Thursday, January 23, 2014

Unaðslegt millimál!

Halló hollustufríkið ég er mætt enn eina ferðina en í þetta sinn eru það ekki selfies úr gymminu eða neitt slíkt heldur ætla ég að deila með ykkur millimáli sem er að mínu mati hreinn unaður!

Hrikalega einfalt, fljótlegt og gott:



Speltkex frá Himneskri Hollustu með ólífum og Kapers.
1/2 dós kotasæla
Rauð vínber eftir smekk

Vínberin eru skorin niður í 2-4 bita og hrært saman við Kotasæluna, smurt á kexið og Voila klappað og klárt!

Skolist niður með vatni til að vökva kroppinn.



Njótið.

Tuesday, January 21, 2014

Að vera alltaf í formi, ekki bara stundum

Hreyfing og hollt mataræði hljómar eins og fallegur sumardagur á Íslandi í mínum eyrum, aðallega vegna þess að þá get ég farið út að hlaupa og gleymt stund og stað með hvuttakrúttinu mínu en einnig vegna þess að ég virðist hafa tileinkað mér þann sið að hreyfa mig reglulega eða 5-6 sinnum í viku. 

Við hlaupafélagarnir á góðum sumardegi í fyrra


Mörgum finnst þetta klikkun og gersamlega þola ekki ræktarstadusana mína eða Instagram myndir af hollum mat eða sveittri kellu og það er líka allt í lagi, við erum ekki öll eins og lífið væri hundfúlt ef við værum öll steypt í sama mótið.

Ég hafði aldrei þurft að hafa áhyggjur af aukakílóum þangað til að ég varð ólétt af elsku drengjunum mínum. Ég varð 100 kíló á fyrri meðgöngunni og nálgaðist þá tölu líka á þeirri seinni. Þegar ég verð ólétt er eins og líkaminn setji í lás og segi stop, ég get ekkert hreyft mig og verð eins og gamalmenni með ónýtar mjaðmir og þá byrja kílóin að safnast upp, bjúgur og ýmislegt annað miður skemmtilegt, ég var nánast óþekkjanleg á fyrri meðgöngunni og margir fengu sjokk ef þeir höfðu ekki séð mig í langan tíma þegar leið undir lok hennar, bjúgurinn og aukakílóin voru orðin svo mikil.

Frú Rannveig 7 árum seinna


Keisaraskurður bætti ekki úr skák og ég grenjaði úr mér augun þegar ég fékk þá tilkynningu frá lækninum að núna yrði ég að fara í keisaraskurð ef ég ætlaði að fá Friðrik í heiminn, allt gekk vel þar og skurðurinn greri á methraða-sem betur fer.

Stefán var skipulagður keisari enda gekk ég í gegnum ansi mikið þegar Friðrik fæddist en það tók mig langan tíma að vilja annað barn og þegar ég varð loksins ólétt aftur af þá grét ég úr mér augun.......aftur, því ég vildi ekki verða aftur ólétt "feitabolla" eins og ég kallaði það. Gummi hughreysti mig og sagði að það myndi nú örugglega ekki gerast aftur, sá hafði nú rangt fyrir sér þessi elska.

Morgunmaturinn er mikilvægur


Loksins núna þremur árum seinna (Stefán Logi verður 3 ára eftir viku) er ég komin í að mínu mati gott líkamlegt form, maður er að sjálfsögðu aldrei sáttur við sjálfan sig alveg sama hvernig maður lítur út en ég er í kjörþyngd og er alls ekki að springa úr hori, enda er það ekki útlit sem ég er að sækjast eftir.

Sveitt eftir spinningtíma, bakið myndaði broskarl!


Ég hef ofnæmi fyrir öllum inngripum, skyndilausnum, námskeiðum sem kallast "í kjólinn fyrir jólin" eða "komdu þér í bikiníform á 6 vikum". Fyrir mér er heilbrigt líferni lífstíll en ekki öfgar. Ég neita mér ekki um mat en borða frekar minna af honum, ég á mína upp og niður daga eins og allir aðrir og ég fékk uppljómun þegar ég loksins uppgötvaði að ég þyrfti að minnka matarskammtana mína til að ná árangri! HALLÓ engin eldflaugavísindi.

Klár fyrir 90 mín. Hot Yoga tíma á gamlársdag


Ragga Nagli er uppáhaldið mitt sem þolir ekkert kjaftæði eins og ég og ég er líka að fylgja fullt af fólki á Instagram sem stundar líkamsrækt og lifir heilbrigðu líferni og það veitir mér innblástur dags daglega enda er ég algjör Instagram fíkill!

Þetta form er komið til að vera!


Ég hef núna sett mér það markmið að vera alltaf í formi, ekki bara stundum eða þegar mér hentar. Til þess að ná árangri þarf maður að vera skipulagður og ég tel mig vera "skipulagsfrík" þannig að það ætti ekki að vera vandamál. Það hefur alltaf blundað í mér að keppa í Módelfitness og það er aldrei að vita nema að ég geri það einhvern daginn. Að fara í einkaþjálfaranám hefur líka verið ofarlega á óskalistanum hjá mér, svo er bara stóra spurningin hvort ég hoppi í þá djúpu laug eftir BA gráðu, við sjáum til. 


Saturday, January 18, 2014

Ég hef gefist upp! Eða það segir Karl Lagerfeld að minnsta kosti......

Hversu slæmt er það þegar þú manst ekki hvenær þú hafðir þig síðast almennilega til? Dressaðir þig upp í eitthvað annað en ræktarfötin eða "sweatpants", með hárið slétt, slegið og nýblásið, andlitið farðað og með varalit!

Þannig er mál með vexti að ég man eiginlega ekki hvenær ég hafði tilefni til þess að gera mig frambærilega síðast, held að það hafi verið í byrjun janúar þannig að það eru komnar allavega tvær vikur síðan að ég var í einhverju öðru en íþróttafötunum mínum.

Þetta hefur Karl Lagerfeld að segja um joggarann:

“Sweatpants are a sign of defeat. You lost control of your life so you bought some sweatpants.”


FOKK!

Já ég elska þægileg föt sem þrengja ekki að enda sit ég heima alla daga og læri, ég og hundurinn (sem ég held að sé að verða þunglyndur vegna mín) erum heima frá 8-16 alla virka daga og lærum saman, hann er farinn að gefa frá sér hljóð sem ég held að séu líka uppgjöf, ég fæ dilllirófu þegar ég kem heim eftir skólaskutlið og síðan ekki meir, hann fattar að það þýðir ekki lengur að vera með hvolpasvipinn og hápunktur dagsins hjá honum er þegar tengdapabbi fer með hann út á golfvöll eða þegar hann og Torres nágrannahundurinn okkar leika sér saman, þeir eru bestu vinir og fíflast út á lóð sirka tvo tíma á dag.

Hárið mitt hefur loksins náð þeirri sídd að ég næ í snúð, afar þægilegt fyrir "mom on the go" eða uppgjafarann mig! Já ég bjó til þetta orð á staðnum. Hef orðið ekki fyrir því að blása það, loftþurrkun, snúður og málið er dautt eða þangað til Stebbi stuðbolti biður mig vinsamlega að taka litla snúðinn úr til að getað fiffað í hárinu mínu.

Hef einnig ákveðið að blokka eða jafnvel fjarlægja suma vini af Snapchat en bara um helgar, Facebook og Instagram er einnig hættulegt um helgar, vá nenni ég að vera neikvæð! 

Er hætt þessu röfli, virðist alltaf þurfa að fá útrás fyrir röflið svona rétt fyrir svefn, er ennþá vakandi rétt fyrir miðnætti sem er persónulegt með er vanalega sofnuð á milli níu og tíu á kvöldin! Partý bara hjá grasekkjunni þennan laugardaginn, ætli ég sé ekki enn að jafna mig eftir eldri soninn sem fékk gat á hausinn í hálfleik og ég þurfti að bruna með hann á slysó til að líma og klemma sárið saman, held að það hafi verið hápunktur dagsins fyrir utan magnaðan Hot Yoga tíma í morgun..........

Saturday, January 11, 2014

French Toast í kvöldmatinn!

Já þið lásuð rétt, nennan í eldamennsku var í sögulegu lágmarki á þessu laugardagskvöldi og mig langaði í eitthvað fljótlegt, jafnvel pínu óhollt (það er nú einu sinni laugardagur) og ákvað því að skella í franska brauðið.



Ekki hafði ég hugmynd um hvernig ætti að matreiða slíkan "rétt" þannig að ég gúgglaði "How to make  french toast" og fékk líka svona skemmtilegt kennslumyndband sem var afar ítarlegt og dásamlegt!


Þetta er brauðið sem ég gerði:

 4 Heimilisbrauð frá Myllunni (ég ristaði þau ekki)
4 egg
3 tsk sykur (eða hrásykur)
NOW vanilludropar eftir smekk
Kanill eftir smekk
Nýmjólk

Eggin eru fyrst hrærð saman, mjólkinni síðan bætt við og loks sykrinum. Vanilludroparnir og kanillinn fara út í í lokin og ég smakkaði þetta aðeins til þangað til að mér fannst þetta orðið delish!

Brauðið smurt með smjöri, dýft í búðinginn og látið blotna vel og vandlega á báðum hliðum- MIKILVÆGT. Pannan þarf alls ekki að vera mikið heit en ég smurði hana með smjöri (án salts). 


Brauðið þarf alls ekki að vera lengi á hvorri hlið, ég mæli með því að fylgjast vel með því. Fyrri skammturinn var pínu dekkri en sá seinni hjá mér þannig að Friðrik fékk seinni brauðin en þetta smakkaðist mjög vel hjá okkur báðum.

Ég setti Agave sýróp yfir brauðin áður en við tróðum (bókstaflega) þeim í okkur en Friðrik Franz sagði að þetta væri eitt það besta sem hann hefði smakkað! 

Helgarlíf grasekkjunnar

Að búa hálfpartinn "úti á landi" já ég segi hálfpartinn því Grindavík er nú ekki nema í 30 mín. frá höfuðborginni er ekkert sérlega spes um helgar með tvo litla gutta því framboðið af afþreyingu fyrir þá er takmarkað. Einnig eru fjögur ár á milli þeirra og áhugamálin alls ekki þau sömu. Vinkona mín sem býr erlendis kom til mín í heimsókn í vikunni og spurði hvað mömmur með lítil börn gerðu til að stytta sér stundir og ég gat eiginlega ekki svarað öðru en göngutúrar, mömmuhittingar og foreldramorgnar í kirkjunni. 

En ef maður ætlar að gera eitthvað innandyra eða hafa smá fjölbreytileika í tilverunni þá þarf maður að fara út fyrir litla bæinn sinn, sem kostar tíma, pening og jafnvel smá vesen.

Það versta við grasekkjulífið er að besti vinur manns sem maður talar við um allt og ekkert er ekki heima og maður finnur alveg að molarnir sakna pabba síns þegar hann er á sjó, núna er ég alls ekki að kvarta enda er þetta okkar val en ég hugsa að flestar sjómannskonur, grasekkjur eða aðrar konur sem búa í fjarbúð með börn fatta alveg hvað ég er að fara.

Suma daga langar mig einfaldlega að búa í borginni á meðan ég get ekki hugsað mér það aðra daga en eitt er víst að fjölbreytnin er þar en fjölskyldan er hér.

Stebbinn er í lögn núna, seinnipartslögn sem er alveg dásamlegt, já eða ekki, síðan bíður Stjórnarskrá Lýðveldisins eftir mér fyrir tíma á mánudaginn í skólanum. Spennandi kvöld framundan og ég vona að þið njótið helgarinnar.

Thursday, January 9, 2014

Stormsveipurinn Rannveig

Suma daga fatta ég sjálfa mig alls ekki, í gærkvöldi náði ég í skrifborð sem ég hreinlega VARÐ að setja saman klukkan hálfellefu í gærkvöldi, hefði annars ekki sofnað. Ákvað samt að láta gamla skrifborðið eiga sig þar sem það yrði nú örugglega einhver hávaði í því að taka það í sundur.

Það kom á daginn í morgun að ég hefði örugglega vakið alla götuna ef ég hefði gert það svona seint því ég þurffti að skrúfa það og sparka já SPARKA létt í það til að ná því í sundur!

Tölvuherbergið er samt sem áður tilbúið og er orðið ansi hyggeligt þó ég segi sjálf frá. Þvottavélin hefur verið á milljón í alla dag, við Gulla fórum í SVAKALEGAN spinning tíma í hádeginu og ég held að ég sé ennþá með blóðbragð í munninum eftir hann!

Var orðin eitthvað pirruð á öllu flugelda draslinu hér fyrir utan og ákvað að skella mér í að hreinsa það "fínerí" kökur, blys, spýtur og meiri skemmtilegheit-einn sjö ára safnari var að missa sig eftir gamlárskvöld, eftir það tók við hreinsun á hálfu tonni af hundaskít eftir Marra og besta vin hans en þeim leiðist ekkert að gera númer tvö á blettinum, þetta er ákaflega gefandi að hreinsa svona stöff, þakka hvuttanum mínum kærlega fyrir að vera með svona úber hraða brennslu.

Ætlaði líka að þrífa bílinn í dag en ákvað að sleppa því sökum veðurs en setti nýjar rúðuþurrkur á kaggann og rúðupiss, er ekki alveg viss hvort að ég geri eitthvað meira í dag en hef ekkert verið í tölvunni í dag sem er hið besta mál þar sem að skólinn byrjar aftur eftir jólafrí á fullum krafti í næstu viku og tölvunotkunin er víst alveg næg í kringum hann. 

P.S tek að mér samsetningar á IKEA húsgögnum þar sem að ég virðist vera orðin sérfræðingur í þeim efnum, ef bæklingurinn týnist þá gúgglum við hann bara!

Tuesday, January 7, 2014

Nætur/morgungrautur Röggu nagla!

Ef það er ein kvenkyns manneskja sem ég er mögulega með smá "crush" á þá er það Ragga Nagli! Af hverju, jú því skvísan sú segir alltaf sannleikann og þolir ekki búllsjitt eða neitt kjaftæði og hvetur fólk til að borða hollan og góðan mat en ekki svelta sig.





Ég fylgist með Röggu á Facebook, blogginu hennar og Instagram (stalker much?) en það var einmitt í dag sem ég sá dásemdar hafragraut sem ég var að klára að elda/búa til sem mun liggja í ísskápnum í nótt og renna ljúft niður þegar drengirnir eru farnir í skólana og gefa mér eldsneyti fyrir daginn.



Ég breytti grautnum reyndar aðeins og setti hafra og Chia fræ í staðinn fyrir Husk og Zucchini. Karamellusósan er tryllingslega góð og ég þurfti að loka krukkunni áður en lengra var haldið til þess að vera ekki með karamellulitaðan nebba í kveld, sósan er einföld, kotasæla, grískt jógúrt og NOW vanilludropar.

Ég heyri hann öskra á mig inn í ísskáp en ætla að reyna að hemja mig þangað til á morgun!

Hér er Ragga á Instagram: http://instagram.com/ragganagli

Hér er Ragga á Facebook: https://www.facebook.com/RaggaNagli

Og hér er bloggið hennar: http://ragganagli.wordpress.com/

Að eiga góðan ræktarfélaga er mikilvægt!

Ég er hálfgerð ræktarrotta, ég elska að hreyfa mig, tel mig lifa nokkuð heilbrigðum lífstíl og passa mataræðið eftir bestu getu þó að einn nammimoli eða kökusneið læðist stundum inn fyrir mínar varir.

Ég er búin að stunda Metabolic í tæp tvö ár og sú líkamsrækt er algjör snilld, Helgi Jónas nágranninn minn setti saman þetta æfingakerfi sem er að mínu mati ein sú besta hreyfing sem ég hef komist í, tímarnir eru afar fjölbreyttir og sjaldan leiðinlegir, þar er maður einnig að æfa í hóp og að mínu mati er það stór plús.

Ég og hún Gulla mín (eins og ég og Stefán Logi köllum hana) keyptum okkur kort í Sporthúsinu Reykjanesbæ í september og höfum við verið afar duglegar að fara í spinningtímana sem eru í boði þar og förum ósjaldan í 90 mínútna laugardagsspinningtíma sem bjargar helginni, við erum endurnærðar og tilbúnar að takast á við verkefni helgarinnar eftir tímana.

Við Gulla erum mjög áhugasamar um hollt mataræði og getum talað um mat og uppskriftir allan dagnn ef því skiptir og peppum hvor aðra upp ef illa gengur hjá hinni, við eigum stundum okkar slæmu daga en hver á þá ekki? 

Það var ekki þurr þráður á frúnni eftir Hot Yoga

Núna ætlum við að kaupa okkur kort í Hot Yoga tíma í Sporthúsinu en við prufuðum að fara í 90 mínútna tíma á Gamlársdag og þvílík snilld sem þessir tímar eru og ég hef ALDREI svitnað jafn mikið á ævi minni eins og í þessum tíma. Mæli hiklaust með þessu. 

Ekki má gleyma hlaupafélaganum mínum honum Marra en þrátt fyrir að gera margar heiðarlegar tilraunir til að fella mig (sem honum hefur tekist einu sinni) þegar við erum úti að hlaupa finnst mér voða gott að hafa þennan krúttköggul mér við hlið þegar ég hleyp og honum er alveg sama hvort ég hlaupi 2, 5 eða 10 km hann er voða ánægður með að ég nenni að hlaupa með sig.

Þessi gaur hleypur með mér í öllum veðrum og vindum


Mér leiðast tækjasalir og lóð, finnst skemmtirlegra að æfa með fullt af fólki, kannski er ástæðan sú að ég æfði fótbolta í 15 ár og tilheyrði alltaf hóp þar, það er tími sem ég sakna mikið en ég hafði mjög gaman af fótboltanum.

Ef að þú átt ekki ræktarfélaga þá mæli ég hiklaust með einum slíkum, Gulla mín er klárlega ein sú besta sem til er og hún er frátekin gott fólk!! 

Er farin í spinning.............með Gullu minni.

Monday, January 6, 2014

Rútína ó elsku rútína vertu velkomin!

Ég og mitt heimafólk erum rútínufólk út í fingurgóma.



Það er mikil tilhlökkun á heimilinu að fá rútínuna aftur (hjá mömmunni að minnsta kosti). Drengirnir mínir hafa verið í rútínu nánast frá fæðingu og höfum við gert hlutina í vissri röð nánast frá því þeir fæddust, skóli/leikskóli, heim að leika, matur, bað, lærdómur og í háttinn.


Þetta jólafrí hefur reyndar verið alveg hreint dásamlegt, við fjölskyldan nutum þess í botn að vera saman, fara í jólaboð, borða góðan mat, horfa á góðar bíómyndir, taka smá blund hér og þar og ég held að ég hafi aldrei átt jafn gott og rólegt jólafrí eins og núna.

Síðasti dagurinn í jólafríinu er í dag og eins og myndin gefur til kynna þá er búið að vera á náttfötunum eða einfaldlega bara á brókinni meirihlutann af fríinu.



Svei mér þá ef að hundurinn er ekki farinn að hlakka til að komast í daglegu skólarútínu frúarinnar.......