Wednesday, November 16, 2016

"Þið eru nú alltaf í fríi"

Ég vinn sem leiðbeinandi í grunnskóla. Ég hef umsjón með 3.bekk, nítján nemendum svo ég sé nú nákvæm. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fylgja þessum hóp síðasliðin þrjú ár og er ég farin að þekkja vel inn á þau og þau á mig sömuleiðis. Við skynjum þegar okkur líður illa eða þegar við erum í stuði, ræðum öll heimsins vandamál og líka ýmislegt og margt ómerkilegt sem gerir starfið óendanlega skemmtilegt og fjölbreytt. Mér þykir líka mjög vænt um þessa einstaklinga og er ég oft meira með þeim en mínum eigin börnum.

Umræðan um kennarastarfið í samfélaginu og hreinlega í landinu öllu hefur ekki alltaf verið jákvæð, þvert á móti. Við sem vinnum við kennslu erum jú alltaf í fríi. Við erum aldrei að sinna vinnunni okkar og gerum barasta ekki neitt, sei sei og svei. Til þess að öðlast kennsluréttindi þarf þú að sitja á skólabekk í fimm ár. Þú þarft jafnvel að sækja um námslán og allir þeir sem hafa þurft að lifa af námslánum vita mætavel hversu rýr þau eru. En þegar þú ferð síðan loksins út á vinnumarkaðinn og ákveður að nýta meistaragráðuna þína til þess að stunda kennslu þá kemur ákveðinn skellur í bakið, því launin, já blessuð launin sem alltaf er verið að berjast fyrir eru af skornum skammti. (Miðað við fimm ára háskólanám/meistaragráðu).

Kennarar eru með vinnuviku sem samsvarar 42,86 klst á viku. Þessi vinna fer langt því frá öll fram innan veggja skólans. Tökum líka sem dæmi kennara (sem er jú alltaf í fríi) sem er yngri en 30 ára, hann þarf að skila 150 klst á ári í endurmenntun, sá tími dregst af sumarfríi hans. Því eldri sem þú ert því meira sumarfrí færð þú og skilar þ.a.l. skilar færri tímum í endurmenntun. Starfsdagar, já elsku bestu blessuðu starfsdagarnir og viðtalsdagarnir. Allir starfsdagar eru pakkaðir, mjög þétt pakkaðir enda í nægu að snúast þegar kemur að námi grunnskólabarna. Viðtalsdagar eru skemmtilegir og krefjandi og gríðarlegur undirbúningur fer í einn svoleiðis dag, jafnvel margir dagar því það þarf að sinna undirbúningi viðtalanna ásamt því að undirbúa kennslu.

Það er ekki mikil aðsókn í það að vera kennari. Skoðið bara hversu margir sóttust eftir því að fara í grunnmenntun kennaranáms á þessu ári og hversu margir eru að sækjast eftir því að næla sér í mastersgráðuna og kennsluréttindin. Gríðarlega lítil nýliðun er í stéttinni og tengist það launum vil ég meina að öllu leyti. Ekki nóg með það að nýliðun sé lítil, heldur eru margir kennarar að fara á eftirlaun á næstu árum sem þýðir að færri menntaðir kennarar munu vera innan veggja skólanna. Svo ég tali nú ekki um alla þá kennara sem eru að hætta eða jafnvel hættir að kenna til þess að fara í betri launuð störf.

Við sem vinnum við kennslu eigum rétt á okkar fríi (þið vitið rauðu dagarnir), jól, páskar, áramót og svo framvegis. En hinir dagarnir sem koma á milli, til dæmis páska og jólafrí eru dagar sem við fáum svo sannarlega ekki gefins, heldur erum við búin að vinna þá af okkur. Æji þið vitið, við vinnum aðeins lengri vinnuviku en hinir án þess að fá kost á því að fá það borgað sem yfirvinnu en í staðinn fáum við nokkra aukadaga svona til að bæta þetta allt upp. Já fyrir þá sem eru að vinna en eru ekki alltaf í fríi eins og sagt er.

Ekki erum við bara að undirbúa kennslu þegar henni er lokið á daginn, heldur sitjum við einig ógrynni af fundum sem koma skólastarfinu við. Námsmat, innleiðing nýrrar námskrár, foreldrasamstarf og svo margt margt fleira er hluti af skóla og kennslustarfi okkar og er mikilvægur hlekkur í skólastarfinu. Stundum (nei ég meina mjög oft) er ekki hægt að klára að undirbúa kennslu eða undirbúa (búa til) námsefni innan vinnurammans og þá eru góð ráð dýr, ekki mætir maður óundirbúinn í kennslu, nei borðstofuborðið verður undirlagt svæði eða svokölluð “vinnustöð”.

Yfirferð verkefna, undirbúningur kennslu, nú eða eitthvað annað spennandi sem maður sér og veit að maður getur nýtt sér í kennslu hugsar maður um daglega, því jú, maður veit hvað nemendum sínum finnst skemmtilegt og ekki. Þannig  reynir maður að búa til fjölbreytt og skemmtilegt námsefni og gera eitthvað sem höfðar til þeirra en er samt samkvæmt námskrá og öllu hinu. Því við verðum jú að passa upp á það að allt sé gert rétt.

Sjálf er ég með BA gráðu í fjölmiðlafræði og er þetta á heildina litið mitt fimmta kennsluár en ég kenndi einnig austur á landi í tvö ár ótrúlega skemmtilegum nemendum og öðlaðist þar góða og gagnlega reynslu. Ég ákvað að hætta við það að fara í mastersnám í kennslufræðum nú í haust þar sem að ég var ekki alveg viss um það að mig langaði til þess að hafa gráðu í hendinni sem gæfi mér ekki betri laun en þau sem ég myndi hafa að námi loknu. Kannski fer ég næsta haust, kannski ekki. Ég gæti verið komin á allt annan starfsvettvang að ári liðnu.

Kennarastarfið er gríðarlega krefjandi og við leysum hin ýmsu vandamál daglega, stór og smá. Sumir segja að það geta allir kennt, þar er ég ekki sammála. Það þarf ákveðna lund til þess að sinna þessu starfi og einnig þykkan skráp. Ég hef gaman af því sem ég er að gera núna, það er gaman og gefandi að kenna og dýrmætt að fá að kynnast einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skólaskref í lífinu. Ég hef vonandi gefið þeim eitthvað gott veganesti út í lífið sem þau nýta sér í framtíðinni.

Það þýðir líka ekki að sakast út í kennara í sambandi við vinnutíma þeirra eða frí, þeir ákveða það ekki sjálfir, heldur eru það þeir sem stjórna sem ráða því. Nemendur þurfa að skila ákveðnum skóladögum ár hvert, kennarar þurfa að skila inn ákveðnum starfs og endurmenntunardögum ár hvert og þannig hefur þetta alltaf verið. Hugsanlega þarf forystan og þeir sem ákveða kennslu og frídaga í skólakerfinu að skýra betur út á hvað allir þessir “frídagar” ganga og hvers vegna við eigum þá inni en ég er ekki með nógu nákvæmar tölur eða annað slíkt mér við hlið til þess að útskýra það nánar.

En ég get allavega sagt það að það eru fáir kennarar sem stimpla sig út eftir vinnu og vinna ekkert eftir það heima eða koma aftur í vinnuna til þess að undirbúa sig, ég tala nú ekki um þá sem þurfa einnig á því að halda að vinna 2 aukavinnur í viðbót til þess að ná endum saman, eftir sitt fimm ára háskólanám.

Rannveig Jónína Guðmundsdóttir.




No comments:

Post a Comment