Friday, August 29, 2014

Tímamót

Já það voru svo sannarlega tímamót í mínu lífi um síðustu helgi en þá fagnaði ég þriðja tugnum og sætti mig loksins við það að vera orðin ÞRÍTUG! Til að fagna þessum áfanga lífsins hélt ég partý með fjölskyldu og vinum sem heppnaðist líka svona líka vel og þakka ég öllum þeim sem samglöddust með mér kærlega fyrir komuna og fyrir mig en dagurinn var dásamlegur í alla staði og vona ég að allir hafi skemmt sér vel ásamt því að fara heim með fullan maga.

Önnur tímamót urðu líka á síðustu vikum en þá byrjaði ég sem kennari í Hópsskóla og er fyrstu vikunni núna formlega lokið, frúin er umsjónarkennari í fyrsta bekk og eru krakkarnir í mínum bekk dásamlegir snillingar og ég hlakka gríðarlega mikið til vetrarins.

Það er stórskrýtið að vera komin í 8-4 vinnu í staðinn fyrir að vera bara heima í sápukúlunni sinni og að sinna skólanum, það er samt skemmtilega skrýtið þar sem að ég get verið ansi ferköntuð og finnst fátt betra en að búa í exel skjali. Sápukúlan er þó enn aðeins til staðar þar sem að ég mun vera í einu fagi í vetur ásamt því að leggja höfuðið í bleytu fyrir lokaritgerðina.

Nú þegar rútínan er komin á fullt skrið þá er ekki seinna vænna en að koma líkamsræktarrútínunni í gang aftur en ég hef aldrei sinnt heilsunni jafn lítið og núna í sumar, ég man ekki einu sinni eftir því hvenær ég hreyfði mig síðast, jiminn eini!

Baðherbergið er nánast klárt hjá okkur og ég ætla að sýna ykkur myndir af því þegar nennið kikkar inn, sófinn hefur nefnilega verið minn besti vinur undanfarið og Gummi er farinn að gera grín af því hversu oft ég hef sofnað á sófanum síðastliðna viku.

Þrítugspía, það var fagnað og skálað þann 23.ágúst!

Dressið fyrir JT tónleikana, þvílík upplifun!

Feðgarnir gáfu mér golfsett í afmælisgjöf, ég mun vera á golfvellinum allt næsta sumar!

Thursday, August 14, 2014

Jennifer Lopez og hennar Big Big Booty!

Ó Jennifer, ó Jennifer og þinn lögulegi afturendi. Ég á eiginlega bágt með að trúa því að þessi skutla sé 45 ára gömul, hún yngist með hverju árinu sem líður og það er augljóst að hún hugsar vel um líkama og sál enda í fantaformi.

Söngkonan hefur undanfarið verið að hverja fólk til þess að senda inn myndbönd af sér dansandi við lagið sitt "Booty" og er hægt að skoða þau á Instagram síðu söngkonunnar. Jennifer lét það ekki duga heldur birti hún mynd af sér nánast naktri og sýndi bossann til að kynna lagið, kannski full langt gengið fyrir minn smekk.


Söngkonan kom einnig fram á Iheart tónlistarhátíðinni þar sem hún var klædd í þykkar sokkabuxur og sundbol sem sýndi bossann og búbburnar vel. Nektin er allsráðandi í tónlistarheiminum í dag og því fáklæddari því betra, ekki góðar fyrirmyndir fyrir ungar stúlkur svei mér þá. Kíktu á Jennifer hér fyrir neðan.


Thursday, August 7, 2014

Leitin af eilífðri æsku í Hollywood, Bótox og afneitun!

Margar af skærustu stjörnum Hollywoodborgar hafa svo sannarlega farið undir hnífinn og viðurkennt það á meðan aðrar þverneita fyrir það að láta sprauta sig með Bótoxi eða öðrum töfraefnum. Þónokkrar stjörnur virðast hafa fundið hina eilífu æsku, hvort sem það sé lýtaaðgerðum að þakka eða heilbrigðum lífstíl skal látið ósagt en það verður þó alveg að viðurkennast að margar stjörnur virðast yngri í dag en fyrir um tuttugu árum síðan!

Það er alltaf gaman að skoða gamlar myndir, hvort sem það er af sjálfum sér eða fræga fólkinu því a breytingarnar á milli ára eru stórkostlegar, ég meina ég var eins og gaur rétt eftir fermingu, geri aðrir betur!


Jerry Hall er komin með töluvert hærri kinnbein í dag en neitar því að hafa farið í lýtaaðgerð

Winona Ryder er svo sannarlega hissa á seinni myndinni

Julia Roberts er ansi breytt á milli ára

Jennifer Lopez lítur út fyrir að vera yngri í dag en fyrir um tuttugu árum síðan, hver man ekki eftir henni í hlutverki söngkonunnar Selenu?

Kim Basinger er orðin svo frosin í framan að hún getur ekki brosað lengur

Kate Winslet er slétt og fín í dag

Joan Rivers er án efa drottning lýtaaðgerðanna og viðurkennir það fúslega að hafa farið þónokkru sinnum undir hnífinn

Monday, August 4, 2014

Hvert fór sumarið? OG hvert fór formið????

Ó þetta elsku sumar! Samkvæmt almannakinu er sumar en veðrið hér fyrir sunnan hefur ekki verið á sama máli en vinir mínir fyrir austan og norðan hafa svo sannarlega fengið að njóta veðurblíðunnar í botn, sem er yndislegt fyrir þá sem búa þar eða eru að ferðast þangað.

Sumarið mitt hefur einkennst af vinnu, svefni og áti. Mér finnst ég hafa lítið annað gert en þetta þrennt, líkamsformið er farið út í rassgat þar sem að ég man ekki hvenær ég hreyfði mig síðast og óhollustan hefur átt hug minn allan og þá sérstaklega sælgætið, ég bara get ekki stoppað og verð að fá þessa "quick fix" orku frá sælgætinu og þá helst á hverjum einasta degi-að fara í gegnum sykurlausan dag gæti nú orðið mitt síðasta.

Ég var í mínu besta formi í langan tíma í maí þegar ég byrjaði í vinnunni og hef einhvern veginn slappast niður smátt og smátt í allt sumar, allir vöðvar farnir og allt orðið slappt og sjabbí en í þessum töluðu orðum sötra ég á hvítvíni eftir langa vinnuhelgi. Ég ætlaði að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar en er hætt við þar sem að ég hef engan tíma til að hlaupa (eða gef mér ekki tíma) og sama dag verð ég líka þrítug-það þarf nú einhver að undirbúa þetta blessaða partý!

Í næstu viku byrjar undirbúningur fyrir kennslu+vinna upp á velli, það verður stemmari í tæpar þrjár vikur svei mér þá, aminó og kaffi munu koma sér afar vel þá daga get ég sagt ykkur. Ég ætla að byrja aftur í Metabolic í vetur og mikið agalega hlakka ég mikið til þess að komast aftur í morguntímana og mæta fersk í daginn!

Hef ákveðið að hætta að drekka gos aftur en ég hætti í þjú ár og byrjaði síðan aftur að sötra það, af hverju veit ég ekki og núna fer maður að borða hollari mat og einbeita sér að því að minnka sykurátið, borða oftar og minni skammta í einu, ekki gúffa í sig máltíð fyrir tvo í hverjum kvöldmatstíma!

Og baðherbergið, ó blessað baðherbergið........málningarpenslarnir bíða mín í fyrramálið, ég bíð spennt!

Christina Aguilera kasólétt og allsber

Christina Aguilera gengur nú með sitt annað barn og það birtust nýlega myndir af henni í V magazine á Evuklæðunum einum saman, ég veit ekki með ykkur en mér finnst hún afar sæt með óléttukúluna sína og mér þykja svona óléttumyndir mjög fallegar, samt sem áður hefði ég sjálf ekki lagt í slíka myndatöku enda var ég ekki upp á mitt besta á meðgöngum.

Christina er þó ekki sú fyrsta sem stígur þetta skref en Demi Moore, Jessica Simpson og Britney Spears hafa meðal annars komið fram á forsíðum óléttar og berar.

Kíkið á myndirnar af nokkrum skvísum óléttum og léttklæddum.















Friday, August 1, 2014

Er Beyoncé komin með nóg? Hjónabandið hangir á bláþræði

Söngkonan Beyoncé og rapparinn Jay Z eru án efa "power couple" í tónlistarbransanum en Beyoncé er víst komin með nóg af kappanum og treystir honum ekki lengur en ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki að Jay Z  hafi verið henni ótrúr. Beyoncé hefur verið að breyta textum í lögum þeirra á tónleikaferðalaginu sem gefa það í skyn að hún sé komin með nóg, hún hefur einnig tekið af sér giftingahringinn.

Lífvörður Beyoncé er orðinn trúnaðarvinur hennar og hún hallar sér frekar til hans heldur en eiginmannsins þegar kemur að því að ræða ýmis vandamál. Það virðist vera erfitt að blanda saman fjölskyldulífinu og frama en Beyoncé vill reyna að hafa jafnvægi á báðum stöðum á meðan Jay Z er framapotari.

Þetta virðist þó rokka fram og til baka og einn segir þetta á meðan annar segir hitt. Söngkonan þarf þó ekki að hafa áhyggjur af peningamálum ef hún skilur við rapparann því hún er ein söluhæsta söngkona heimsins og vinsældir hennar virðast ekkert vera að dala. Af myndum á tónleikaferðalagi þeirra eru þau nánast alltaf skælbrosandi þrátt fyrir að Beyoncé sé búin að fjarlægja giftingahringinn, góðir leikarar eða bara ein leið til að fá meiri athygli?
















Sólin, lífið og verslunarmannahelgin

Sólin í já blessuð sólin er sko sannarlega búin að gleðja mig og mína undanfarna tvo daga og svei mér þá ef maður er ekki kominn með smá lit á kroppinn og D-vítamínið lífsnauðsynlega er búið að smeygja sér inn í allt kerfið, þvílík dásemd að vakna í sól og sumaryl en ekki rigningu og gráu yfir öllu. Ég sæki ekki sólarsýkina langt en hún amma mín heitin sem ég er skírð eftir (alnafna) elskaði sólina og ég erfði það svo sannarlega frá henni að elska þessa gulu, það verður bara allt betra í góðu veðri!

Verslunarmannahelgin er formlega byrjuð og við famelían ætlum ekki að gera neitt enda er frúin að vinna alla helgina og á mánudaginn en eiginmaðurinn á án efa eftir að skella sér í framkvæmdir tengdar baðherberginu og kannski slá nokkrar golfkúlur líka ef veðrið verður sæmilegt. Mikið agalega hlakka ég til að mála og klára baðherbergið en núna er bara klósett og baðkar þar inni.



Stefán Logi er ekki jafn sólarsjúkur og mamman

Friðrik fékk gat á höfuðið í gær, í þriðja sinn sem ég bruna með hann á slysó vegna þess, hann var að hlaupa á stétt og datt á lausamöl en sem betur fer gerðist það rétt hjá mömmu og pabba og við pabbi brunuðum strax með hann þar sem að sárið var límt en það var svo mikið hár á svæðinu að það var ekki hægt að sauma.

Friðrik minn í blóðugum bol og nýkominn af slysó, þessi snillingur heldur manni sko á tánum!

Eftir nokkra daga byrja ég í vinnunni í skólanum og mun vinna aðeins lengur upp á flugvelli líka, það verður brjálað að gera hjá mér og mínum þegar húllumhæið byrjar en þannig þrífst ég best, rétt um mánuður í USA og bara nokkrir dagar í dirtý thirtý, já það er svo sannarlega mikið til að hlakka til á næstunni!

Njótið helgarinnar snúðarnir mínir-það ætla ég svo sannarlega að gera.