Sunday, March 19, 2017

Litlu skrefin

Undanfarnar vikur hafa verið skrýtnar, furðulegar og eiginlega óútskýranlegar. Ekki líður sá dagur og varla sá klukkutími sem mér er ekki hugsað til hennar elsku Ölmu minnar, það er stórt skarð í hjartanu sem verður aldrei fyllt uppí, tómarúm sem nístir inn í dýpstu hjartarætur.

Dagarnir halda áfram, rútínan heldur áfram og maður reynir eftir bestu getu að halda kúlinu og hreinlega halda áfram sem gengur vel suma daga og aðra ekki, maður er innilega þakklátur fyrir góðu dagana, þeir eru yndislegir.

Við hjónin ræddum það fram og til baka hvort hann ætti að fara á sjó núna strax eftir verkfall. Ég var alveg tilbúin að tækla það verkefni og líka ekki tilbúin til þess en þetta er samt sem áður eitthvað sem varð að gera þar sem jú þetta er vinnan hans. Það að vera ein tekur á, líkamlega og andlega, heilmikið púsluspil sem tekst þó með hjálp foreldra og tengdaforeldra, án þeirra værum við ekki á þessum stað núna. Ómetanlegur stuðningur sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Það er einmannalegt að vera ein heima alla daga, öll kvöld, allar helgar og sjá um allt ein og fjári erfitt oft á tíðum. Sérstaklega þegar maður leyfir huganum að spá og spekúlera í ýmsum hlutum þegar hann fer á flakk, ó þessi blessaði haus manns, hvað, ef og hvers vegna?? Mikið ofboðslega hlakka ég til að fá manninn minn heim eftir nokkra klukkutíma og faðma hann fast.

Það er enginn á þeim stað sem við fjölskyldan erum á núna nema við. Við erum að fara í gegnum sorgarferli sem á eftir að taka langan tíma, ef ekki alla ævina og hver og einn mun takast á við það á sinn hátt. Eins og ég hef sagt áður; við munum ekki sigrast á sorginni heldur munum við reyna að læra að lifa með henni.

Hjá öðrum heldur lífið áfram sinn vanagang sem er fullkomlega eðlilegt en maður sjálfur er kannski ekki alveg tilbúinn að gera ýmislegt eða fara eitthvað, það er líka fullkomlega eðlilegt. Það er erfitt suma daga að gleyma sér í amstri dagsins, njóta, hlægja en við erum öll að reyna, hvert á sinn hátt.

Það er bara svo sjúklega sárt að sakna svona óendanlega mikið, erfiðara en orð fá lýst.



No comments:

Post a Comment