Wednesday, March 11, 2015

Ef að frúin færi á sjó

Þegar ég var lítil snót þá var pabbi á sjó, mamma sá um mig og bræður mína eins og ekkert væri og gerði það með stakri prýði. Þegar pabbi hætti á sjó sagðist ég aldrei, ALDREI ætla að ná mér í sjómann, boy was I wrong.......enda er framtíðin ekki ráðin þegar maður er um tíu til tólf ára aldurinn.

Þegar við Gummi kynntumst var þessi elska líka ekki sjómaður heldur fjallmyndarlegur smiður (hann er enn gordjöss þessi elska). Þar datt ég svo sannarlega í lukkupottinn enda erum við gift tæpum tólf árum seinna og eigum tvo drengi. Mér leiddist alveg hrikalega í fæðingarorlofunum mínum, mér fannst tíminn líða hægt, fór stundum ekki út úr húsi heilu og hálfu dagana og hreinlega fílaði þetta "ástand" ekki. Alls ekki!

Þegar Stefán Logi (yngri) var sex mánaða gamall leiddist mér svo mikið að ég skráði mig í fullt háskólanám sem ég ætla mér að ljúka í sumar en þá mun ég skrifa ritgerðina mína og skila henni inn seint í sumar. Á þessum tímapunkti var ég búin með sveinspróf í hársnyrtiiðn og stúdentspróf og 27 ára aldurinn nálgaðist, mig langaði að verða eitthvað! Var ekki viss um hvað það var en ákvað að skrá mig í fjölmiðlafræði og sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag, BA gráðan nálgast, loksins.

Í dag fjórum árum seinna er ég umsjónarkennari í fyrsta bekk, ennþá móðir tveggja drengja, hundur hefur bæst í vísitölufjölskyduna og Gumminn er á sjó! Já á S J Ó! Eitthvað sem átti ekki að gerast en neyðin kennir naktri konu (karli) að spinna þegar frúin ákveður að fara í háskólanám, Lín framfleytir seint fjögurra manna fjölskyldu.

Ég hef oft samt sem áður velt því fyrir mér hvað ef þessu væri snúið við? Ef að ég færi á sjó í 25-30 daga og væri bara heima annan hvern mánuð? Nú veit ég að það kemur svipur á marga en ég er ekki frá því að Rannslan myndi plumma sig vel sem háseti á togara, langaði alltaf að fara einn og einn túr á sumrin þegar ég var nokkrum árum yngri en Daddy cool hélt nú ekki og Gummi hlær ennþá þegar ég minnist á þetta.

Þrátt fyrir að hafa leiðst í fæðingarorlofum drengjanna minna þá elska ég þá afar heitt og hef alltaf verið til staðar fyrir þá, hef líka stundum þurft að vera mamman og pabbinn og tel mig hafa tekist á við það hlutverk nokkuð vel. Ég er ekki ofurkona, þetta er bara eitthvað sem þarf að gera og hafa margar konur tæklað þetta hlutverk með stakri prýði eins og mamma og gera enn þann dag í dag.

Mér líður vel á þeim stað sem ég er í dag í lífinu og ætla að láta draumana mína rætast í framtíðinni, ætla ekki að láta samfélagið ráða því hvaða vinnu ég vinn eða hvar ég vinn hana, ég er og verð alltaf mamma og mömmur þurfa líka að láta draumana sína rætast, lífið fer ekki í bið þegar litlir einstaklingar bætast í það. Þeir gera lífið innihaldsríkara og ennþá skemmtilegra.

Hættum að dæma þá sem láta draumana sína rætast og elska það sem þeir gera.


No comments:

Post a Comment