Friday, October 31, 2014

"Ertu ólétt"? "Nei ég borðaði bara svona mikið"!!




Ég dáist að því hversu hreinskilin börn eru, þessi eiginleiki glatast því miður snemma á lífsleiðinni eða kannski ekki því miður miðað við reynsluna mína í dag.



Ég stóð fyrir framan lítinn dreng í morgun og hann potaði í mallakútinn minn og spurði: "Ertu ólétt"? og var sposkur á svip. Frúin vissi ekki hvert hún ætlaði og sagði honum að hún hefði bara borðað svona mikið í morgun enda voru vöfflur, sandkaka, vínarbrauð, súkkulaði og fleira góðgæti á boðstólnum í vinnunni í morgun.



Það er óhætt að segja að sjálfstraustið hafi farið niður í núll í nýju fjólubláu nike element peysunni minni sem sýndi greinilega of mikið af því góða. sem betur fer fór ég ekki í þröngu buxunum sem ég ætlaði að fara í vinnuna í morgun-kannski hefði ég geta verið með óléttubumbu á bossanum!



Ég tel mig vera þokkalega sátta við sjálfa mig en var þó að sporðrenna Domino´s pítsu ásamt kanilgotti í kvöldmatinn, já mér eru engin takmörk sett þegar kemur að því að borða, ætti kannski að fara að hreyfa mig aftur svo ég minnki kannski ekki óléttu bumbuna smá!


Mér líður akkúrat svona núna!



Tuesday, October 28, 2014

Ef ég er mjó er ég þá falleg?

Netheimar loga, gersamlega LOGA þessa dagana. Ekki vegna stríðsátaka, Ebólu eða hlýnun jarðar heldur vegna þess að ung stúlka vogaði sér að grenna á sér mittið á Instagram síðunni sinni, það gerðist víst oftar en einu sinni og það er algjört no no eins og við vitum öll, filterar í hinum ýmsu öppum eiga að duga til að taka grámygluna af smettinu og grenna mittið....eða hvað?

Mikið hefur verið smjattað og pattað um þetta mál en mér leikur forvitni á að vita hvaða app hún notaði, væri alveg til í að snippa mittið annað slagið bara upp á grínið eða til að friða samviskuna eftir súkkulaðistykki eða heilt box af Ben and Jerry´s ís sem hefur runnið ljúft niður af USA söknuði.

Samfélagið löðrar í útlitsdýrkun og vissulega hef ég tekið þátt í því með skrifum og öðru og biðst ég afsökunar á því ef ég hef sært einhverja með þeim skrifum en hvers vegna veit ég ekki? Maður er stöðugt að gagnrýna náungann og ekki síst sjálfan sig, ég er að minnsta kosti mín mesta og besta klappstýra þegar kemur að því að setja út á mig.

Það er manneskja í höfðinu á mér sem er með tígó, pom pom dúska, í stuttu pilsi, rúllukragapeysu sem öskar annað slagið Gef mér F, gef mér E, gef mér I, gef mér T-þú ert FEIT!!

Fáum við eitthvað út úr því að setja út á aðra? Er maður betri manneskja fyrir vikið? Nei svo sannarlega ekki. Hvert og eitt okkar hefur rétt á sinni tilveru hér á jörðinni og ég held að það sé tilgangur með þessu blessaða lífi svei mér þá. Ég sigraði ekki í kapphlaupinu við getnað af því bara-ég var einfaldlega BEST!

Stundum prísa ég mig sæla yfir því að vera strákamamma og vona að þessar elskur verði alltaf sáttir í eigin skinni, ég er að læra að sætta mig við ýmsa galla þegar kemur að eigin útliti og vona að ég smiti frá mér jákvæðri orku frekar en að vera alltaf að setja út á sjálfa mig og senda neikvæða orku út í alheiminn.

Nagandi smaviskubitið bankar alltaf uppá hjá manni ef formið er lélegt, húsið skítugt og buxurnar eru þrengri. Þrýstingur héðan og þaðan er mikill og þú mín kæra átt að geta ALLT, verið falleg, í formi, með allt á hreinu og síðast en ekki síst grönn! Æji lífið snýst um svo miklu meira en stærð núll eða læri sem gap er á milli.

Ég þekki fullt af fólki sem er ekki stærð núll eða tvö og ég dýrka það, ég þekki líka fólk sem er stærð núll og dýrka það líka en ekki láta umbúðirnar blekkja ykkur-við erum öll mannleg. Ég vona svo sannarlega að ég sé að þroskast og fari að fagna fjölbreytileika líkama míns, lífið er miklu skemmtilegra þegar maður er sáttur í eigin skinni.

Frú Rannveig og elsku litli Stebbinn hennar


Wednesday, October 15, 2014

Bananamúffudásemnd Rönnslunnar

Bananar og ég erum eitt, ég elska þá dýrka og dái enda fæ ég aldrei sinadrátt en í þessum elskum er víst eitthvað efni sem hjálpar til við að forðast þennan ekki svo velkomna drátt......




En aftur að múffunum, ég sat í sófanum í gærkvöldi og var að hugleiða morgunmatinn og langaði ekki í heita eggja og bananastöppu sem ég hef fengið mér undanfarið, ég átti svokallað ljósaperumóment og voila múffurnar voru komnar í ofninn korteri seinna, já eftir 15 mínútur var þetta tilbúið!

Það sem þarf í þessar elskur er: 


Einn dásamlegan banana, helst pínu brúnan og sjabbí.
Tvö egg.
Lífræn vanillukorn.
Kanil, lífrænan.
Möndlumjöl.
Kókosmjöl.
Hörfræ.




Aðferð: 

Bananinn er stappaður í drasl á disk með gaffli, eggin sett í skál og þeytt hressilega.
Bananinn fær að stökkva út í og vanilla á hnífsoddi líka. 
Dass af kanil (eftir smekk).
Ein matskeið hörfræ.
Ein matskeið kókosmjöl.
Tvær kúfullar matskeiðar af möndlumjöli.



Blöndunni er síðan hrært hressilega saman, múffuformum skellt í múffumót, ég nota súpuskeið til að mæla ofan í múffumótin. Ofninn á að vera vel heitur á 200°með blæstri og þetta er síðan bakað í honum í tíu mínútur.

Kæla, bíða smá, biðin endalausa, kræst þetta er svo gott og það BESTA er að þetta er sykurfrítt og hveitifrítt, jafnvel non glútein?? Ekki viss. Ég mæli með að þið prufið þessar elskur, dásamlegar í morgunmat eða bara með kaffinu.

What´s cooking??


Tuesday, October 14, 2014

Vanlíðan, prumpubumba og margt fleira

Mikið agalega vona ég að fyrirsagnirnar nái að grípa ykkur, er ég orðin klikkuð eða hvað?
Helginni var eytt í miklum bumbuverkjum í mallakút, uppköst og leiðindi fylgdu líka.
Stundum þarf ég að fara yfir strikið til að skilja hvenær ég á að stoppa, undanfarið hef ég ekki hugsað nógu vel um mataræðið, stopparinn hefur ekki verið virkjaður og höfuðið hefur ekki fylgt með í dæminu þannig að það eru engar hömlur. Súkkulaði, nammi, saltaður snakkaður matur og mjólkurvörur í miklum mæli hafa farið inn fyrir munninn minn án þess að ég sé að hugsa um það sem ég er að borða.

Exemið hefur versnað vegna kulda og mataræðið hefur líka áhrif, sykurinn er að fóðra skrímslið og saltið er að fóðra bjúgskrímslið! Þessu fylgir útblásinn magi og mér fannst dásamlegt að heyra Bubba tala um prump í Heilsugenginu um daginn en hann ákvað ásamt fjölskyldu sinni að taka mataræðið sitt alveg í gegn og hjálpuðust þau öll að. Hann talaði um að það væri glatað að vera að spila einhversstaðar og vera að kafna úr prumpufýlu eftir að einhver fékk sér eitthvað sóðalegt í matinn stútfullt af geri. Já ég tók eftir þessum orðum Bubba því ég er áhugamanneskja um prump, frat og öllu sem því fylgir og finnst það fyndið og skemmtilegt!

Ég held/veit að mataræðið skiptir svo gríðarlega miklu máli og ég vona að höfuðið á mér sé farið að átta sig á því hvaða áhrif mataræðið hefur á mig. Í dag hef ég valið réttan mat, ekkert brauð og ekkert sælgæti og hvernig líður mér? Alveg hreint dásamlega! Já svei mér þá ég vona að ég nái að halda þessu áfram og skelli ég jafnvel nokkrum dásamlegum uppskriftum sem eru hollar á næstunni á þessa síðu........fylgist með-þetta verður eitthvað.........


Sunday, October 5, 2014

Próflærdómur sem bragð er af!

Það er magnað, maaaaaaagnað hvað próflærdómur dregur fram það "besta" í manni, nei ég meina allar bestu hugmyndir manns fæðast þegar maður lærir undir próf eða er að undirbúa sig andlega að byrja að læra undir próf því heilinn forðast allar þær hugsanir sem tengjast því að læra, þó sérstaklega þegar það er fag sem áhuginn er í botni-núll, enginn, kul!

Eitt haustfag og ritgerðin sem ég veit ekki einu sinni hvað á að vera, ritgerð, mynd, leikþáttur eða whatever, höfuðið snýst í ótal hringi. Sko akkúrat núna, já núna á þessari sekúndu á ég að vera að læra. Skólagögnin, glósurnar og allt er við hliðina á mér en nei ég verð að finna mér annað dundur. Reyndar las ég það í dag í glósunum að maður á að lesa, hvíla, hugsa um það sem var verið að lesa og byrja síðan aftur að lesa......eða eitthvað þannig, ágætis mantra, læra í 1 klst, hvíla í 15-20 mín og byrja svo aftur, hefur verið þannig hjá mér í dag eftir að ég las þessa ágætu línu.

Næringin, jú maður verður að nærast á meðan á þessum herlegheitum stendur og tilraunaeldhús Whole 30 hefur verið í gangi í dag, dýrindis morgunmatur-egg, beikon, grænmeti. Það getur ekki klikkað. Svo gerði ég frábært kjúklingasalat í kvöldmatinn og er ennþá södd, Yummí.

Hef tekið ákvörðun að byrja á Whole 30 eftir viku! Já þá er það komið út í alheiminn, ekkert hægt að bakka.........kræst það sem manni dettur í hug. Gleðifréttirnar eru þó þær að ég má drekka kaffi....svart, já latte lepjandi gellan má ekki fá mjólk, nema kókos eða kókosolíu og tyggjó það er á bannlista, hæ andfýla í 30 daga........fjandans vesen, ég tygg þá bara ferska myndu allan daginn og verð með grænt í tönnunum, smekklegt!

Saturday, October 4, 2014

Baugar, þreyta og Whole 30

Í þessum töluðu orðum er ég að berjast við sykurpúkann á öxlinni því það er til hvítt Lion Bar súkkulaði inn í eldhúsi, get ég hætt að hugsa um það, nei! Af hverju er það til á heimilinu-ég veit ekki hvað sjálfsstjórn er, að minnsta kosti ekki þessa dagana. Æji ég á það skilið, er búin að vera svo ógeðslega dugleg undanfarið-kræst, ég get talað mig úr öllu og sannfært mig um að ég eigi allt gott skilið eins og förðunarburstana og varalitinn sem ég keypti á afslætti í gær, já ég meina must have fyrir snyrtivörufíkilinn þó svo að ferð til USA sé bráðlega......

Baugar eru orðnir fastir liðir eins og venjulega hjá mér og ég er nánast barasta hætt að taka eftir þeim, held samt að augun fari bráðlega að falla inn í höfuðkúpuna, já þeir eru það djúpir. Orkan er í sögulegu lágmarki og nenningurinn enginn, ég hélt að ég myndi andast í Metabolic á fimmtudaginn því ég var svo þung á mér, hef vaknað ansi marga morgna undanfarið með svakalegan bjúg og giftingahringurinn er farinn að þrengjast vel á baugfingri..............ætli að þetta sé aldurinn??

Whole 30 er eitthvað sem ég hef verið að spá og spegúlera í og ég er að peppa sjálfa mig upp í það að byrja á því mataræði, hreint fæði sem inniheldur engar mjólkurvörur, sykur eða hveiti. Kjaftæði segja einhverjir og ég hef örugglega sagt það einhverntímann á lífsleiðinni með slíkt mataræði en ég finn það sjálf að ég þarf að stokka upp í hlutunum þegar kemur að mataræðinu og girða mig í brók!

Áfengi má ekki fara inn um varirnar á manni á þessum 30 dögum og það ætti nú að vera lítið vandamál þar sem að ég drekk orðið nánast aldrei nema að það sé eitthvað stórkostlegt tilefni til! Exemið mitt versnar og versnar og ég er hætt að vaxa augabrúnirnar því exemið á augnlokunum var orðið svo slæmt og hef ákveðið að safna þeim, jafnvel aflita og lita gráar-já ég er biluð! Ég er spennt að sjá hvort að mataræðið hjálpi exeminu en ég hef heyrt frá mörgum sem hafa tekið það vel í gegn að exemið hverfi alveg.

Lion Bar-ið, já ég er enn að husa um það. Best að drífa sig að borða það áður en ég skipti um skoðun, Whole 30 tilraunir í eldhúsinu taka bráðlega við svo ég fari nú vel sjóuð inn í þrjátíu daga prógramið!

Wednesday, October 1, 2014

Hægðir og lægðir sykurpúkans

Já þarna náði ég þér-ég vissi það, hægðir? Nei ætla ekkert að ræða þær á persónulegu nótunum hérna takk fyrir pent en forvitnin rak þig greinilega áfram í þetta sinn, þetta rímaði bara svona fallega, er að kenna snillingunum mínum rímorð og er í massa kennslukonugír þessa dagana!

En hvað með það, sykurinn, meistaramánuður, hreyfivika og ég veit ekki hvað og hvað. Allt skellur þetta á manni núna kviss bamm og búmm! Ég fór í ræktina tvisvar í gær og fyrradag og kærkomin hvíld er í dag en það er eins og ég sé að hlaða upp glötuðum kolvetnabirgðum því ég gæti borðað allan daginn út og inn, helst eitthvað gott, ekki hollt eða jú kannski inn á milli en jimin eini má það vera OF hollt-já nei, sætt, sykrað og sjúklega djúsí!

Í gær kom ég heim úr Zumba/styrk tíma og tróð í mig Hrís eftir að pastað rann ljúft niður, daginn áður var það sjúklega sykraður grjónagrautur. Ohhhh æji mataræðið er svo mikilvægt þegar maður ætlar að ná sér aðeins niður eða koma sér í betra form en frúin er löt, þreytt og undir álagi þá er það bara "æji ég" eða "ég á þetta skilið". Þessi hugsanaháttur hefur setið fastur í mér undanfarin misseri eða eiginlega bara síðan í byrjun maí, þá fór ég í vaktarvinnu með svefnrugli og veseni og undanfarin mánuður hefur síðan farið í það að aðlagast nýjum vinnutíma ásamt því að meðtaka grilljón nýjar upplýsingar.

Núna loksins er ég hætt að vera síþreytt (síðan í maí) en þá get ég ekki hysjað upp um mig brækurnar og tekið mataræðið í gegn, ohhhhh það er SVO GOTT að borða, oft, mikið, gott og djúsí, jummmmm!

Mér líður eins og ég sé komin fimm mánuði á leið mallakúturinn er svo þaninn en það er greinilega merki um það að ég er ekki að hugsa nógu vel um mataræðið, þarf að fara að rífa þetta í gang eða hætta hreinlega að hlusta á sykurpúkann inn í mér, vonandi fer þetta allt að koma ég meina það er nú einu sinni meistaramánuður-keyrum þetta í gang! Læt eina skemmtilega mynd af mér og Íþróttaálfinum fylgja þar sem að ég var dregin upp á svið ekki einu sinni heldur tvisvar í morgun.

Ég var meira að segja í bleikum bol sem er jú liturinn hennar Sollu stirðu!