Tuesday, November 11, 2014

Einelti situr á sálinni í langan tíma

Ég stóð inn á kaffistofu um daginn í vinnunni og ræddi þar við samstarfskonu mína sem er einnig umsjónarkennari og þar vorum við að ræða einelti en ég sagði frá því í óspurðum fréttum áður að ég hefði orðið fyrir einelti í grunnskóla í nokkur ár og þá varð hún einnig fyrir einelti í sama grunnskóla  á sínum unglingsárum. Eineltið sem ég varð fyrir var frá sirka fjórða/fimmta bekk og upp í áttunda bekk en þá var fundin lausn á vandanum sem var að hluta til ég því ég gerði eða sagði hlutina svona eða hinsegin sem hinum líkaði ekki og var mér gert að breyta þeirri hegðun sem og ég gerði en ég á aldrei eftir að gleyma þeim samræðum að setjast niður með kennaranum mínum ásamt gerendum til að ræða gallana mina sem ég þyrfti að laga, að sjálfsögðu var gerendunum einnig gert að koma betur fram við mig sem varð raunin.

Ég og samstarfskonan mín vorum þó sammála því að þegar við fórum í aðra skóla þá leið okkur betur, við umgengumst ekki mikið fólkið frá okkar heimabæ og nýjar persónur mynduðust í raun og veru. Sjálfri fannst mér gríðarlega mikið frelsi að fá að flytja út á land með manninum mínum og syni þar sem ég var óskrifað blað. Enginn þekkti mig eða mína fortíð og mér fannst ég vera að byrja upp á nýtt. Þar ræddi ég einnig eineltið í raun og veru fyrst af alvöru við einhvern annan en nákominn aðila og þá áttaði ég mig á því að einelti á aldrei að þagga niður því svona hlutir sitja á sálinni hjá manni um ókomna tíð og ég er enn að glíma við ýmislegt sem tengist því að hafa orðið fyrir einelti.

Það að vera algjörlega útskúfaður af sínum jafnöldrum er staða sem ég óska engu barni sem er í skóla eða neinum almennt í lífinu því einelti er jú víðar heldur en bara í skólum. Ég var uppnefnd, pening var stolið af mér, hlutum var stolið af mér og þeir faldir, ó já og ég gleymi því seint þegar ég mætti alsæl í sund í nýju skópari en sú gleði varði ekki lengi því þegar uppúr var komið var annar skórinn horfinn og það var búið að grafa hann ofan í holu út í hrauni en það tók langan tíma fyrir gerandann að viðurkenna verk sitt en þá var búið að gera dauðaleit af skónum, það að labba heim í einum skó var einnig lítil skemmtun.

Snjódagar voru ekki bara snjóþungir heldur einnig líkamlega þungir því kaffæring var óhjákvæmanleg, að fá mig til að gráta veitti mörgum gleði í hjartanu að ég held og ég gæti haldið lengi áfram en held að þessi upptalning dugi alveg.

Á tímabili var ég komin með alveg nóg og kvíðahnúturinn í maganum var orðinn svo mikill að ég ældi á hverjum virkum morgni í þrjár vikur til þess að sleppa við skólann, ég gat að sjálfsögðu ekki farið með ælupest í skólann-eða var þetta ælupest? Þetta var í sjöunda bekk og ég þurfti að taka samræmdu prófin í 7.bekk heima því ég var svo lasin og lítið búin að mæta í skólann.

Að hafa orðið fyrir einelti er eitthvað sem fylgir manni alla ævi og mótar manneskju fyrir lífstíð, ég er nokkuð viss um að ég myndi tala öðruvísi til mín í dag ef ég hefði ekki orðið fyrir þessari lífsreynslu en að tala niður til mín er daglegt brauð því ég má ekki gera of miklar væntingar þar sem að mér gæti mistekist, ég sagt eitthvað vitlaust eða útlitið á mér í dag er kannski ekki á nógu háu leveli. Æji maður er stundum svo klikkaður í höfðinu að minnstu smáatriði eru farin að skipta máli, sem skipta í raun og veru engu máli.

Núna er ég komin í  hlutverk sem ég hef sinnt af bestu getu í átta ár en það er að vera móðir tveggja drengja. Mitt markmið sem foreldri þeirra og uppalandi er að þeir sjái alltaf það besta í fólki, ég hef tileinkað mér það að dæma ekki aðra áður en ég kynnist þeim-gefa þeim tækifæri, sjá þá sem óskrifað blað og taka þeim eins og þeir eru, því öll erum við einstök og enginn okkar er eins. Við vitum ekki hvað fólk er að glíma við heimafyrir eða innan í sér. Öll eigum við rétt á okkar tilvist og ég er bara ég, þér má alveg líka illa við mig en ég vona að þú gefir mér tækifæri áður en þú dæmir mig.

Þá er þessi þungi steinn farinn af brjóstkassanum, pistil eða ritgerð sem hefur verið í bígerð í dágóðan tíma. Af hverju að halda þessu leyndu, lokuðu eða þar frameftir. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er langt frá því að vera fullkomin og hef eflaust gert á hlut einhvers á minni lífsleið og ég vona svo sannarlega að viðkomandi fyrirgefi mér það.

Við verðum að fræða börnin okkar og líta líka í eigin barm. Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.  



5 comments:

  1. Flott hjá þér, þú ert frábær og ég rík að hafa fengið að kynnast þér elsku vinkona :-D Stefnum á kaffihitting þegar ég kem á Suðurnesin í desember ;-)

    ReplyDelete
  2. Takk fyrir falleg orð elsku vinkona sömuleiðis!
    Já ég er sko til í smá hitting :D

    ReplyDelete
  3. Fràbært hjà þér að stíga fram! Augljòslega fràbær fyrirmynd fyrir syni þìna tvo, nemendur sem og alla aðra ì samfélaginu :)

    ReplyDelete
  4. Rosaleg er þetta flott hjá þér Rannveig mín og hugrökk ertu líka .. Knús úr fegursta firðinum

    ReplyDelete