Sunday, February 22, 2015

Síðustu dagar......

Hafa verið stórfurðulegir svo fátt annað sé sagt. Þegar kletturinn í fjölskyldunni, sá sem er alltaf mættur fyrstur til að hjálpa manni, hefur alltaf verið til staðar fyrir mann og gerir allt fyrir mann er settur í pant og kippt niður mjög snögglega þá veit maður eiginlega ekki hvað maður á að gera.

Pabbi fékk vægt hjartaslag í vikunni og hefur verið á spítalanum síðan en hann er á leiðinni í hjáveituaðgerð í næstu viku en aðgerðirnar gerast varla stærri. Úff ykkur finnst ég án efa vera full dramatísk en ég ætla bara alveg að leyfa mér að vera dramatísk því maður er ennþá í sjokki, við erum öll í sjokki.



Ástæðan fyrir því að við erum líka í sjokki er að pabbi hefur alltaf verið mjög hraustur, aldrei verið neitt alvarlegt að honum og ef hann tekur sér veikindadag þá er hann virkilega veikur, það þurfti ansi mikið til, til dæmis þegar hann fékk nýrnasteina að hann myndi hætta að keyra en hann og mamma voru á heimleið þegar þau voru fyrir austan hjá okkur þegar hann fékk nýrnasteinakast og mamma bókstaflega þvingaði manninn frá stýrinu! Minn maður lét líka fótbrot ekki stöðva sig að mæta í vinnu, mamma skutlaðist bara með hann á milli staða á meðan hann skoppaði á hækjunum.

Ef mig vantar aðstoð þá er pabbi alltaf fyrstur á staðinn, hann hjálpar mér að mála, vippar fram tröppum á núll einni, keyrir með mig í bæinn til læknis ef að strákarnir eru veikir og svo framvegis. Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa, var kölluð einkadóttir skipstjórans á mínum yngri árum og ekki hefur það minnkað að vera pabbastelpa þrátt fyrir að ég sé orðin þrítug, ég er og verð alltaf litla stelpa foreldra minna, þrátt fyrir að við hlægjum mikið af því að yngsta trippið sé orðið þrítugt!



Það er þó mömmu að þakka að pabbi er á spítalanum núna, hann fór í vinnu þrátt fyrir að hafa verið með verki um nóttina og ekkert sofið og var ekkert að kvarta fyrr en að mamma sá að það var ekki allt eins og það átti að vera hjá kallinum sínum. Enda þekkir mamma hann manna best, búin að vera gift honum í 40+ ár. Hún á svo sannarlega hrós skilið fyrir að vera hörð á sínu og skipa honum að fara á heilsugæsluna en þar var hann settur í hjartarita og út frá því var pantaður sjúkrabíll með forgang.

Við vitum ekki ennþá hvenær aðgerðin fer fram en vonandi í vikunni, pabbi er undir eftirliti allan sólahringinn núna og mikið afskaplega erum við þakklát fyrir að hann er á hjartadeildinni hjá frábæru starfsfólki sem dekstrar við hann allan daginn og nætur. Hann er enn að fá smá verki en sem betur fer er hann í góðum höndum og hægt að grípa inn í strax, ég og við öll viljum ekki hugsa til þess hvað hefði komið fyrir ef hann væri ekki inn á spítalanum núna enda segja læknarnir að það hefði ekki mátt tæpara standa.

Við erum bjartsýn og ég veit að margir hafa farið í svona aðgerð og komið betri til baka, það er svo sannarlega það sem við stefnum líka að, að fá kallinn tvíelfdan til baka og við hjálpumst öll að núna, stöndum þétt saman og tökumst á við þetta verkefni. Ætla að leyfa þessum hádramatísku orðum að standa, enda er ég ekki þekkt fyrir neitt annað en að vera dramatísk. Það er bara þannig þegar manni þykir svona vænt um pabba sinn, maður getur ekki hugsað til þess hvað hefði getað gerst.


Friðrik Franz og pabbi kampakátur á spítalanum.

No comments:

Post a Comment