfir i-ið.

Lökkin frá vinstri: Fyrstu tvö lökkin eru ný, maximillian strasse her og bikini so teeny. Hin þrjú eru keypt í USA og heita     e-nut-f is e-nuf, smokin´hot og penny talk.

Hoppaði ég og skoppaði þegar Essie tilkynnti komu sína til landsins, bíddu, leyfðu mér að hugsa......JÁ! Hvað gerði Rannslan þegar hún fór í fyrstu höfuðborgarferðina eftir að lökkin komu til landsins? Jú fór á hnén og skoðaði rekkann eins og hann væri úr skíragulli.

Tvö lökk komu með úr þeirri ferð heillin (Æji Gummi ekki skoða þetta, plís)!! Þau lökk eru æði og ég er með annað lakkið á nöglunum mínum akkúrat núna og ég get bara ekki hætt að stara á því því ég er svo skotin í því en það er rík ástæða fyrir því að þetta lakk er eitt það vinsælasta frá merkinu.



Lakkið heitir bikini so teeny og það er nú ekki verra að það er í stíl við spangirnar á brillunum mínum, þessum guðdómlegu Dior brillum!

En að hinum lökkunum líka, hin þrjú lökkin hef ég gripið með mér þegar ég hef farið til USA en þau eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég held að sumarið í ár verði ESSIE lakk sumar og ég er handviss um það að ég á eftir að kaupa mér fleiri lökk í næstu ferð til höfuðborgarinnar.............


Sunday, May 3, 2015

Rannslan mælir með: VARALITIR



Þegar ég var lítil var mamma alltaf með (og er reyndar enn) varalit. Þegar frúin smellti litnum á varirnar þá vissi maður að þá skyldi vippa sér út úr húsi.
Mér finnst alltaf fallegt að sjá konur eða stúlkur með fallega varaliti í öllum regnbogans litum. Sjálf hef ég sóst mikið í það undanfarið að vera með milda bleik/fjólutóna og hefur minna farið fyrir æpandi rauðum litum eða varalitum í þeim tónum.

Já ég er snyrtivörufíkill!
Nú skal þó bæta úr því en ég held svei mér þá að sumarið sé farið að banka á dyrnar, þessi helgi hefur að minnsta kosti verið alveg hreint dásamleg.

Ég á varaliti fyrir öll tilefni, ég á nude litaða, skærbleika, fölbleika, fjólulita, eldrauða, rauðan með bláum tón í (sem hentar vel til að tennurnar séu hvítari, rauðir litir með orange undirtón ýta undir gula litinn í tönnunum), ég á líka svakalega dökka varaliti og svo lengi mætti telja.

Nýjasti meðlimur varalitasafnsins heitir Firefly
Varalitastandurinn minn er að verða pakkaður, obbosí! Nýjasta viðbótin í flóruna er þessi sem ég er með á myndinni og heitir hann Firefly frá Max Factor. Ég var búin að sjá hann áður í einni Reykjavíkurferð og hann fór eki úr huga mínum þannig að ég greip hann í þeirri næstu.

Ég elska möttu varalitina frá NYX

Æji það er bara eitthvað svo gaman að gera sig sætan og fínan, sérstaklega þegar veðrið er gott, þá eru allir stútfullir af D vítamíni eftir þá gulu og pínu rauðir og rjóðir í framan eftir geisla hennar.

Kjóll og varalitur í tilefni dagsins, pabbi gamli varð 63 ára gamall í dag!



Monday, April 27, 2015

Rannslan mælir með : HREYFINGU



Ég elska E L S K A að hreyfa mig, ég myndi kalla mig líkamsræktarnörd því ég er festi mig nánast aldrei í því sama, ég hef prufað spinning, body pump, pallatíma, Þitt Form hjá Freyju, Foam Flex, Hot Yoga, Lyft lóðum, hlaup, göngur, fjallgöngur, Metabolic og æfði fótbolta í fjöldamörg ár.

Mér finnst fjölbreytnin æðisleg og ég get ekki beðið eftir að ný aðstaða komi í gömlu sundlaugarbygginguna eftir nokkrar vikur, þá getur maður farið að hlaupa, lyfta og mætt í einhverja skemmtilega tíma sem verða vonandi í boði þar, ég mun að minnsta kosti halda áfram að hoppa og skoppa hjá Söndru, það er alveg á hreinu.

Ég hef meira að segja gengið svo langt að ég á pall, ketilbjöllu, lóð, dýnu og sippuband hér heima svona til að redda mér þegar grasekkjumánuðirnir mæta á svæðið, strákarnir fá alltaf pínu hláturskast þegar mamman blastar tónlistinni í botn og byrjar að hoppa og skoppa á einhverjum palli með tilheyrandi hávaða. 

Það sem mér finnst þó mikilvægast af öllu er að maður hafi gaman af því sem maður er að gera og það á einnig við um hreyfinguna, það er ekkert leiðinlegra en að mæta í tíma eða ætla að gera eitthvað í sínum málum þegar kemur að hreyfingu og finnast það síðan hundleiðinlegt! Ég hef ekki ennþá fundið fyrir því að það sem ég vel mér sé leiðinlegt en ég er algjört kamelljón og finnst gaman að prufa nýja hluti. 

Ég mæli svo sannarlega með því að þú finnir hreyfingu sem er við þitt hæfi, hvort sem það er ganga, hlaup, lyfta lóðum eða eitthvað annað. Ég get ekki beðið eftir því að veðrið batni svo ég komist út að hlaupa með fjórfættu gelgjuna mína.....................jú þá á ég við hundinn!

Friday, April 24, 2015

Rannslan mælir með: SÚPU OG SAFADAGAR

Maginn á mér hefur verið í tómu tjóni í marga mánuði og ég hef ekkert skilið hvers vegna, hef reynt að taka hitt og þetta út úr mataræðinu en það hefur engu máli skipt hvað ég hef gert. Þar til að ég prufaði súpu og safadaga hjá Höllu. Dagarnir voru fjórir og voru alls ekki eins erfiðir og ég bjóst við.

Dagarnir innihéldu safa, súpur, chia grautar voru tvo daga og til þess að það myndi ekki líða yfir mig með fullri vinnu, tvo grísi og leikfimi þá fékk ég mér 2-3 egg á dag ásamt því að borða banana fyrir æfingar. Ég fékk mér einnig smá sykurlaust og mjög gróft hrökkkex með súpunni.

Svona lítur einn dagur út á súpu og safadögum.


Ég fann aldrei fyrir því að ég væri eitthvað svöng, önug eða neitt annað. Mér leið ótrúlega vel og eftir dagana sá ég það út að ég þoli ekki mjólkurvörur, um leið og ég borða eitthvað sem er mjólkurtengt þá fæ ég nístandi sviða í magann og langar helst að liggja fyrir. Akkúrat núna er ég í slíkum aðstæðum en mig langaði alveg agalega mikið í "eðlu" og hún inniheldur rjómaost og ost, hvað er að frétta? Maður virðist aldrei læra.

Ég hef prufað laktósafríu vörurnar frá Örnu eða "arna" og þær fara vel í mig. Ég hef samt sem áður ekki verið að borða mikið af mjólkurvörum undanfarna mánuði en þó hafa nokkrar læðst með yfir daginn og þá er eins og mallinn verði aftur á sjöunda mánuði meðgöngunnar, allur útbelgdur og leiðinlegur.

Það er frábært að taka svona safadaga eða hreinsunar daga og núllstilla meltinguna, mér fannst þetta að minnsta kosti frábært eftir kjöt, köku og súkkulaðiát páskanna.

Safarnir sem eru í uppáhaldi hjá mér eru rauðrófusafinn og græni safinn með hnetum, döðlum, bönunum og fleira góðgæti, namm ég fæ vatn í munninn! Síðan er Chia grauturinn líka guðdómlegur. Þú finnur hjá Höllu á Facebook, mæli svo sannarlega með henni.

Sunday, April 19, 2015

Rannslan mælir með: SKIPULAG

Ef það er eitthvað sem ég hef hlotið meistaragráðu í án þess að sækja neitt námskeið né skóla til að hljóta þá er það að vera skipulögð, ég skipulegg allt út í ystu æsar og það kemur sér afar vel þegar maður þarf að koma tveimur litlum gaurum út en þeir eru mishressir á morgnana, suma daga eru þeir kampakátir en aðra gengur aðeins verr að koma þeim af stað fyrir skólana.

Það sem hefur reynst best á þessu heimili er að vera með allt klappað og klárt daginn (kvöldinu) áður, þá meina ég ALLT. Ekkert hálfkák hér takk fyrir túkall!

Föt strákanna klár, skólataska Friðriks, taskan mín og íþróttafötin hans Friðriks.


Ég finn föt fyrir þá kvöldinu áður og tek mið af því hvað þeir eru að fara að gera daginn eftir, Stefán er nánast alltaf í einhverju ofur þægilegu enda fátt verra en að vera í fötum sem hefta mann þegar maður er fjögurra ára skopparabolti sem leikur sér allan daginn.
Á morgun er fótboltaæfing hjá Friðriki Franz og þá fer hann í fótboltabuxum og bol í skólann, sundfötin hans eru líka klár ásamt takkaskónum í töskunni.

Það dugar ekkert minna en stór innkaupapoki fyrir útifötin.


Á mánudegi þarf leikskólataskan að vera tilbúin með öllum útifötunum hans Stefán en á Íslandi er jú ennþá allra veðra von og taskan inniheldur meðal annars kuldagalla, vindbuxur, pollabuxur, hlýja peysu og annað sem þarf til að líða vel og verða ekki kalt í útiveru.

Nestið tilbúið fyrir vinnuna.

Ég nesta mig upp fyrir hvern dag í vinnunni, ég prufaði fjóra daga í súpu og safadögum hjá Höllu í síðustu viku og komst að því að meltingin varð allt allt önnur eftir þá daga, mjólkurvörur eru að fara mjög illa í mig og því hef ég hægt og rólega minnkað þær í mataræðinu. Egg, ávextir og safi verða í nesti á morgun en ég borða hádegismat í skólanum.

Við höfum alltaf sömu rútínuna á hverjum virkum morgni hér á bæ, vakna, borða morgunmat, klæða sig, bursta tennur, útiföt og út í bíl með gengið.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum óskipulögðum að skipuleggja morgnana hjá sér, ég lofa-dagurinn verður bara allt annar!!

Saturday, April 18, 2015

Rannslan mælir með- ANDLITIÐ

Ég er ótrúlega dugleg að prufa ýmislegt þegar kemur að snyrtivörum og ýmsu öðru, ég ákvað því að reyna að vera duglegri að deila því með ykkur elskurnar mínar en mér finnst fátt skemmtilegra en að skoða síður sem mæla með einhverju, reyndar er ég að kaupa mitt stöff sjálf, fæ það ekki gefins þannig að ég get lofað ykkur því að ég er alveg 100% hreinskilin.

Húðin mín í andlitinu er búin að vera í tómu tjóni undanfarnar vikur og ég skrapp því í Lyfju hér í Grindavík til að tékka hvað væri þar í boði. Mig sárvantaði eitthvað til að hreinsa andlitið-daglega, ekki eitthvað sem ég gæti bara notað einu sinni eða tvisvar í viku. Ég mála mig dags daglega fyrir vinnuna, mismikið þó en ég finn það alveg hvað húðin fær að finna fyrir því að vera förðuð á hverjum degi, þó ég sé bara með létt BB krem.



Visibly Clear Pink Grapefruit Daily Scrub frá Neutrogena er málið get ég sagt ykkur, ég þvæ húðina mína með skrúbbnum að minnsta kosti einu sinni á dag, stundum tvisvar en það má samkvæmt umbúðunum og þvílíkur munur! Húðin er ekki 100% laus við bólur en mun betri heldur en hún var.

Fílapenslarnir hafa minnkað mikið og húðin er opnari og öll mun betri viðkomu en hún var áður. Ef þig vantar eitthvað gott fyrir andlitið til að hreinsa það, þá mæli ég hiklaust með þessari vöru!

Saturday, April 4, 2015

Hvað er til ráða með aulann mig?

Ég man ennþá hvernig mér leið eftir jólin, ég hef aldrei á minni þrjátíu ára ævi borðað jafn mikið og þá í jólafríinu, þá var ég nýskriðin upp úr lungnabólgu og batteríin voru búin. Núna er sama sagan, fyrir utan það að ég er ekki nýbúin að vera með lungnabólgu en í staðinn kom þetta blessaða hjartavesen-kræst það er alltaf eitthvað!

Núna borða ég eins og enginn sé morgundagurinn, fjandans páskaegg, ég er sykurfíkill af verstu gerð, maginn minn er alltaf eins og ég sé kominn nokkra mánuði á leið og ég veit að það er mataræðinu að kenna, ég spái alls ekki nógu mikið í það hvað ég er að setja ofan í mig, finnst svona kúrar og annað bara vesen, eiginlega of flókið.

Ég á það til að "springa" eftir 2-3 vikur þegar ég byrja að rífa mig í gang í sambandi við hollustu og annað, get ekki hætt að borða sætabrauð, sælgæti og lakkrísinn, ég ætla ekki einu sinni að byrja á honum.

Mig vantar eitthvað solid, eitthvað stöff sem virkar fyrir mig, veit bara ekki við hvern ég á að tala eða hvað ég á að gera, ég borða of lítið yfir daginn, hef uppgötvað það á MyFitnesspal og er eiginlega alltaf þreytt og oftar en ekki er nennan í lágmarki, keyri mig áfram á þrjóskunni.

Hvað með ykkur, hafið þið upplifað svona og hvað gerðuð þið til að laga ástandið?

Frúin í sínu fínasta pússi fyrir átveislur gærdagsins.



Thursday, April 2, 2015

Þegar líkaminn segir hingað og ekki lengra!

Ég er ein af þeim sem er annálaður partýpinni, félagsvera af verstu gerð og finnst fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi, gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni, stunda líkamsrækt af kappi, sinna vinnunni minni vel og svo margt margt fleira.

Þegar það er nóg að gera hjá manni, kannski of mikið á köflum þá gefur eitthvað eftir, í mínu tilfelli var það hjartað sem sagði hingað og ekki lengra! CRAP hugsaði ég, pabbi nýskriðinn saman eftir hjáveituaðgerð og þarf litla stelpan núna að vera með eitthvað fjandans vesen, já mér finnst þetta vesen og ekkert annað takk fyrir pent-það er nett klikkun!

Ég hef verið með ofurpúls eins og ég kýs að kalla það í mörg mörg ár, fæ reglulega of hraðan hjartslátt í hvaða aðstæðum sem er og já hvenær sem er. Fyrir um viku síðan er ég að puða og púla í pallaleikfimi og er nýkomin af pallinum þegar ég leggst niður til að gera magaæfingar og þá bara BÚMM, hjartað á milljón og ég lá róleg, andaði djúpt og beið eftir að hjartað myndi róa sig niður.

Hjartað hægir yfirleitt á sér eftir nokkrar mínútur, hef aldrei upplifað þetta lengur en í fimm mínútur, fyrr en í síðustu viku. Þá var hjartað á fullu í 200+ slögum á mínútu í meira en tuttugu mínútur og ég beið og beið og beið eftir að það myndi hægja á sér, ekkert gerðist og Arna súpergörl hringdi á sjúkrabíl og svo í Gumma og brunað var til Keflavíkur í tékk. Lítið sem ekkert kom út úr því og ég var aum, þreytt og með verki í bringunni daginn eftir.

Ég hafði engan kraft í líkamanum, átti erfitt með að draga andann djúpt og svimaði við minnstu hreyfingar. Þá var mér hætt að lítast á blikuna og þá brunaði Gummi með mig inn á Hjartagátt en við rötuðum nú alveg þangað eftir að pabbi lá þar inni.

Blóðprufur voru teknar, hjartalínurit og fleira. Að lokum kom læknirinn til mín og miðað við lýsingarnar er ég með aukarafskaut við hjartað sem er víst mjög algengt hjá ungum konum, þetta böggar suma ekki neitt, aðra mikið. Í mínu tilfelli er þetta farið að gerast mjög reglulega núna og "kastið" var svo langt síðast að næsta skref er hjartaómskoðun og línurit í sólahring, svo verður maður bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman.

Ég er alveg pollróleg yfir þessu enda lítið hægt að gera nema að taka því rólega og slaka á en líkaminn minn var kominn á endastöð hvað varðar úthald og orku. Hef verið að vesenast í hinu og þessu undanfarnar vikur og haft býsna mikið að gera, enda er það þannig sem ég vil hafa það en öllu má ofgera og það kom í ljós í síðustu viku.

Síðustu átta daga hef ég nánast verið að bora í nefið að mínu mati, ég kann þetta alls ekki, kann eiginlega ekki heldur við þetta að slaka svona á! Jiminn eini, ég þrái að fara í ræktina, Metabolic og þeytast út um allt núna. En ætla að hlýða læknum og fólkinu í kringum mig og slaka á, njóta þess að borða góðan mat í páskafríinu, sofa-hef gert mikið af því undanfarið (Já Gummi meira en vanalega)!! Og njóta þess að vera með ungunum mínum sem eru agalega ánægðir með það að vera komnir í páskafrí!

Gleðilega páska sykurpúðar og njótið þeirra með þeim sem ykkur þykir vænt um, það ætla ég að minnsta kosti að gera, kossar og knús!

Wednesday, March 11, 2015

Ef að frúin færi á sjó

Þegar ég var lítil snót þá var pabbi á sjó, mamma sá um mig og bræður mína eins og ekkert væri og gerði það með stakri prýði. Þegar pabbi hætti á sjó sagðist ég aldrei, ALDREI ætla að ná mér í sjómann, boy was I wrong.......enda er framtíðin ekki ráðin þegar maður er um tíu til tólf ára aldurinn.

Þegar við Gummi kynntumst var þessi elska líka ekki sjómaður heldur fjallmyndarlegur smiður (hann er enn gordjöss þessi elska). Þar datt ég svo sannarlega í lukkupottinn enda erum við gift tæpum tólf árum seinna og eigum tvo drengi. Mér leiddist alveg hrikalega í fæðingarorlofunum mínum, mér fannst tíminn líða hægt, fór stundum ekki út úr húsi heilu og hálfu dagana og hreinlega fílaði þetta "ástand" ekki. Alls ekki!

Þegar Stefán Logi (yngri) var sex mánaða gamall leiddist mér svo mikið að ég skráði mig í fullt háskólanám sem ég ætla mér að ljúka í sumar en þá mun ég skrifa ritgerðina mína og skila henni inn seint í sumar. Á þessum tímapunkti var ég búin með sveinspróf í hársnyrtiiðn og stúdentspróf og 27 ára aldurinn nálgaðist, mig langaði að verða eitthvað! Var ekki viss um hvað það var en ákvað að skrá mig í fjölmiðlafræði og sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag, BA gráðan nálgast, loksins.

Í dag fjórum árum seinna er ég umsjónarkennari í fyrsta bekk, ennþá móðir tveggja drengja, hundur hefur bæst í vísitölufjölskyduna og Gumminn er á sjó! Já á S J Ó! Eitthvað sem átti ekki að gerast en neyðin kennir naktri konu (karli) að spinna þegar frúin ákveður að fara í háskólanám, Lín framfleytir seint fjögurra manna fjölskyldu.

Ég hef oft samt sem áður velt því fyrir mér hvað ef þessu væri snúið við? Ef að ég færi á sjó í 25-30 daga og væri bara heima annan hvern mánuð? Nú veit ég að það kemur svipur á marga en ég er ekki frá því að Rannslan myndi plumma sig vel sem háseti á togara, langaði alltaf að fara einn og einn túr á sumrin þegar ég var nokkrum árum yngri en Daddy cool hélt nú ekki og Gummi hlær ennþá þegar ég minnist á þetta.

Þrátt fyrir að hafa leiðst í fæðingarorlofum drengjanna minna þá elska ég þá afar heitt og hef alltaf verið til staðar fyrir þá, hef líka stundum þurft að vera mamman og pabbinn og tel mig hafa tekist á við það hlutverk nokkuð vel. Ég er ekki ofurkona, þetta er bara eitthvað sem þarf að gera og hafa margar konur tæklað þetta hlutverk með stakri prýði eins og mamma og gera enn þann dag í dag.

Mér líður vel á þeim stað sem ég er í dag í lífinu og ætla að láta draumana mína rætast í framtíðinni, ætla ekki að láta samfélagið ráða því hvaða vinnu ég vinn eða hvar ég vinn hana, ég er og verð alltaf mamma og mömmur þurfa líka að láta draumana sína rætast, lífið fer ekki í bið þegar litlir einstaklingar bætast í það. Þeir gera lífið innihaldsríkara og ennþá skemmtilegra.

Hættum að dæma þá sem láta draumana sína rætast og elska það sem þeir gera.


Monday, March 9, 2015

Að efast um allt, meðal annars móðurhlutverkið

Ég á það til að detta í gírinn þar sem að mér finnst ég alveg gersamlega ómöguleg-í öllu, bókstaflega.
Ég hef sagt frá því áður og þessi gír vill oft kikka inn þegar grasekkjumánuðurinn á sér stað, Rannslan er hin týpíska meyja sem vil hafa allt á hreinu og svei mér þá ef það er ekki bara allt á hreinu hjá mér flesta daga. Nema þá daga sem allt er á hvolfi, í hausnum á mér.

Ég steig á vigt um daginn, hvernig mér datt það í hug hef ég ekki hugmynd um enda ekki stigið á vigt í laaaaaangan tíma en hey, hvers vegna ekki! Hefði betur látið það ógert þar sem að hausinn fór á fullt, hvað er ég að gera/ekki gera, bla bla bla bla bla!

Hvað er síðan málið með gelluna sem er undirfatamódel komin átta mánuði á leið og lítur út eins og ég þegar ég var í mínu besta formi-C R A P hugsaði ég, djöfulsins ofurkona!

Ég á tvo kröftuga orkubolta sem krefjast mikillar þolinmæði ásamt dassi af mömmuást, knúsum og aga, ég held þessu í góðu jafnvægi (held ég) en við eigum öll okkar daga þar sem að bensínið er búið og þegar maður hefur ekki átt eina stund með sjálfri sér og farið bara að sofa þegar drengirnir fara að sofa þá líður ekki á löngu að manni líður eins og tusku sem er búið að vinda þar til að ekkert ef eftir. Ég lá upp í rúmi um daginn og hristi bara hausinn yfir sjálfri mér því á einhverjum tímapunkti fór ég að spá í því hvort ég væri alveg glötuð sem uppalandi, sökkaði sem mamma!!

Elsku pabbi er á batavegi, hægum en góðum, svona akkúrat eins og allt á að vera eftir svona aðgerð. Vissulega var það sjokk þegar fréttirnar bárust að Daddy cool væri á leiðinni í svona stóra aðgerð og það gerðist allt í einum hvelli, sjúkrabíll, hjartaþræðing, hjáveituaðgerð og BÚMM, kallinn kominn heim og ekki fleiri ferðir í bili á Reykjanesbrautinni. Við erum öll ennþá að reyna að átta okkur á því að hann hafi farið í þessa aðgerð en jiminn eini hvað ég er þakklát og hamingjusöm að hann er hérna ennþá en samkvæmt lækninum sem skar hann upp mátti hann eiginlega ekki vera lengur í "umferð" eins og hann orðaði það enda var aðalæðin orðin 95% stífluð.

Það sést alltaf á andlitinu á mér þegar það er álag og stress á kjellu, núna er ættarmót, jafnvel með nokkrum ættliðum, ohhh hver elskar ekki svoleiðis daga, ljótan á háu stigi með rotturót í hárinu, útþaninn mallakút og allar græjur........Ritgerðin mín er líka á smá hold, ætla að finna nýtt efni til að skrifa um og skrifa hana í sumar, það bætir líka á stressfaktorinn- að vita nákvæmlega ekkert um hvað maður ætlar að skrifa, skál fyrir því!

En vil ég vera fullkomin, með lága tölu á vigtinni, með allt fullkomið í uppeldinu og allt á hreinu alla daga. Nei svo sannarlega ekki, lífið er í öllum heimsins litum og fjölbreytilegt, maður þarf bara stundum að minna sig á það hvað lífið er gott og þakka fyrir það sem maður hefur, svo ég tali nú ekki um heilsuna, tu tu fyrir henni, það er ekki sjálfgefið að hafa hana í toppformi, ó nei svo sannarlega ekki.


Monday, February 23, 2015

Að ganga svo langt að líkaminn gefur sig


Ég hef oft talað um það og skrifað um það hversu mikil áhrif samfélagið okkar hefur á hvernig við lítum út. Þú ert ekki almennilega viðurkennd/kenndur nema að þú sért grönn eða grannur, því jú feitt fólk er bara heimskt, er það ekki annars? Miðað við hvernig komið er fram við fólk sem hefur einhver aukakíló á sér þá mætti halda það.

Við myndum samfélagið, við erum þau sem mótum hvort annað, við sitjum við eldhúsborðið og smjöttum okkar á milli að Gunna Jóns sé búin að bæta aðeins á sig eða er svona og hinsegin. Við erum líka einstaklingar, höfum sál, okkar líkama og eigum rétt á því að vera eins og við erum.

Þetta er að minnsta kosti það sem ég er að reyna að innræta hjá mínum nemendum, litlum elskum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum stóra heimi sem fyrstu bekkingar. Við getum gert svo mikið til þess að gera hlutina fallegri, betri og skemmtilegri.

Er með sting í hjartanu eftir að hafa horft á Kastljósið og séð viðtalið við hana Heiðu, gullfalleg kona í blóma lífsins sem vildi líta sem best út, því grannar konur eru konur á framabraut, lúkkið er allt. Lúkkið er ekki allt þegar hjartað stoppar og heimurinn þinn og fjölskyldu þinnar stoppar.

Fögnum fjölbreytileikanum, heimurinn væri ekki samur án hans. Við eigum öll rétt á því að vera við sjálf, tala á vigt eða fituprósenta skiptir ekki máli.

Sunday, February 22, 2015

Síðustu dagar......

Hafa verið stórfurðulegir svo fátt annað sé sagt. Þegar kletturinn í fjölskyldunni, sá sem er alltaf mættur fyrstur til að hjálpa manni, hefur alltaf verið til staðar fyrir mann og gerir allt fyrir mann er settur í pant og kippt niður mjög snögglega þá veit maður eiginlega ekki hvað maður á að gera.

Pabbi fékk vægt hjartaslag í vikunni og hefur verið á spítalanum síðan en hann er á leiðinni í hjáveituaðgerð í næstu viku en aðgerðirnar gerast varla stærri. Úff ykkur finnst ég án efa vera full dramatísk en ég ætla bara alveg að leyfa mér að vera dramatísk því maður er ennþá í sjokki, við erum öll í sjokki.



Ástæðan fyrir því að við erum líka í sjokki er að pabbi hefur alltaf verið mjög hraustur, aldrei verið neitt alvarlegt að honum og ef hann tekur sér veikindadag þá er hann virkilega veikur, það þurfti ansi mikið til, til dæmis þegar hann fékk nýrnasteina að hann myndi hætta að keyra en hann og mamma voru á heimleið þegar þau voru fyrir austan hjá okkur þegar hann fékk nýrnasteinakast og mamma bókstaflega þvingaði manninn frá stýrinu! Minn maður lét líka fótbrot ekki stöðva sig að mæta í vinnu, mamma skutlaðist bara með hann á milli staða á meðan hann skoppaði á hækjunum.

Ef mig vantar aðstoð þá er pabbi alltaf fyrstur á staðinn, hann hjálpar mér að mála, vippar fram tröppum á núll einni, keyrir með mig í bæinn til læknis ef að strákarnir eru veikir og svo framvegis. Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa, var kölluð einkadóttir skipstjórans á mínum yngri árum og ekki hefur það minnkað að vera pabbastelpa þrátt fyrir að ég sé orðin þrítug, ég er og verð alltaf litla stelpa foreldra minna, þrátt fyrir að við hlægjum mikið af því að yngsta trippið sé orðið þrítugt!



Það er þó mömmu að þakka að pabbi er á spítalanum núna, hann fór í vinnu þrátt fyrir að hafa verið með verki um nóttina og ekkert sofið og var ekkert að kvarta fyrr en að mamma sá að það var ekki allt eins og það átti að vera hjá kallinum sínum. Enda þekkir mamma hann manna best, búin að vera gift honum í 40+ ár. Hún á svo sannarlega hrós skilið fyrir að vera hörð á sínu og skipa honum að fara á heilsugæsluna en þar var hann settur í hjartarita og út frá því var pantaður sjúkrabíll með forgang.

Við vitum ekki ennþá hvenær aðgerðin fer fram en vonandi í vikunni, pabbi er undir eftirliti allan sólahringinn núna og mikið afskaplega erum við þakklát fyrir að hann er á hjartadeildinni hjá frábæru starfsfólki sem dekstrar við hann allan daginn og nætur. Hann er enn að fá smá verki en sem betur fer er hann í góðum höndum og hægt að grípa inn í strax, ég og við öll viljum ekki hugsa til þess hvað hefði komið fyrir ef hann væri ekki inn á spítalanum núna enda segja læknarnir að það hefði ekki mátt tæpara standa.

Við erum bjartsýn og ég veit að margir hafa farið í svona aðgerð og komið betri til baka, það er svo sannarlega það sem við stefnum líka að, að fá kallinn tvíelfdan til baka og við hjálpumst öll að núna, stöndum þétt saman og tökumst á við þetta verkefni. Ætla að leyfa þessum hádramatísku orðum að standa, enda er ég ekki þekkt fyrir neitt annað en að vera dramatísk. Það er bara þannig þegar manni þykir svona vænt um pabba sinn, maður getur ekki hugsað til þess hvað hefði getað gerst.


Friðrik Franz og pabbi kampakátur á spítalanum.

Monday, February 16, 2015

Af bjútí- tipsum og öðru misgáfulegu.....

Ég ákvað í sakleysi mínu að leggja fram spurningu inn á Beautytips hóp sem ég er inn á á Facebook, sú síða er reyndar ætluð konum á aldrinum 25 ára og uppúr. Spurningin var óttalega kurteisilega borin fram og það var ekkert nema forvitnin sem varð til þess að ég lagði hana fram.


Hér er myndin umrædda eða "skjáskotið" sem ég tók af Facebook síðu Ultratone Reykjanesbæ til að forvitnast um það hvort að einhver stúlka/kona hefði prufað svona meðferð, ekki var ég að biðja um neitt annað álit eða önnur svör, bara já/nei, virkar/virkar ekki og svo framvegis.

Fannst ferlega fyndið þegar ein túlkaði þetta sem sjálfsniðurrif, ég átti nú að gjöra svo vel að koma mér í bíó eða fá mér ís!! K R Æ S T! Svona lið, sumir fá held ég hreinlega út úr því að vera með derring og annað á netinu. Sakleysisleg spurning var sett (að hennar mati) fram sem sjálfsniðurrif og já ég var líka spurð út í það hvort ég héldi virkilega að fita gæti orðið vöðvar!

Æ Karamba! Ég held ég hugsi mig tvisvar sinnum um áður en ég varpa svona "bombu" aftur hjá þessum hóp. Fékk reyndar mjög góð viðbrögð með ofvirku svitakirtlana mína, kannski var það líka sjálfsniðurrif? Veit ekki....er nokkuð svitafýla af mér?

Sunday, February 15, 2015

Svolítið smart naglalakk


Eða ætti ég frekar að segja sjúklega smart naglalakk? Já þetta lakk er sjúklega smart og dásamlega lekkert, vá mætti halda að ég væri á prósentum en svo er ekki því ég fjárfesti í þessu lakki þegar ég skaust í bókstaflegri merkingu til Boston í fyrra.

Hafði heyrt mikið um þetta lakk og séð það hér og þar hjá bloggurum og annarsstaðar en þetta lakk er pínu öðruvísi en önnur lökk þar sem að það er með metalic áferð, það finnst mér gera það svo agalega lekkert svei mér þá.


Ég hef þó ekki verið dugleg að nota þetta lakk enda er erfitt að gramsa í naglalakkaskúffunni minni því það er svo mikið af lökkum í henni og ég gríp stundum næsta lakk sem ég sé. Ég var líka alls ekki ánægð með endinguna á því síðast en það skrapaðist og eiginlega eyddist á núll einni EN núna ákvað ég að prufa að setja Top yfir það og er spennt að sjá hvort það geri gæfumuninn, ef svo verður þá mun ég örugglega ekki taka þetta lakk af nöglunum á næstunni.


Lakkið umrædda heitir Penny Talk og er frá Essie, lakkið fæst þó ekki hér á landi nema að þú sért í Fríhöfninni, en er maður þá ekki löglega kominn til útlanda þegar farseðillinn og passinn er mættur upp í flugstöð? Jú svei mér þá! Ég splæsti í mitt í Target, minni allra uppáhalds búð í USA en ég er nokkuð viss um að það sé hægt að fjárfesta í því í Evrópu. 

Mæli með þessu smarta lakki!


Saturday, February 14, 2015

Kennslukonudressin

Ég á það til að ofhugsa það sem ég ætla að klæða mig í á hverjum degi, ef ég er ekki komin með einhverja hugmynd eða grunn af því sem ég ætla að vera í næsta dag þá er ég í bobba morguninn eftir. Fataskápurinn minn er troðfullur af flíkum og oftar en ekki enda ég á því að vera í því sama viku eftir viku en er samt að taka mig á og reyni að vera í sem flestu af því sem ég á með því að nota mismunandi fatasamsetningar. Ég er þó aldrei í sömu flíkinni tvo daga í röð, það er tabú fyrir mér, nett klikkun ég veit!!

Þetta er náttúrulega á jaðrinum við það að vera nett geðbilun og ég er með kaupsýki af verstu gerð í þokkabót, kræst mér er ekki viðbjargandi! Ég ákvað að taka mynd af mér á hverjum morgni til að spá aðeins í því sem ég er í á hverjum degi. Stundum er ég fín en aðra daga er ég mun afslappaðri í fatavalinu en flest fötin mín snúast um þægindi, nema kannski einhver súper fín föt eða svona föt sem ég nota ekki á hverjum degi.

Ætla að leyfa ykkur að sjá vikuna hjá mér en bið ykkur innilega afsökunar á myndatökunni við myndirnar, selfies af verstu gerð, spurning að ráða Friðrik í ljósmyndaradjobb næst þegar ég tek upp á þessu.




Mánudagur:

Hér var ég ekkert búin að pæla í því í hverju ég ætlaði að vera í á sunnudeginum. Þægilegheit urðu því fyrir valinu. 
Peysa: H&M-mín allra uppáhalds!
Buxur: Levi´s
Bolur: Levi´s
Skór: Hvítir Air Max. 


Þriðudagur:

Hér nennti ég engan veginn að vera í einhverju öðru en ofur þægilegum fötum
Buxur: H&M
Peysa: Palóma
Bolur: Vero Moda
Hálsmen: Forever 21
Já ég er berfætt, mér líður afskaplega vel þannig.


Miðvikudagur:

Já nú er kellan komin í fansý gírinn!
Kjóll: VILA
Peysa: VILA
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)


Fimmtudagur:

Hér er ég í peysu sem ég var búin að gleyma, ég meina það-hvað er að!
Kjóll: VILA
Peysa: Vero Moda
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)
Hálsmenið er með rúnaletri og ég fékk það í fermingargjöf.


Föstudagur:

Kjóll: H&M
Peysa: Forever 21
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)


Hér er seinna dress föstudagsins þegar við hjónin fórum í leikhús og út að borða með vinnunni.

Hlýrabolur: Gallerý 17- Moss
Skyrta: Palóma
Buxur: Palóma
Jakki: Palóma, minn allra allra uppáhalds þessa dagana
Skór: Kaupfélagið minnir mig, er alltaf í þessum skóm þegar ég fer eitthvað spari, elska þá í döðlur!








Wednesday, February 11, 2015

Kaupfíkill af verstu gerð..........

Ég sit hér slefandi í sófanum með tölvuskjáinn fyrir framan mig vegna þess að ég var að skoða nýju sendingarnar frá Vila og Vero Moda á Facebook. Það er eiginlega stórhættulegt að vera með þessar síður á Fésinu þar sem að ég fæ alltaf hland fyrir hjartað þegar ég sé myndirnar frá þeim og langar helst að kaupa sirka 70% af því sem ég skoða.

Ég sæki það nú ekki að elska föt í sjötta lið en við mamma eigum það sameiginlegt að finnast dásamlegt að finna okkur fallegar flíkur, reyndar deilum við líka skófíkninni en það er annar kapítuli út af fyrir sig. Ég hef sagt frá því áður að ég hef gert mér sérferð (eða gert ferð úr því) að kaupa mér eitthvað því ég sé mynd af því á Facebook.

Ætli að ég búi mér til ferð í vikunni? Nei fjandinn Gumminn sér strax í gegnum það og æji já ég er víst að safna fyrir Æfón seksý!

Hér að neðan má sjá þær flíkur sem ég þrái, algjörlega ÞRÁI í augnablikinu, ó mig auma...........

Ég elska þægilega kjóla, þessi er sjúklega kósý og hyggelig

Samfestingur, já Rannslan elskar svoleiðis stöff. Smart litur líka

Rúllukragakósýkjóll, nammi namm!

Guð minn góður, eigum við að ræða þessi smartheit eða?

Þessi litur!

Dásamleg golla, á svona dökkbláa, svona grá er ekki síðri

Það er eitthvað við þennan

Klútur getur gert svo mikið fyrir mann

Jiminn eini, þessi er of flottur, öskrar á mig!

Þessar buxur........

GUÐ MINN GÓÐUR! Þessi kápa sko!

Ekki síðri í dökkbláu!

Tuesday, February 10, 2015

Furðulegur vöxtur á andlitinu.....

Ég er hætt að lita mig, plokka mig og vaxa mig í andlitinu. Nánar tiltekið augabrúnirnar mínar. Ástæðan er einfaldlega sú að ég er með svakalegt exem á augnlokunum, ekki spennandi ástand á smettinu í þessu veðri, sérstaklega þegar veðrið er alltaf að flakka á milli, heitt-kalt-snjór-slydda-slabbi Pollýanna er farin í frí þessa dagana þegar kemur að veðrinu.

Mig langaði líka að reyna að ná fram þessu "natural" lúkki en augabrúnirnar mínar eru ekki á sama máli. Þær eru meira svona "mér er alveg sama hvað þú heldur að þú sért að gera, ég ætla bara að vaxa eins og villt blóm". Málið er nefnilega að augabrúnirnar mínar eru alls ekki samstíga, langt því frá. Einhverntímann las ég í Cosmo eða öðru virtu tímariti að brúnirnar eru systur EKKI tvíburasystur.

Hálfsysturnar......


Mínar eru hálfsystur takk fyrir!

Önnur vex alveg eins og ég vil hafa þetta, villt og galið og pínu breið, hin er í mótþróa, kannski jafnvel með mótþróaþrjóskuröskun því hún vax, tja eiginlega bara ekki neitt!
Þetta ástand er fagurt, ó mig auma.........ég reyni þó að nota blýant til að fylla í eyðurnar og þykkja aðra en þá er ég komin með dökkar brúnir og þarf að fiffa það til og bla bla bla!!

Kannski að ég fari bara að lita mig aftur og plokka, jafnvel vaxa en ég var samt orðin pínu þreytt á skinkulúkkinu, svo sannarlega first world problem takk fyrir!

Frú brilla, frumburðurinn tók þessa mynd af mömmunni, þessi elska.


Já ég er líka orðin hálfblind, sé ferlega illa án þess að vera með brillurnar á nebbanum og ég get svo svarið það að sjónin er farin að versna, á tíma hjá augnlækni 10.mars, þvílík spenna!!


Friday, February 6, 2015

Blómakotið hennar Guggu

Hún Gugga í Blómakoti er ekki bara mamma besta vinar hans Gumma míns heldur ótrúlegur fagurkeri sem á litla, krúttlega blómabúð sem heitir Blómakot. Grindvíkingar eru svo sannarlega heppnir að hafa gimstein eins og kotið í sínum heimabæ.

Ég er mjög áhrifagjörn bara svo að það sé á hreinu, ég gerði ferð úr því að kaupa mér kjól í Vila í gær BARA af því að ég sá hann á Facebook-kræst! Það sama var upp á teningnum í dag. Gugga setti inn myndir á Facebook síðu Blómakots í gær og það lá við að ég missti svefn því ég var svo spennt að kíkja í kotið miðað við myndirnar (reyndar tók ég létta lögn áður en ég fór en það er önnur saga)

Þessi er eiginlega of fallegur með lilluðum túlípana ofan í!


Fallegur röndóttur vasi varð fyrir valinu ásamt Túlípönum, ég er með fetish þegar kemur að þeim og kaupi ég þá gjarnan í öllum regnbogans litum, kem aldrei heim með sama lit af búnti. Heimilið mitt er þakið góðgæti frá Guggu og ég hika ekki við að segja fólki að versla við hana ef því vantar tækifærisgjafir því það er hægt að fá fallegar vörur á undir 1000kr og uppúr.

Ef þig vantar skírnargjöf, fermingargjöf, afmælisgjöf, útskriftargjöf, brúðargjöf eða langar bara að gefa konunni (nú eða kallinum) blóm þá mæli ég með ferð til Guggu, ég lofa að þú verður ekki svikin. Þú finnur Blómakot á Facebook.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá kotinu mínu sem er stútfullt af fallegum hlutum úr kotinu hennar Guggu.

Ég er líka með uglufetish.....

Þessir stjakar eru í hjónaherbergisglugganum okkar



Þessar krukkur komu úr kotinu

Bakkinn og hvíti stjakinn eru frá Guggu

Allt þetta er úr Blómakoti-kertið er Broste

Bakkinn og stjakinn vinstra megin (gjöf frá tengdó) eru frá Blómakoti

Ég er með hjörtu í gluggunum frá Guggu

HOME og vasinn sem ég fékk frá Guggu í brúðargjöf

Fleiri fallegar uglur, fékk stærri frá Gullu minni í afmælisgjöf