Friday, July 29, 2016

GJAFALEIKUR

Hver elskar ekki gjafaleiki, nei ég bara spyr? Mig langar til að gleðja enda er sælla að gefa en þiggja og ákvað ég því að henda í einn gjafaleik.

Það sem ég ætla að gefa er:

Duo- fiber collection frá Real Techniques

The falsies Push up Drama maskara Frá Maybelline

Bikini so teeny naglalakk frá Essie

Choker frá Palóma föt og skart.



Til þess að eiga möguleika á að vinna þarf að:

Setja like á bloggsíðuna á Facebook hér

Fylgja mér á Snapchat: rannveigjonina

Ekki er skylda að deila en það væri ekki verra.

Mun síðan draga út Fimmtudaginn 4. ágúst.


Knús í klessu.






Tuesday, July 26, 2016

Fjallið mitt Þorbjörn

Eða Þorbjarnarfell öllu heldur, ég vil þó alltaf segja Þorbjörn, fjall, punktur.

Ég lofaði mér því fyrr í vor að ég ætlaði að vera dugleg að labba upp fjallið okkar Grindvíkinga mikið í sumar og ég hef svo sannarlega staðið við það enda hefur veðrið verið yndislegt í sumar, hlýtt, lítið rok og þó það rigni þá er samt hlýtt og logn!

Fyrir mér er ganga upp fjallið ákveðin hugleiðsla, ég er ein með sjálfri mér og ég nota þessa stund til að hugsa um daginn og veginn og jafnvel að skipuleggja framtíðina. Göngufélaginn minn hann Marri skilur samt ekkert í því hvers vegna ég er alltaf svona lengi upp og niður en þá er ég bara að njóta, vera í augnablikinu og hann passar upp á það að láta mig vita ef honum finnst ég hafa verið stop og lengi.

Það eru margar gönguleiðir upp og niður fjallið og ég hef farið þær allar í sumar nema Þjófagjá, hana á ég eftir að príla og mun gera það áður en sumrinu lýkur. Það er einnig hægt að ganga hringinn í kringum Þorbjörn og það er ansi góð ganga út af fyrir sig. Undanfarið hef ég farið upp veginn og farið niður að framan en það er skemmtileg leið sem tekur aðeins á jafnvægið og annað á niðurleiðinni.

Í dag var dásamlegt veður og ákvað ég að taka myndavélina með í þetta sinn enda var varla ský á lofti og sú gula fylgdi mér og Marra alla leiðina, alveg dásamlegt alveg hreint. Ef þú ert á suðvesturhorninu þá mæli ég með því að þú kíkir í göngutúr upp á Þorbjörn.



























Monday, July 25, 2016

Túristarúntur um Reykjanesið

Ég hef tekið eftir því að Reykjanesið er einn heitasti staðurinn fyrir túrista um þessar mundir. Reykjaneshringurinn er mjög vinsæll en þegar ég spila golf á Húsatóftavelli þá er mikil umferð um "golfvallaveginn" eins og heimalingarnir kalla hann og mikið af umferðinni eru túristar á bílaleigubílum eða húsbílum.

Við hjónin áttum sex ára brúðkaupsamæli síðastliðna helgi og ákvað ég með dags fyrirvara að við fjölskyldan skyldum nú taka smá túristarúnt um Reykjanesið og skoða okkar nærumhverfi vel. Við höfum margoft keyrt þarna í gegn án þess að stíga fæti út úr bílnum eða bara rétt til að reka nefið út.

Veðurspáin var frábær og veðrið var yndislegt, ekki mikið rok, sól, létt gola og sextán gráðu hiti fylgdi okkur allan tímann.

Við byrjuðum á því að skoða Brimketil þar sem að Marri steig í úldinn sjó (án gríns) og angaði bíllinn vel eftir þá dýfu þó svo að ég hefði þrifið hann vel með blautþurrkum en snyrtipinninn ég fer ekki langt án þess að hafa eitthvað slíkt við höndina enda aldrei að vita hvað gerist í bílnum og hver þarf á því að halda að þrífa sig.

Eftir Brimketil fórum við og skoðuðum Gunnuhver þar sem að mikill fjöldi fólks var að skoða, rútur voru á bílastæðinu ásamt mörgum bílaleigubílum og við vorum einu íslendingarnir á svæðinu.

Því næst fórum við og kíktum á sýninguna Orkuverið jörð þar sem er hægt að skoða alls kyns fróðleik um Reykjanesið, jörðina, jarðvarma, upplifa jarðskjálfta og margt fleira. Gjaldið inn kostaði 5000 kr fyrir okkur fjölskylduna, aðeins í dýrari kantinum en samt skemmtilegt. Er ekki viss hvort að margir túristar viti af sýningunni þar sem að hún er þannig staðsett.

Þegar allir voru búnir að fá nóg (lesist óþolinmóðu pjakkarnir okkar) spurðum við þann sem var að vinna á safninu hvernig vegurinn að Reykjanesvitanum væri og hann hélt að hann væri góður þannig að við létum slag standa. Búið er að malbika veginn að Reykjanesvita og það var í raun og veru alveg nóg og við keyrðum ekki lengur á þvottabretti eins og áður sem er mjög gott. Það er hinsvegar erfitt að fá gott stæði fyrir lága bíla þar sem að mikið grjót er á svæðinu og mikið af túristum þarna líka á alls kyns bílum.

Það var yndislegt að labba um og skoða Eldey og alla klettana sem ég man ekki alveg í augnablikinu hvað heita (hægt að gúggla það) en mamman var hinsvegar pínu með hjartað í buxunum yfir yngsta pjakknum sínum sem vildi sko ekki láta leiða sig og vildi helst gera allt sjálfur eða steypa sér fram af í mótþróa.

Að lokum var það brú milli tveggja heimsálfa þar sem að allir fengu að njóta sín í sandinum og hallærislegar túristamyndir voru teknar (já ég veit). Frábær dagur í alla staði og ég mæli með því að fólk geri sér dagamun og skoði sitt nærumhverfi en það þarf ekki að fara langt í burtu til þess að skoða íslenska náttúru, með eða án túrista.

Hér að neðan eru síðan myndir frá deginum okkar en ég tók hátt í 300 myndir þennan daginn enda myndefnið glæsilegt og veðrið frábært.