Sunday, June 29, 2014

Olivia Palermo, látlaus og falleg á brúðkaupsdaginn

VÁ er eitt orð yfir hversu falleg hjón þau tvö eru en Olivia giftist fyrirsætunni Johannes Huebl um helgina og mikið hrikalega eru þau sæt saman!




Yndisleg mynd af þeim og kjóllinn, förðunin og allt upp á tíu hjá henni eins og alltaf. Johannes er mjög virkur Instagram notandi (eins og ég) og myndirnar hans eru afar smart og það er greinilegt að hann er afar skotinn í henni Oliviu sinni.







Það er eitthvað ótrúlega heillandi við þessa snót en jæja farin í lúllið, vinnan kallar í nótt!


Uppáhalds förðunarvörurnar fyrir vinnulúkkið-klár á 10 mínútum!

Já elskurnar þegar maður þarf að mála sig um miðja nótt þá þýðir ekkert að vera með einhverjar flækjur og dúllur, frúin er komin með förðunarrútínu sem tekur aðeins tíu mínútur og jafnvel styttri tíma ef ég er ekki of skjálfhent og í stuði með eyelinerinn, jú ég á það nefnilega til að vera svolítil brussa, sérstaklega þegar ég er eldrauð í augunum og búin að vera vakandi í sirka korter áður en ég mála mig.

Þvílík fegurð, uppáhaldsförðunarburstarnir mínir!

Ég er ekki mikið hrifin af of mikilli förðun, vil leyfa húðinni að njóta sín þegar hún er í toppstandi og vil frekar vera með áberandi eyeliner og flottan litsterkan varalit. Þetta lúkk er einmitt þannig og ég er næstum því búin að ná "winged" eyelinernum góðum-eyrnapinninn er reyndar besti vinur minn á morgnana.........brussan þið skiljið.

Vörurnar sem ég nota eru þessar:

Andlit: Dream fresk BB cream frá Maybelline

Loose face powder 02 frá Body Shop

Glam Bronzer Blondes frá L´oréal

Augabrúnir: Eyebrow cake powder frá Nyx

Augu: Lasting Drama Black Shock eyeliner frá Maybelline

The Colossal Volum Express mascara

Varir: Pout Paint frá Sleek- Pinkini

Þetta eru vörurnar sem ég nota á morgnana


BB kremið frá Maybelline er án efa það besta sem ég hef prufað og ég viðurkenni það alveg að ég hef prufað þau nokkur, sirka 8 stykki takk fyrir. Púðrið er einnig æðislegt en ég er að fíla það að vera með laust púður heldur en fast þar sem að mér finnst það ekki klessast eins mikið og ég fæ náttúrulegri áferð á andlitið.

Glam Bronzerinn er æðislegur, gefur manni frísklegt útlit og ég set hann á andlitið með stippling brush frá Real Techniques í svokallaðan "þrist".

Eyelinerinn frá Maybelline er töfraeyeliner, ég er ekkert að grínast með það, þú skrúfar litinn í opið, hann er skáskorinn og þannig fullkominn í "winged" útlitið, maður þarf reyndar að æfa sig svolítið með hann fyrst til að vita hversu mikið magn maður á að skrúfa út úr honum. Maskarinn þarf enga kynningu en ég sakna samt maskarans frá Benefit en hann fæ ég í hendurnar eftir tvær vikur. Augabrúnaliturinn er frá Nyx og hann er í miklu uppáhaldi, ég nota alltaf ljósari litinn.

Varalitinn pantaði ég á www.haustfjörd.is og hann er geggjaður, hann endist vel, er mattur og BLEIKUR, gordjöss. Þó mæli ég með því að hann sé borinn á með varalitapensli því annars fer allt út um allt, brussan, skiljiði.....

Þessir burstar galdra fram töfra um miðja nótt!

Burstarnir mínir eru allir frá Real Techniques og ég elska þá, fleiri orð um þá eru óþörf og þær sem hafa prufað þá eru örugglega sammála mér.

Ég þarf endilega að smella í selfie með þessa förðun, eins og ég sé ekki nógu dugleg við það fyrir, jiminn eini, njótið það sem eftir er helgarinnar elskurnar mínar.

Saturday, June 28, 2014

Átsýkin, svefnsýkin og Instagram

Kroppurinn er ekki enn farinn að kveikja á perunni, ræs klukkan 03:50 er greinilega ekki eitthvað sem hann pantaði þetta sumarið en sei sei og svei, ræs and sjæn í vinnuna skal það vera! Ég var í fríi alla síðustu helgi þar sem við fórum á fótboltamót með eldri drenginn og það þýðir bara eitt, ég þarf að vinna það upp, aukastubbar og lengri vinnudagar þýða minni svefn og meiri vinna, vinnan göfgar manninn-sagði ekki einhver spakur það back in the day??

Bara það eitt að ég skuli sitja fyrir framan þessa tölvu klukkan að ganga níu að kveldi til þrátt fyrir að þurfa að vakna kl 03:50 í nótt er kraftaverk! Eiginmaðurinn er líka farinn að kvarta yfir þessum svefngjörning mínum alltaf hreint, ég er bókstaflega ALLTAF sofandi eða að borða-hvað er það?? Ég sem ætlaði að vera svona líka fín og flott á dörrtý thörrtý ammælinu, mér sýnist það ganga hægt, fötin þrengjast bara og mallakúturinn tútnar út!

Ástandið er orðið það slæmt að ég er búin að rífa vinnukjólinn minn ekki einu sinni heldur TVISVAR sinnum og hvar? Jú á bossanum! Mamma og tengdamamma eru reyndar sannfærðar um það að ég sé bara svona mikil brussa og fari ekki nógu dömulega inn í bílinn en ég er handviss um að þetta sé bara stækkandi afturendi sökum ofáts! 

Líkaminn hrópar á kolvetni og orku þegar ég er í vinnunni og þegar ég kem heim er betra að það sé ekkert óhollt til því þá hverfur það á örskotstundu, hvert? jú beint í galopið geðið á mér og niður í maga, líkamsrækt, hvað er það?, kannast lítið við það að hafa hreyft mig undanfarið þar sem að svefn, át og sófakúr hefur tekið völdin, þið getið rétt ímyndað ykkur hversu skemmtilegur félagsskapur ég er, eiginmaðurinn hefur bætt aðeins í golfiðkunina undanfarið og ég er sannfærð um að það sé bara vegna þess að ég er alltaf sofandi, karlgreyið.......

Yngri sonurinn á án efa eftir að verða efnilegt tölvunörd þar sem að hann kann örugglega betur á Ipadinn en ég, við erum reyndar komin með tímaklukku á hann en ef mamman þarf að liggja smástund lengur þá er Ipadinn kominn í bólið og Stebbinn með, dæs........sá eldri er alltaf úti að leika og með vinum sínum enda alger partýpinni eins og mamman og finnst fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hóp eða í kringum fullt af fólki en hann sefur reyndar lengur en sá yngri-ekki slæmt það.

Ég verð án efa nær dauða en lífi síðustu tvær vikurnar í ágúst þar sem að ég verð í tveimur vinnum, klára sumarvinnuna upp á velli og byrja undirbúning fyrir kennsluna en ég mun vera umsjónarkennari í fyrsta bekk skólaárið 2014-2015-spennandi tímar framundan!

Instagramið hjá mér er troðið af selfies þessa dagana en fleiri fjölskyldumeðlimir fá einnig að fljóta með, ég heiti rannveigjonina á insta-endilega fylgið kellu, hér að neðan eru nokkrar myndir frá síðustu dögum.

Myndarlegi maðurinn minn, ég plataði hann í eina selfie eftir fjallgöngu, þið sjáið gleðisvipinn á honum er þaggi?

Vinnupartý, daman komin í sparigallann og með hvítt í hönd

Það er nauðsynlegt að vera með heyrnartól á útistæðum í vinnunni enda heyrnin mikilvæg og flugvélar háværar, það eru fáir jafn fínir og við dömurnar að taka á móti flugvélum, með varalit, eyeliner og allan pakkann!

Marra leist ekkert á veðrið um daginn, vældi bara og vogaði sér ekki út í rigninguna!

Mætt í fjöruna í Sandgerði, æskuleikstöðvar mömmu, varðeldur og enn og aftur hvítt í hönd, þá sjaldan sem maður lyftir sér upp!

Tuesday, June 24, 2014

Naglalökkun á klærnar!

Það er þriðjudagur, ég var að vinna í morgun, skítaveður og grjónagrauturinn mallar í pottinum, tilvalinn dagur til að skella lakki á klærnar sem komast bráðlega í lagfæringu.

Ég er naglalakkafíkill og er með stóra skál fulla af lökkum, það er fátt fallegra en vel snyrtar og fallega lakkaðar neglur, eru mínar þannig núna-næstum því (bara næstum því).

Þolinmæði við naglalökkun er ekki mín sterkasta hlið, ég er eldsnögg að lakka mig en að bíða eftir að lakkið þorni það er nú allt önnur saga, kræst, ég er alltaf að reka mig utan í eitthvað og klessa lakkið til!





Það á einnig við núna, þumallinn á vinstri hönd hefur alveg verið betur lakkaður. En þá að lökkunum (í fleirtölu því eitt dugir ekki í stílíseringuna). Lökkin eru mjög falleg ein og sér en saman eru þau perfektó blanda. Lökkin koma frá O.P.I sem er mitt allra mesta uppáhald í naglalakkamerkjum, verst hvað þau eru fjandi dýr hér á klakanum.
Alpine Snow

Mig vantaði svo eitthvað yfirlakk, bara svona glært með lit og Sheer Tints er einmitt þannig fá O.P.I, það er nokkurs konar Top Coat sem þornar fljótt og er með fallega áferð, ég hef verið með það eitt og sér undanfarið og það hefur komið vel út en ég mundi allt í einu eftir því um daginn að það leyndist hvítt lakk í skálinni góðu og því ákvað ég að prufa þetta dúó í kósýveðrinu (eftir blund dagsins).
Be Magentale Wit Me


Lökkin heita Alpine Snow (hvíta) og Be Magentale With Me (Top Coat). Ég byrjaði á því að hreinsa neglurnar vel, setti síðan tvær umferðir af hvíta lakkinu og 2 umferðir af Top Coat lakkinu, vó 4 umferðir í það heila en so what-þetta lúkkar vel!

Tilvalið sumarlúkk á neglurnar sem ég mæli með, ég mæli líka með þolinmæði þegar þetta er framkvæmt, ég er að pikka með blautar neglurnar og það er ekki alveg að gera sig!

Monday, June 23, 2014

Kelly Osbourne, Instgram og ber bossi!

Kelly Osbourne var einu sinni ekki ofur ánægð með lífið, sjálfa sig, né lúkkið! Daman tók síðan þátt í raunveruleikaþættinum "Dancing with the stars" og þar féllu þónokkur kíló og fann hún sjálfsöryggið (að eigin sögn) þegar hún fann að það var virkilega gerlegt að missa öll þessi kíló!


Nú í dag er Kelly alls ekki feimin við það að sýna kroppinn en síðastliðinn föstudag sýndi hún nánast beran bossan á Instagram síðunni sinni og skrifaði þetta fyrir neðan myndina: "It's not a #FullMoon but it feels like one! Good luck everyone tonight!'



Já svei mér þá, ég veit samt ekki alveg hvort ég væri til í að bera bossann svona fyrir framan alheiminn eða hvað? Nei hugsa ekki, Kelly bætti aftur á sig nokkrum kílóum eftir að hún sleit trúlofun sinni við Matthew Mosshart fyrir fimm mánuðum síðan en ákvað að fara í "matarmeðferð" til að bæta úr því-miðað við bossalúkkið sýnist mér henni ganga alveg ágætlega.


Kelly ætlar að vera einhleyp í langan tíma núna, er orðin flippuð með hárið ekki nóg að hafa það fjólublátt, bætum hanakambi, öryggisnælum og fléttum í það líka, Kelly er meðitta er það ekki bara og já ég er að springa mig langar svo í ALLT úr nýju MAC línunni hennar, hún er æði!


Sunday, June 22, 2014

Er stolt mamma í dag!

Fjölskyldan í Grindavíkurpeysunum frá Jóa útherja-það er möst að vera í stíl á slíku stórmóti!

Það er óhætt að segja að mömmuhjartað sé fullt af stolti í dag en eldri sonurinn varð Norðurálsmeistari B-liða í íslensku deildinni í dag. Strákarnir í liðinu hans spiluðu svo sannarlega með hjartanu og það var magnað að fylgjast með baráttuandanum og samheldninni í hópnum þeirra.

Stoltir sigurvegarar eftir síðasta leik á degi 2

Hver og einn fékk að njóta sín og það var liðsheildin sem skilaði þeim titilinum og eru þeir vel að honum komnir, þeir voru afar stoltir peyjar í dag og að fá að fara upp á svið fyrir framan öll liðin var án efa hápunktur mótsins, þeim leið eins og kvikmyndastjörnum þar sem að það var alltaf verið að smella myndum af þeim og voru þeir svei mér þá orðnir ansi vanir að pósa fyrir framan vélarnar/símana.

Allur hópurinn samankominn með verðlaunin sín ásamt Pálmari þjálfara

Á þessu móti eru margir efnilegir knattspyrnudrengir að stíga sín fyrstu skref í boltanum og það er magnað að fylgjast með þessum litlu kroppum spreyta sig á stóra sviðinu og það eru án efa margir framtíðaratvinnumenn sem spiluðu á Akranesi um helgina.

Gaupi kom og tók viðtal við drengina 

Allur hópurinn frá Grindavík var frábær og stóðu allir sig vel, einnig þeir sem voru að mæta á sitt fyrsta mót en það er fátt eins skemmtilegt eins og að fá að gista í skólastofu í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta, minn maður spurði okkur einmitt fyrra kvöldið hvort við værum nú örugglega ekki að fara að koma okkur heim til Ríkey frænku, ætlaði sko að fá að njóta sín þrátt fyrir að vera svolítill mömmu og pabba kútur.

Ánægður ungur drengur með fyrsta stórmótsbikarinn

Hann Friðrik minn hefur tekið miklum framförum undanfarið ásamt öllum hinum strákunum, hann er grannur og smávaxinn en ég veit að það er hörkukraftur í mínum manni og hann sýndi það og sannaði um helgina þegar hann skoraði þrjú mörk!

Stebbinn var svo sannarlega ekki alltaf í stuði!

Leiðin að þessum árangri hefur svo sannarlega ekki alltaf verið dans á rósum en við foreldrarnir teljum okkur samt sem áður hafa takið réttar ákvarðanir varðandi þennan unga mann og gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að honum líði sem allra best og erum við ásamt öðrum sammála um það að Friðrik er svo sannarlega á réttri leið.

Nýkomnir af stóra sviðinu

Ég vil þakka öllum foreldrum Grindavíkurdrengjanna fyrir samveru helgarinnar, Pálmari þjálfara og Skagamönnum fyrir frábært mót og góða skipulagningu, svona mót verður ekki til á einni nóttu og ÍA menn kunna svo sannarlega að halda svona stórmót fyrir 1260 drengi því skipulagið var 100%

Og til hamingju með Norðurálstitilinn strákar, þið eigið hann svo sannarlega skilið!

Thursday, June 19, 2014

Kim K ætlar alltaf að vera í "Honeymoon Phase"

Já Kim kellan hlýtur að vita hvað hún er að segja þar sem að þetta er þriðja hjónabandið hennar, eða kannski sagði Kanye bara hey görl foreva eva!! og ekkert kjaftæði!


Þá brast hún bara í grát all dolled up og læti........Kim hefur gert mikið grín af sjálfri sér þegar hún grætur og reyndar allir aðrir.

EN Kanye er reyndar ansi ráðríkur hefur maður heyrt og Kim passar sig að vera ströng mamma, þú veist með lúrinn og svona, mamman þarf líka sinn bjútísvefn svo hún geti nú örugglega lúkkað rétt úti að labba með kerruna.......


En við vitum það líka flest að Kanye kallinn elskar sjálfan sig agalega mikið og hefði án efa verið til í að gefa sjálfum sér koss á þessari  mynd frekar en að kyssa Kim sína en þau eyddu víst ansi mörgum dögum í að snurfusa myndina sína til áður en alheimurinn fékk að sjá hana, fönký pípol verð ég að segja!


Saturday, June 14, 2014

Líkamsvirðingin og bjartir tímar framundan




Líkaminn minn er ekki ennþá búinn að átta sig á því að hann þarf að vakna annað slagið klukkan 03:50 til að koma sér í vinnu, reyndar höfuðið ekki heldur. Ég er búin að vinna núna á vöktum í einn og hálfan mánuð og ég er ennþá alltaf þreytt, þreytt þegar ég kem heim úr vinnunni og þreytt í vaktarfríunum.
Þrátt fyrir það er vinnan ótrúlega skemmtileg, ég er búin að mastera förðunarrútínuna upp á tíu og er enga stund að smella mér í sparigírinn klukkan fjögur að morgni til en að koma mér í hreyfingu er annað mál.



Mataræðið við skulum ekki ræða það því að kolvetnaskrímslið argar á mig á hverjum degi og heimtar orku, ég fjárfesti í B-vítamíni rétt áðan til þess að athuga hvort það kveiki í mér á einhvern hátt en þetta sukk og svínarí verður að fara að stoppa því ég var komin á svo sjúklega gott ról og í gott form.

Auðvitað veit ég líka að þetta er allt í hausnum á mér en það að vera með heimili, vinnu, börn, eiginmann og margt fleira er að taka sinn toll. Ég finn hvað líkaminn er að "slabbast" niður og ég er ekki með eins mikinn vöðvamassa og ég var með en núna þýðir ekkert annað en að rífa sig í gang og hætta að gangrýna kroppinn eins og hann sé ógeðslegur og ljótur!
Mataræðið skiptir líka gríðarlegu máli og núna þýðir ekkert annað en að keyra það í gang og borða hollt, sælgætisskrímslið er ekki sátt við mig núna en sveiattan, ávextirnir koma í staðinn.



Ég get verið rosalega dugleg að setja út á sjálfa mig og er í raun og veru minn versti óvinur þegar kemur að líkamsvirðingu til mín, ég er aldrei sátt og get sett út á allt sem mér finnst vera að, hvort sem það er keisarskurðurinn, litla bumban fyrir ofan hann, lærin eða bossinn sem fer stækkandi. Æji svona nú, það þýðir ekkert annað en að hætta þessu væli og fá höfuðið til að komast í réttan gír, hreyfa sig og borða hollt, þannig líður mér best, þreytan er án efa líka komin til vegna þess að ég hef ekki verið að borða hollan mat, þetta vinnur allt saman, það held ég nú!



Bráðlega eru breyttir tímar hjá mér en ég get ekki opinberað fréttirnar alveg strax, eftir helgi, já eftir helgina get ég sagt hvað er að fara að gerast hjá okkur, spennandi og krefjandi tímar framundan, látum það duga.

Friday, June 13, 2014

Feeling fancy í dag!


Helgarfrí og rigning, kombó síðustu tveggja helgarfría! En fokkit, I am feeling fancy því það eru spennandi tímar framundan og ég lít á lífið með sól í hjarta.

Var líka að átta mig á því að það er fstudagurinn 13, hey föstudagur til fjár, er þaggi bara? 

Svör við spennandi tímum koma síðar (nei ég er EKKI ólétt). 

Vinkona mín Iggy ætlar að fancýa (já nýtt orð) okkur upp fyrir helgina.......



Thursday, June 5, 2014

Stundum þarf maður smá spark í bossann!

Undanfarnir tveir mánuðir hafa flogið framhjá mér, eða tilfinningin er að  minnsta kosti þannig.
Öllum áföngum í skólanum var náð og frúin getur andað léttar og farið í skólafríið með engan hnút í mallakút, 12 einingar eftir og spennan magnast við að fá BA skírteinið afhent!

Ég var sjúklega dugleg í gymminu þegar ég var að læra undir prófiN, hef aldrei verið þannig áður og er ég nokkuð viss um að það hjálpaði til að halda geðheilsunni en á meðan ég var að læra undir lokaprófin var ég mamma, eiginkona, Suzy housekeeper, ræktarrotta og á vinnunámskeiði.

Það eina sem ég vildi gera eftir að prófunum lauk og vinnan byrjaði var að sofa, sofa og sofa í frítímanum, orkan var núll og nix og er að koma hægt og rólega aftur til baka núna (mánuði seinna) eiginmaðurinn skildi ekkert í þessari hegðun minni og fannst ég ekkert gríðarlega skemmtileg.

Það er ekkert grín að vakna klukkan 03:50 til að mæta í vinnuna og koma síðan ekki heim fyrr en um 18:00, ræktin og hreyfingin hefur svo sannarlega setið á hakanum en núna er ég komin með nýtt prógram frá snillingnum sjálfum henni Freyju og það er svo sannarlega kominn tími til að prufa það ásamt nýja púlsmælinum mínum sem ég fékk á sprengitilboði hjá Fitness Sport.

Hér að neðan skelli ég síðan inn smá "motivation" myndum (spark í bossann myndir) og ætla að taka göngu upp á Þorbjarnarfell með Marranum í dag sem hefur verið mikið einn heima eftir að frúin byrjaði að vinna.
 Njótið dagsins molar!