Monday, February 23, 2015

Að ganga svo langt að líkaminn gefur sig


Ég hef oft talað um það og skrifað um það hversu mikil áhrif samfélagið okkar hefur á hvernig við lítum út. Þú ert ekki almennilega viðurkennd/kenndur nema að þú sért grönn eða grannur, því jú feitt fólk er bara heimskt, er það ekki annars? Miðað við hvernig komið er fram við fólk sem hefur einhver aukakíló á sér þá mætti halda það.

Við myndum samfélagið, við erum þau sem mótum hvort annað, við sitjum við eldhúsborðið og smjöttum okkar á milli að Gunna Jóns sé búin að bæta aðeins á sig eða er svona og hinsegin. Við erum líka einstaklingar, höfum sál, okkar líkama og eigum rétt á því að vera eins og við erum.

Þetta er að minnsta kosti það sem ég er að reyna að innræta hjá mínum nemendum, litlum elskum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum stóra heimi sem fyrstu bekkingar. Við getum gert svo mikið til þess að gera hlutina fallegri, betri og skemmtilegri.

Er með sting í hjartanu eftir að hafa horft á Kastljósið og séð viðtalið við hana Heiðu, gullfalleg kona í blóma lífsins sem vildi líta sem best út, því grannar konur eru konur á framabraut, lúkkið er allt. Lúkkið er ekki allt þegar hjartað stoppar og heimurinn þinn og fjölskyldu þinnar stoppar.

Fögnum fjölbreytileikanum, heimurinn væri ekki samur án hans. Við eigum öll rétt á því að vera við sjálf, tala á vigt eða fituprósenta skiptir ekki máli.

Sunday, February 22, 2015

Síðustu dagar......

Hafa verið stórfurðulegir svo fátt annað sé sagt. Þegar kletturinn í fjölskyldunni, sá sem er alltaf mættur fyrstur til að hjálpa manni, hefur alltaf verið til staðar fyrir mann og gerir allt fyrir mann er settur í pant og kippt niður mjög snögglega þá veit maður eiginlega ekki hvað maður á að gera.

Pabbi fékk vægt hjartaslag í vikunni og hefur verið á spítalanum síðan en hann er á leiðinni í hjáveituaðgerð í næstu viku en aðgerðirnar gerast varla stærri. Úff ykkur finnst ég án efa vera full dramatísk en ég ætla bara alveg að leyfa mér að vera dramatísk því maður er ennþá í sjokki, við erum öll í sjokki.



Ástæðan fyrir því að við erum líka í sjokki er að pabbi hefur alltaf verið mjög hraustur, aldrei verið neitt alvarlegt að honum og ef hann tekur sér veikindadag þá er hann virkilega veikur, það þurfti ansi mikið til, til dæmis þegar hann fékk nýrnasteina að hann myndi hætta að keyra en hann og mamma voru á heimleið þegar þau voru fyrir austan hjá okkur þegar hann fékk nýrnasteinakast og mamma bókstaflega þvingaði manninn frá stýrinu! Minn maður lét líka fótbrot ekki stöðva sig að mæta í vinnu, mamma skutlaðist bara með hann á milli staða á meðan hann skoppaði á hækjunum.

Ef mig vantar aðstoð þá er pabbi alltaf fyrstur á staðinn, hann hjálpar mér að mála, vippar fram tröppum á núll einni, keyrir með mig í bæinn til læknis ef að strákarnir eru veikir og svo framvegis. Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa, var kölluð einkadóttir skipstjórans á mínum yngri árum og ekki hefur það minnkað að vera pabbastelpa þrátt fyrir að ég sé orðin þrítug, ég er og verð alltaf litla stelpa foreldra minna, þrátt fyrir að við hlægjum mikið af því að yngsta trippið sé orðið þrítugt!



Það er þó mömmu að þakka að pabbi er á spítalanum núna, hann fór í vinnu þrátt fyrir að hafa verið með verki um nóttina og ekkert sofið og var ekkert að kvarta fyrr en að mamma sá að það var ekki allt eins og það átti að vera hjá kallinum sínum. Enda þekkir mamma hann manna best, búin að vera gift honum í 40+ ár. Hún á svo sannarlega hrós skilið fyrir að vera hörð á sínu og skipa honum að fara á heilsugæsluna en þar var hann settur í hjartarita og út frá því var pantaður sjúkrabíll með forgang.

Við vitum ekki ennþá hvenær aðgerðin fer fram en vonandi í vikunni, pabbi er undir eftirliti allan sólahringinn núna og mikið afskaplega erum við þakklát fyrir að hann er á hjartadeildinni hjá frábæru starfsfólki sem dekstrar við hann allan daginn og nætur. Hann er enn að fá smá verki en sem betur fer er hann í góðum höndum og hægt að grípa inn í strax, ég og við öll viljum ekki hugsa til þess hvað hefði komið fyrir ef hann væri ekki inn á spítalanum núna enda segja læknarnir að það hefði ekki mátt tæpara standa.

Við erum bjartsýn og ég veit að margir hafa farið í svona aðgerð og komið betri til baka, það er svo sannarlega það sem við stefnum líka að, að fá kallinn tvíelfdan til baka og við hjálpumst öll að núna, stöndum þétt saman og tökumst á við þetta verkefni. Ætla að leyfa þessum hádramatísku orðum að standa, enda er ég ekki þekkt fyrir neitt annað en að vera dramatísk. Það er bara þannig þegar manni þykir svona vænt um pabba sinn, maður getur ekki hugsað til þess hvað hefði getað gerst.


Friðrik Franz og pabbi kampakátur á spítalanum.

Monday, February 16, 2015

Af bjútí- tipsum og öðru misgáfulegu.....

Ég ákvað í sakleysi mínu að leggja fram spurningu inn á Beautytips hóp sem ég er inn á á Facebook, sú síða er reyndar ætluð konum á aldrinum 25 ára og uppúr. Spurningin var óttalega kurteisilega borin fram og það var ekkert nema forvitnin sem varð til þess að ég lagði hana fram.


Hér er myndin umrædda eða "skjáskotið" sem ég tók af Facebook síðu Ultratone Reykjanesbæ til að forvitnast um það hvort að einhver stúlka/kona hefði prufað svona meðferð, ekki var ég að biðja um neitt annað álit eða önnur svör, bara já/nei, virkar/virkar ekki og svo framvegis.

Fannst ferlega fyndið þegar ein túlkaði þetta sem sjálfsniðurrif, ég átti nú að gjöra svo vel að koma mér í bíó eða fá mér ís!! K R Æ S T! Svona lið, sumir fá held ég hreinlega út úr því að vera með derring og annað á netinu. Sakleysisleg spurning var sett (að hennar mati) fram sem sjálfsniðurrif og já ég var líka spurð út í það hvort ég héldi virkilega að fita gæti orðið vöðvar!

Æ Karamba! Ég held ég hugsi mig tvisvar sinnum um áður en ég varpa svona "bombu" aftur hjá þessum hóp. Fékk reyndar mjög góð viðbrögð með ofvirku svitakirtlana mína, kannski var það líka sjálfsniðurrif? Veit ekki....er nokkuð svitafýla af mér?

Sunday, February 15, 2015

Svolítið smart naglalakk


Eða ætti ég frekar að segja sjúklega smart naglalakk? Já þetta lakk er sjúklega smart og dásamlega lekkert, vá mætti halda að ég væri á prósentum en svo er ekki því ég fjárfesti í þessu lakki þegar ég skaust í bókstaflegri merkingu til Boston í fyrra.

Hafði heyrt mikið um þetta lakk og séð það hér og þar hjá bloggurum og annarsstaðar en þetta lakk er pínu öðruvísi en önnur lökk þar sem að það er með metalic áferð, það finnst mér gera það svo agalega lekkert svei mér þá.


Ég hef þó ekki verið dugleg að nota þetta lakk enda er erfitt að gramsa í naglalakkaskúffunni minni því það er svo mikið af lökkum í henni og ég gríp stundum næsta lakk sem ég sé. Ég var líka alls ekki ánægð með endinguna á því síðast en það skrapaðist og eiginlega eyddist á núll einni EN núna ákvað ég að prufa að setja Top yfir það og er spennt að sjá hvort það geri gæfumuninn, ef svo verður þá mun ég örugglega ekki taka þetta lakk af nöglunum á næstunni.


Lakkið umrædda heitir Penny Talk og er frá Essie, lakkið fæst þó ekki hér á landi nema að þú sért í Fríhöfninni, en er maður þá ekki löglega kominn til útlanda þegar farseðillinn og passinn er mættur upp í flugstöð? Jú svei mér þá! Ég splæsti í mitt í Target, minni allra uppáhalds búð í USA en ég er nokkuð viss um að það sé hægt að fjárfesta í því í Evrópu. 

Mæli með þessu smarta lakki!


Saturday, February 14, 2015

Kennslukonudressin

Ég á það til að ofhugsa það sem ég ætla að klæða mig í á hverjum degi, ef ég er ekki komin með einhverja hugmynd eða grunn af því sem ég ætla að vera í næsta dag þá er ég í bobba morguninn eftir. Fataskápurinn minn er troðfullur af flíkum og oftar en ekki enda ég á því að vera í því sama viku eftir viku en er samt að taka mig á og reyni að vera í sem flestu af því sem ég á með því að nota mismunandi fatasamsetningar. Ég er þó aldrei í sömu flíkinni tvo daga í röð, það er tabú fyrir mér, nett klikkun ég veit!!

Þetta er náttúrulega á jaðrinum við það að vera nett geðbilun og ég er með kaupsýki af verstu gerð í þokkabót, kræst mér er ekki viðbjargandi! Ég ákvað að taka mynd af mér á hverjum morgni til að spá aðeins í því sem ég er í á hverjum degi. Stundum er ég fín en aðra daga er ég mun afslappaðri í fatavalinu en flest fötin mín snúast um þægindi, nema kannski einhver súper fín föt eða svona föt sem ég nota ekki á hverjum degi.

Ætla að leyfa ykkur að sjá vikuna hjá mér en bið ykkur innilega afsökunar á myndatökunni við myndirnar, selfies af verstu gerð, spurning að ráða Friðrik í ljósmyndaradjobb næst þegar ég tek upp á þessu.




Mánudagur:

Hér var ég ekkert búin að pæla í því í hverju ég ætlaði að vera í á sunnudeginum. Þægilegheit urðu því fyrir valinu. 
Peysa: H&M-mín allra uppáhalds!
Buxur: Levi´s
Bolur: Levi´s
Skór: Hvítir Air Max. 


Þriðudagur:

Hér nennti ég engan veginn að vera í einhverju öðru en ofur þægilegum fötum
Buxur: H&M
Peysa: Palóma
Bolur: Vero Moda
Hálsmen: Forever 21
Já ég er berfætt, mér líður afskaplega vel þannig.


Miðvikudagur:

Já nú er kellan komin í fansý gírinn!
Kjóll: VILA
Peysa: VILA
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)


Fimmtudagur:

Hér er ég í peysu sem ég var búin að gleyma, ég meina það-hvað er að!
Kjóll: VILA
Peysa: Vero Moda
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)
Hálsmenið er með rúnaletri og ég fékk það í fermingargjöf.


Föstudagur:

Kjóll: H&M
Peysa: Forever 21
Sokkabuxur: Oroblu (Palóma)


Hér er seinna dress föstudagsins þegar við hjónin fórum í leikhús og út að borða með vinnunni.

Hlýrabolur: Gallerý 17- Moss
Skyrta: Palóma
Buxur: Palóma
Jakki: Palóma, minn allra allra uppáhalds þessa dagana
Skór: Kaupfélagið minnir mig, er alltaf í þessum skóm þegar ég fer eitthvað spari, elska þá í döðlur!








Wednesday, February 11, 2015

Kaupfíkill af verstu gerð..........

Ég sit hér slefandi í sófanum með tölvuskjáinn fyrir framan mig vegna þess að ég var að skoða nýju sendingarnar frá Vila og Vero Moda á Facebook. Það er eiginlega stórhættulegt að vera með þessar síður á Fésinu þar sem að ég fæ alltaf hland fyrir hjartað þegar ég sé myndirnar frá þeim og langar helst að kaupa sirka 70% af því sem ég skoða.

Ég sæki það nú ekki að elska föt í sjötta lið en við mamma eigum það sameiginlegt að finnast dásamlegt að finna okkur fallegar flíkur, reyndar deilum við líka skófíkninni en það er annar kapítuli út af fyrir sig. Ég hef sagt frá því áður að ég hef gert mér sérferð (eða gert ferð úr því) að kaupa mér eitthvað því ég sé mynd af því á Facebook.

Ætli að ég búi mér til ferð í vikunni? Nei fjandinn Gumminn sér strax í gegnum það og æji já ég er víst að safna fyrir Æfón seksý!

Hér að neðan má sjá þær flíkur sem ég þrái, algjörlega ÞRÁI í augnablikinu, ó mig auma...........

Ég elska þægilega kjóla, þessi er sjúklega kósý og hyggelig

Samfestingur, já Rannslan elskar svoleiðis stöff. Smart litur líka

Rúllukragakósýkjóll, nammi namm!

Guð minn góður, eigum við að ræða þessi smartheit eða?

Þessi litur!

Dásamleg golla, á svona dökkbláa, svona grá er ekki síðri

Það er eitthvað við þennan

Klútur getur gert svo mikið fyrir mann

Jiminn eini, þessi er of flottur, öskrar á mig!

Þessar buxur........

GUÐ MINN GÓÐUR! Þessi kápa sko!

Ekki síðri í dökkbláu!

Tuesday, February 10, 2015

Furðulegur vöxtur á andlitinu.....

Ég er hætt að lita mig, plokka mig og vaxa mig í andlitinu. Nánar tiltekið augabrúnirnar mínar. Ástæðan er einfaldlega sú að ég er með svakalegt exem á augnlokunum, ekki spennandi ástand á smettinu í þessu veðri, sérstaklega þegar veðrið er alltaf að flakka á milli, heitt-kalt-snjór-slydda-slabbi Pollýanna er farin í frí þessa dagana þegar kemur að veðrinu.

Mig langaði líka að reyna að ná fram þessu "natural" lúkki en augabrúnirnar mínar eru ekki á sama máli. Þær eru meira svona "mér er alveg sama hvað þú heldur að þú sért að gera, ég ætla bara að vaxa eins og villt blóm". Málið er nefnilega að augabrúnirnar mínar eru alls ekki samstíga, langt því frá. Einhverntímann las ég í Cosmo eða öðru virtu tímariti að brúnirnar eru systur EKKI tvíburasystur.

Hálfsysturnar......


Mínar eru hálfsystur takk fyrir!

Önnur vex alveg eins og ég vil hafa þetta, villt og galið og pínu breið, hin er í mótþróa, kannski jafnvel með mótþróaþrjóskuröskun því hún vax, tja eiginlega bara ekki neitt!
Þetta ástand er fagurt, ó mig auma.........ég reyni þó að nota blýant til að fylla í eyðurnar og þykkja aðra en þá er ég komin með dökkar brúnir og þarf að fiffa það til og bla bla bla!!

Kannski að ég fari bara að lita mig aftur og plokka, jafnvel vaxa en ég var samt orðin pínu þreytt á skinkulúkkinu, svo sannarlega first world problem takk fyrir!

Frú brilla, frumburðurinn tók þessa mynd af mömmunni, þessi elska.


Já ég er líka orðin hálfblind, sé ferlega illa án þess að vera með brillurnar á nebbanum og ég get svo svarið það að sjónin er farin að versna, á tíma hjá augnlækni 10.mars, þvílík spenna!!


Friday, February 6, 2015

Blómakotið hennar Guggu

Hún Gugga í Blómakoti er ekki bara mamma besta vinar hans Gumma míns heldur ótrúlegur fagurkeri sem á litla, krúttlega blómabúð sem heitir Blómakot. Grindvíkingar eru svo sannarlega heppnir að hafa gimstein eins og kotið í sínum heimabæ.

Ég er mjög áhrifagjörn bara svo að það sé á hreinu, ég gerði ferð úr því að kaupa mér kjól í Vila í gær BARA af því að ég sá hann á Facebook-kræst! Það sama var upp á teningnum í dag. Gugga setti inn myndir á Facebook síðu Blómakots í gær og það lá við að ég missti svefn því ég var svo spennt að kíkja í kotið miðað við myndirnar (reyndar tók ég létta lögn áður en ég fór en það er önnur saga)

Þessi er eiginlega of fallegur með lilluðum túlípana ofan í!


Fallegur röndóttur vasi varð fyrir valinu ásamt Túlípönum, ég er með fetish þegar kemur að þeim og kaupi ég þá gjarnan í öllum regnbogans litum, kem aldrei heim með sama lit af búnti. Heimilið mitt er þakið góðgæti frá Guggu og ég hika ekki við að segja fólki að versla við hana ef því vantar tækifærisgjafir því það er hægt að fá fallegar vörur á undir 1000kr og uppúr.

Ef þig vantar skírnargjöf, fermingargjöf, afmælisgjöf, útskriftargjöf, brúðargjöf eða langar bara að gefa konunni (nú eða kallinum) blóm þá mæli ég með ferð til Guggu, ég lofa að þú verður ekki svikin. Þú finnur Blómakot á Facebook.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá kotinu mínu sem er stútfullt af fallegum hlutum úr kotinu hennar Guggu.

Ég er líka með uglufetish.....

Þessir stjakar eru í hjónaherbergisglugganum okkar



Þessar krukkur komu úr kotinu

Bakkinn og hvíti stjakinn eru frá Guggu

Allt þetta er úr Blómakoti-kertið er Broste

Bakkinn og stjakinn vinstra megin (gjöf frá tengdó) eru frá Blómakoti

Ég er með hjörtu í gluggunum frá Guggu

HOME og vasinn sem ég fékk frá Guggu í brúðargjöf

Fleiri fallegar uglur, fékk stærri frá Gullu minni í afmælisgjöf

Tuesday, February 3, 2015

Kim Kardashian er orðin klámkerling!

Selfie í selfie, byrjum þessa kennsli strax!

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja með nýjasta útspil Kim Kardashian West. Kim berar rassinn og tja nánast rassGATIÐ fyrir framan alheim fyrir tímaritið "Love". Það er ekki óralangt síðan að Kim eignaðist unga stúlku og mér blöskar eiginlega, hún er svo sannarlega lítil fyrirmynd fyrir hana.

Einhverjir vilja meina að Kanye sé bara að "pimpa" frúnna vinstri og hægri þessa dagana til að fá meiri athygli allsstaðar. Kanye þekkir marga fræga hönnuði en Kim þessi elska verður aldrei ofurmódel eins og litla systir hennar Kendall er á góðri leið með að verða.

Ætli að Kim sé abbó út í litlu systur og geri allt til að fá athygli? Æji ég veit það ekki, hvað finnst þér. Persónulega finnst mér þetta skelfilegt og ekki er það skárra að hún er með sígarettu í kjaftinum! Skamm skamm Kim K W!!!!!

Myndin birtist á Instagram síðu Love magazine.

Monday, February 2, 2015

Katy Perry og Ofurskálin, nei ekki búbburnar hennar!



Gummi minn er mikill NFL aðdáandi, svo mikill að öll sunnudagskvöld á meðan á tímabilið er (og hann er í landi) eru undirlögð af NFL allan daginn, langt fram eftir nóttu jafnvel, jú tímamismunurinn sko......



Ég bíð alltaf eftir einum viðburði árlega, það er Halftime show, eða sýningin í hálfleik. Það var engin önnur en Katy Perry sem kom, sá og sýndi all svakalegt show! Vá ég er eiginlega orðlaus, söngurinn var glæsilegur, Lenny nokkur Kravitz og Missy Elliot voru líka flott. 90´s gelgjan mín skoppaði inn í mér þegar Missy nokkur steig á svið en ungdómurinn í dag veit víst ekki hver hún er þessi elska, ja hérna hér!



Búningarnir hennar Katy voru sjúkir, hárið og förðunin upp á tíu og það kom mér á óvart hversu oft hún skipti um föt. Ótrúlegt alveg hreint. Ég mæli með því að þú skoðir myndbandið af flutningi Katy hér fyrir neðan.

Góða skemmtun.


Sunday, February 1, 2015

Janúarmánuður á Instagram

Ég elska að taka myndir. Á óskalistanum er einmitt góð myndavél en ég læt símann duga núna sem ég pirra mig samt hrikalega mikið á þar sem að hann er eiginlega með endalausa stæla. Ætla að splæsa í sexuna í maí, sá mánuður má alveg koma helst í gær mín vegna.........

Janúar var grasekkjumánuður sem þýðir að ég og guttarnir eyddum miklum tíma saman í að gera hitt og þetta, Stebbinn fagnaði fjórum einingum, við fórum út að renna, fótboltamót, sofna í sófa, kósýkvöld og svo margt fleira.

Þú finnur Rönnsluna undir rannveigjonina á Instagram.

Svona gamall, mamman fersk í bakgrunninum

Okkur leiðist ekki að fara út að renna

Eldsmiðjan með með sjóaranum og mömmu og pabba. Bestu pítsurnar!

Þessi bauð í veislu

Afmælisdagurinn

Bræðrakærleikur

Úti að leika í snjónum

Frændsystkinin að snæða grjónagraut

Þessi var og er lasarus 

Ég elska luktir

Þetta er örugglega þægilegt!

Franzarinn elskar púsl

Æðisleg hirlsa fyrir snyrtivörufrík

Sumir skalla borðastofuborð og fá gat í kjölfarið

Það var kalt þennan dag í brekkunni

Ungur nemur gamall temur

Fótboltamenn framtíðarinnar

Rannslan fer ekki í einlitu í ræktina

Súpu og safadagar frá Höllu eru dásamlegir

Hilk, Pési og Stebbi í felum

Þessi er svolítið fyndinn