Saturday, November 22, 2014

Set mér markmið gegn sykurpúkanum


Fyrir akkúrat átta árum síðan var ég á fleygiferð í sjúkrabíl með lítinn prins í mallakútnum mínum en það gekk ekkert allt of vel að koma þessum dásamlega karakter í heiminn en hann komst að lokum í hann, heilbrigður og gullfallegur! Við höfum fagnað afmælisdegi í hann og er þessi elska í skýjunum eftir afmælisveislu dagsins.

Núna átta árum síðar er ég tveggja barna móðir, sjómannsfrú, í fullri vinnu og að klára háskólanámið mitt í vor. Það sem ég hef orðið vör við undanfarið að ég hef ekki verið að rækta sjálfa mig, það eru aðrir í forgang og þá sérstaklega þessir tveir dásamlegu drengir mínir. Ekki er ég að kvarta síður en svo því það var þrautin þyngri að fá að verða móðir og er ég þakklát fyrir það á hverjum degi.



Það virðist þó vera að við konur (eftir samræður við nokkrar stallsystur mínar) viljum setja allt annað í forgang nema okkur sjálfar, það er bara þannig. Eftir fullan vinnudag langar mig gjarnan út að hlaupa eða í ræktina en ég hef það ekki í mér að senda strákana í pössun eftir að hafa ekki séð þá allan daginn, þetta er gæðastundin okkar saman, sérstaklega þegar pabbinn er á sjó. Ekki kemst ég í ræktina eða aðra hreyfingu fyrir vinnu því þeir eru of litlir til að skilja þá eftir eina heima.


Hvað er þá til ráða? Jú setja sér markmið! En bara EITT í einu, ef þau eru of mörg þá á maður til að missa móðinn og gefast upp. Þess vegna hef ég ákveðið að hætta að borða sykur. Eins og við vitum flest þá er sykur ekkert annað en "eiturlyf" og gríðarlega ávanabindandi en ég sæki í hann eins íslendingar þegar ný verslun opnar í Kringlunni eða Smáralindinni!



Hvernig nær maður markmiðum sínum? Jú með því að skipuleggja sig, ég sé fram á það að ég þurfi að skipuleggja hvern dag fyrir sig og allar máltíðir dagsins, passa að verða ekki svöng og borða hollan og fjölbreyttan mat.

Mun þetta takast? Jiminn eini ég vona það svo sannarlega, ég er reyndar strax komin með kvíðahnút í mallakút því ég er svo stressuð fyrir þetta markmið mitt en ég get, ætla og skal ná því! Það þýðir ekkert annað!



Næsta skref er að gramsa á netinu og leita af hollum og góðum uppskriftum af máltíðum og millimálum og kíkja í kaupstaðaferð í höfuðborgina til að versla hollan og góðan mat fyrir vikuna.

Þessi miði er kominn á ísskápinn!


Fyrir mér er þetta líka fullkomið tækifæri til að innleiða hollara mataræði fyrir fjölskylduna mína en ég mun láta ykkur vita hvernig þetta gengur í vikunni, krossum putta og tær og vonum að þetta gangi súper dúper vel! 

Tuesday, November 18, 2014

Mannskepnan

.............er ólíkindatól. Svei mér þá hvað maður getur orðið hlessa og gáttaður á mörgu. Mér finnst frábær orð sem vinkona mín á Facebook setti inn:

Ég velti stundum fyrir mér hvort fólk sem notar tækifærið í hvert sinn sem eitthvað mál kemur upp í samfélaginu til að dæma aðra og gjörðir þeirra með því að nota gífuryrði og dómhörku sé fólk sem aldrei gerir mistök og hvort fólkið sem þeim stendur næst hafi aldrei gert mistök?

Það er mikið til í þessu! 

Getum við dæmt fólk án þess að þekkja það og tekið mark á því sem aðrir segja án þess að þekkja viðkomandi aðila?

Elsku þú-þið og allir.

Ég vona svo sannarlega að þið munið aldrei misstíga ykkur á lífsleiðinni en passið ykkur, þið vitið aldrei hvað gerist næst, lífið tekur oft óvænta stefnu enda er það ekki hrein og bein lína heldur holóttur vegur sem er stundum erfiður yfirferðar og stundum ekki.




Sunday, November 16, 2014

Þakklæti

Er mér efst í huga akkúrat þessa stundina. Elsku þið sem hafið sent mér fallegar kveðjur, hlý orð og hrósað mér úti á götu, takk kærlega fyrir, ég met þetta meira en þið getið ímyndað ykkur.

Ég hafði greinilega ekki gert mér grein fyrir því hversu þungt þetta lá á mér en ég var búin að burðast með þennan kvíða og ónotaköggul í maganum meira en hálfa ævina, það er gott að létta af sér og koma þessu út í kosmósinn.

Mamma hafi ekki lesið pistilinn og daginn eftir að ég skrifaði hann fór ég í heimsókn til hennar og las hann fyrir hana upphátt-í fyrsta sinn en ég hafði alltaf haft þetta fyrir framan mig á tölvuskjánum eða inn í mér, ekki lesið þetta upphátt sjálf. Hvað gerðist? Ég hágrét, grét eins og fimm ára gamalt barn sem hafði meitt sig og þurfti á mömmuknúsi að halda, þrátt fyrir að vera hágrátandi og nánast með ekka leið mér ekki illa því það var mjög gott að koma þessu frá sér og anda djúpt!

Eftir að ég las grein um ungan dreng í Noregi sem tók sitt eigið líf vegna eineltis ákvað ég að skrifa þennan pistil og birta hann en þegar ég las söguna hans þá grét ég eins og það hefði verið opnað fyrir flóðgáttir. Það á engum að þurfa að líða svona illa eða halda að tilvist sín hér á jörðinni sé einskis nýt.

Enn og aftur takk fyrir mig elskurnar..............


Tuesday, November 11, 2014

Einelti situr á sálinni í langan tíma

Ég stóð inn á kaffistofu um daginn í vinnunni og ræddi þar við samstarfskonu mína sem er einnig umsjónarkennari og þar vorum við að ræða einelti en ég sagði frá því í óspurðum fréttum áður að ég hefði orðið fyrir einelti í grunnskóla í nokkur ár og þá varð hún einnig fyrir einelti í sama grunnskóla  á sínum unglingsárum. Eineltið sem ég varð fyrir var frá sirka fjórða/fimmta bekk og upp í áttunda bekk en þá var fundin lausn á vandanum sem var að hluta til ég því ég gerði eða sagði hlutina svona eða hinsegin sem hinum líkaði ekki og var mér gert að breyta þeirri hegðun sem og ég gerði en ég á aldrei eftir að gleyma þeim samræðum að setjast niður með kennaranum mínum ásamt gerendum til að ræða gallana mina sem ég þyrfti að laga, að sjálfsögðu var gerendunum einnig gert að koma betur fram við mig sem varð raunin.

Ég og samstarfskonan mín vorum þó sammála því að þegar við fórum í aðra skóla þá leið okkur betur, við umgengumst ekki mikið fólkið frá okkar heimabæ og nýjar persónur mynduðust í raun og veru. Sjálfri fannst mér gríðarlega mikið frelsi að fá að flytja út á land með manninum mínum og syni þar sem ég var óskrifað blað. Enginn þekkti mig eða mína fortíð og mér fannst ég vera að byrja upp á nýtt. Þar ræddi ég einnig eineltið í raun og veru fyrst af alvöru við einhvern annan en nákominn aðila og þá áttaði ég mig á því að einelti á aldrei að þagga niður því svona hlutir sitja á sálinni hjá manni um ókomna tíð og ég er enn að glíma við ýmislegt sem tengist því að hafa orðið fyrir einelti.

Það að vera algjörlega útskúfaður af sínum jafnöldrum er staða sem ég óska engu barni sem er í skóla eða neinum almennt í lífinu því einelti er jú víðar heldur en bara í skólum. Ég var uppnefnd, pening var stolið af mér, hlutum var stolið af mér og þeir faldir, ó já og ég gleymi því seint þegar ég mætti alsæl í sund í nýju skópari en sú gleði varði ekki lengi því þegar uppúr var komið var annar skórinn horfinn og það var búið að grafa hann ofan í holu út í hrauni en það tók langan tíma fyrir gerandann að viðurkenna verk sitt en þá var búið að gera dauðaleit af skónum, það að labba heim í einum skó var einnig lítil skemmtun.

Snjódagar voru ekki bara snjóþungir heldur einnig líkamlega þungir því kaffæring var óhjákvæmanleg, að fá mig til að gráta veitti mörgum gleði í hjartanu að ég held og ég gæti haldið lengi áfram en held að þessi upptalning dugi alveg.

Á tímabili var ég komin með alveg nóg og kvíðahnúturinn í maganum var orðinn svo mikill að ég ældi á hverjum virkum morgni í þrjár vikur til þess að sleppa við skólann, ég gat að sjálfsögðu ekki farið með ælupest í skólann-eða var þetta ælupest? Þetta var í sjöunda bekk og ég þurfti að taka samræmdu prófin í 7.bekk heima því ég var svo lasin og lítið búin að mæta í skólann.

Að hafa orðið fyrir einelti er eitthvað sem fylgir manni alla ævi og mótar manneskju fyrir lífstíð, ég er nokkuð viss um að ég myndi tala öðruvísi til mín í dag ef ég hefði ekki orðið fyrir þessari lífsreynslu en að tala niður til mín er daglegt brauð því ég má ekki gera of miklar væntingar þar sem að mér gæti mistekist, ég sagt eitthvað vitlaust eða útlitið á mér í dag er kannski ekki á nógu háu leveli. Æji maður er stundum svo klikkaður í höfðinu að minnstu smáatriði eru farin að skipta máli, sem skipta í raun og veru engu máli.

Núna er ég komin í  hlutverk sem ég hef sinnt af bestu getu í átta ár en það er að vera móðir tveggja drengja. Mitt markmið sem foreldri þeirra og uppalandi er að þeir sjái alltaf það besta í fólki, ég hef tileinkað mér það að dæma ekki aðra áður en ég kynnist þeim-gefa þeim tækifæri, sjá þá sem óskrifað blað og taka þeim eins og þeir eru, því öll erum við einstök og enginn okkar er eins. Við vitum ekki hvað fólk er að glíma við heimafyrir eða innan í sér. Öll eigum við rétt á okkar tilvist og ég er bara ég, þér má alveg líka illa við mig en ég vona að þú gefir mér tækifæri áður en þú dæmir mig.

Þá er þessi þungi steinn farinn af brjóstkassanum, pistil eða ritgerð sem hefur verið í bígerð í dágóðan tíma. Af hverju að halda þessu leyndu, lokuðu eða þar frameftir. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er langt frá því að vera fullkomin og hef eflaust gert á hlut einhvers á minni lífsleið og ég vona svo sannarlega að viðkomandi fyrirgefi mér það.

Við verðum að fræða börnin okkar og líta líka í eigin barm. Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.  



Friday, November 7, 2014

Þegar maður missir tökin á sjálfum sér

Það er akkúrat það sem ég hef gert.........engar hömlur, stanslaust át, óhollustan í fyrirrúmi, sífelldar afsakanir, álag, stress og svo lengi mætti telja.

Ég lofa mér alltaf öllu fögru alla daga alla 365 daga ársins en hvað gerist, akkúrat ekkert. Ég held mér fyr og flamme og í góðu formi í einn til tvo mánuði og svo bara bless bless! Öll rökhugsun hverfur og nautnin að njóta sælgætismola í nokkrar sekúndur eða að fá sér eitthvað unaðslegt bakkelsi, jú og Honey Nut Cheeriosið er á leiðinni á bannlista inn á heimilið.

Hvernig stendur á þessu? Ég passa vel upp á að synirnir séu snyrtilegir, fái að borða, læri heima, mæti á réttum tíma þar sem þeir eiga að vera (jú og ég líka) stundvísi er æðisleg, best í heimi. En að huga að eigin líkama og sál og innri frið er lífsins ómögulegt!

Ég þarf að komast í jóga aftur, byrja að hreyfa mig og taka til í óþekktarpúkanum innan í mér sem er alltaf að segja að það sé allt í lagi að sukka og borða skítamat. Persónulega líður mér alltaf betur þegar ég borða hollan mat og stunda skemmtilega hreyfingu. Það að vakna stíf, stirð og öll bólgin alla morgna er ekki lengur skemmtilegt!


Wednesday, November 5, 2014

Að kunna að samgleðjast með öðrum





Það virðast allir hafa skoðun á einhverju, hvort sem það er pólitík, vinna, nám, hvort mjólkin sé holl eða óholl fyrir þig og hvort vatn sé raunverulega eins hollt og sagt er......



Það er allt í góðu að hafa skoðanir á hinu og þessu en þó að þú hafir gert hlutina svona og svona allt þitt líf þá er ekki þar með sagt að ég eða Jón Jónsson viljum gera það líka. Við verðum líka að læra að nota gagnrýna hugsun og ekki alltaf trúa því sem okkur er sagt strax eða það er að minnsta kosti eitthvað sem ég hef tileinkað mér.



Mér finnst líka oft vanta gleði og ánægju hjá fólki og sumir virðast einfaldlega ekki geta samglaðst með öðrum, bara no way Jose!! Hvað er það?? Af hverju má ekki vera glaður ef einhverjum öðrum gengur vel, sama á hvaða sviði það er? Ég verð að minnsta kosti afar glöð ef vinum mínum eða fjölskyldu gengur vel á einhverju sviði, þó það sem sá einstaklingur er að gera henti mér ekki er það eitthvað sem hentar honum þá bara don´t worry-be happy!

Það eru eflaust margir sem geta ekki glaðst yfir einu né neinu sem ég er að gera eða mínir nánustu en so be it, við erum bara afar glöð með það sem við erum að gera. Skammdegið er að hellast yfir okkur og skítaveður farið að banka uppá, verður maður ekki bara að taka því með bros á vör og njóta þess að geta kúrt með kertaljós og í kósýsokkum upp í sófa.



Æji njótum bara, við eigum bara þetta eina líf, ég nenni allavega ekki að eyða því í fýlu.....

Tuesday, November 4, 2014

Að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur




Ég er stundum óttalega meyr og finnst allt svo dásamlega yndislegt. Suma daga langar mig bara að faðma heiminn og dásama það sem ég á og hef. Ég held að í samfélaginu okkar í dag finnist okkur og jafnvel börnunum okkar sumir hlutir sjálfsagðir, ég hef upplifað það sjálf sem barn og sé að synir mínir eru stundum þannig.

Við hjónin erum nýkomin heim frá Boston og syni mínum fannst það bara alveg sjálfsagt að við keyptum hitt og þetta án þess að blikka auga. Hann fékk ekki allt sem hann bað um (eða það bíður til jóla og afmælis) og ég held að við þurfum að kenna börnunum okkar að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut. Hann var samt sem áður afar glaður með það sem hann fékk og þakkaði okkur kærlega fyrir, þó sérstaklega fyrir Fifa 15 leik í tölvuna sína-hann hefði verið sáttur bara með hann.



Ég er til dæmis ofboðslega þakklát fyrir að eiga fjölskylduna mína að, Gummi minn er yndislegur og stundum skil ég ekki (og örugglega aðrir) hversu lengi hann hefur hangið með mér, komin tæp tólf ár takk fyrir en ég er ekki sú auðveldasta í sambúð held ég en er alltaf að bæta mig og að vinna í sjálfri mér sem ég held að sé reyndar eilífðarverkefni.

Synir mínir eru algjörir gullmolar (þó ég segi sjálf frá) en að fá þá til að vera til og lifa í þessum heimi var þrautin þyngri og oft á tíðum var ég að gefast upp á allt og öllu því það gekk ekkert upp og að eiga börn hvað þá heilbrigð er eitthvað sem ég þakka fyrir á hverjum degi.



Foreldrar mínir hafa alltaf verið mín stoð og stytta og betri eintök er ekki hægt að eiga að sannkallaðir gullmolar. Það sama get ég sagt um tengdaforledra mína en þau eru svo sannarlega dásamleg-hvað þá sem "tengdó" eintök (trúið mér ég hef heyrt ýmsar hryllingssögur sem varða tengdaforeldra). Það er þeim öllum að þakka að Gummi getur stundað sjómennsku og ég fæ aðstoð frá þeim öllum ef eitthvað bjátar á eða mig vantar pössun.




Ég er líka bara þakklát fyrir allt það sem ég á og hef, gæti ekki beðið um meira-fyrir hvað ert þú þakklát/þakklátur fyrir?

Sunday, November 2, 2014

Sunnudagur til leti, áts og meiri leti


Suma sunnudaga vakna ég einfaldlega svona eins og hann Benedikt vinur minn, ég hreinlega verð að fá köku! Ætla ekki einu sinni að reyna að skrifa eftirnafnið hans en þessi leikari er magnaður, hólí mólí.

 Dagurinn í dag hefur einmitt verið ansi huggulegur. Byrjaði þó með smá þrifum og tiltek en það tók nú ekki langan tíma. Pakki af Betty leyndist í skápnum hjá mér og út frá því kviknaði hugmynd að bjóða fólki í bröns, já það þarf ekki meira til í höfðinu á mér en einn pakki af súkkulaði Betty til að koma öllu af stað. 


Boðið var upp á Betty, salsadýfu og snakk og amerískar pönnsur með sýrópi og ferskum jarðaberjum, gestirnir fóru rúllandi saddir heim og frúin er ennþá rúlllandi södd og komin í sweatpants!


Lögn var það síðan heillin eftir að litli stuðboltinn sofnaði í sófanum hjá mér og kvöldmaturinn verður í léttari kantinum, jafnvel bara súkkulaðikaka eða eitthvað auðvelt-hey það er bara sunnudagur einu sinni í viku!


Sunnudagar mættu alveg vera oftar en einu sinni í viku mín vegna.........