Sunday, March 19, 2017

Litlu skrefin

Undanfarnar vikur hafa verið skrýtnar, furðulegar og eiginlega óútskýranlegar. Ekki líður sá dagur og varla sá klukkutími sem mér er ekki hugsað til hennar elsku Ölmu minnar, það er stórt skarð í hjartanu sem verður aldrei fyllt uppí, tómarúm sem nístir inn í dýpstu hjartarætur.

Dagarnir halda áfram, rútínan heldur áfram og maður reynir eftir bestu getu að halda kúlinu og hreinlega halda áfram sem gengur vel suma daga og aðra ekki, maður er innilega þakklátur fyrir góðu dagana, þeir eru yndislegir.

Við hjónin ræddum það fram og til baka hvort hann ætti að fara á sjó núna strax eftir verkfall. Ég var alveg tilbúin að tækla það verkefni og líka ekki tilbúin til þess en þetta er samt sem áður eitthvað sem varð að gera þar sem jú þetta er vinnan hans. Það að vera ein tekur á, líkamlega og andlega, heilmikið púsluspil sem tekst þó með hjálp foreldra og tengdaforeldra, án þeirra værum við ekki á þessum stað núna. Ómetanlegur stuðningur sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Það er einmannalegt að vera ein heima alla daga, öll kvöld, allar helgar og sjá um allt ein og fjári erfitt oft á tíðum. Sérstaklega þegar maður leyfir huganum að spá og spekúlera í ýmsum hlutum þegar hann fer á flakk, ó þessi blessaði haus manns, hvað, ef og hvers vegna?? Mikið ofboðslega hlakka ég til að fá manninn minn heim eftir nokkra klukkutíma og faðma hann fast.

Það er enginn á þeim stað sem við fjölskyldan erum á núna nema við. Við erum að fara í gegnum sorgarferli sem á eftir að taka langan tíma, ef ekki alla ævina og hver og einn mun takast á við það á sinn hátt. Eins og ég hef sagt áður; við munum ekki sigrast á sorginni heldur munum við reyna að læra að lifa með henni.

Hjá öðrum heldur lífið áfram sinn vanagang sem er fullkomlega eðlilegt en maður sjálfur er kannski ekki alveg tilbúinn að gera ýmislegt eða fara eitthvað, það er líka fullkomlega eðlilegt. Það er erfitt suma daga að gleyma sér í amstri dagsins, njóta, hlægja en við erum öll að reyna, hvert á sinn hátt.

Það er bara svo sjúklega sárt að sakna svona óendanlega mikið, erfiðara en orð fá lýst.



Wednesday, November 16, 2016

"Þið eru nú alltaf í fríi"

Ég vinn sem leiðbeinandi í grunnskóla. Ég hef umsjón með 3.bekk, nítján nemendum svo ég sé nú nákvæm. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fylgja þessum hóp síðasliðin þrjú ár og er ég farin að þekkja vel inn á þau og þau á mig sömuleiðis. Við skynjum þegar okkur líður illa eða þegar við erum í stuði, ræðum öll heimsins vandamál og líka ýmislegt og margt ómerkilegt sem gerir starfið óendanlega skemmtilegt og fjölbreytt. Mér þykir líka mjög vænt um þessa einstaklinga og er ég oft meira með þeim en mínum eigin börnum.

Umræðan um kennarastarfið í samfélaginu og hreinlega í landinu öllu hefur ekki alltaf verið jákvæð, þvert á móti. Við sem vinnum við kennslu erum jú alltaf í fríi. Við erum aldrei að sinna vinnunni okkar og gerum barasta ekki neitt, sei sei og svei. Til þess að öðlast kennsluréttindi þarf þú að sitja á skólabekk í fimm ár. Þú þarft jafnvel að sækja um námslán og allir þeir sem hafa þurft að lifa af námslánum vita mætavel hversu rýr þau eru. En þegar þú ferð síðan loksins út á vinnumarkaðinn og ákveður að nýta meistaragráðuna þína til þess að stunda kennslu þá kemur ákveðinn skellur í bakið, því launin, já blessuð launin sem alltaf er verið að berjast fyrir eru af skornum skammti. (Miðað við fimm ára háskólanám/meistaragráðu).

Kennarar eru með vinnuviku sem samsvarar 42,86 klst á viku. Þessi vinna fer langt því frá öll fram innan veggja skólans. Tökum líka sem dæmi kennara (sem er jú alltaf í fríi) sem er yngri en 30 ára, hann þarf að skila 150 klst á ári í endurmenntun, sá tími dregst af sumarfríi hans. Því eldri sem þú ert því meira sumarfrí færð þú og skilar þ.a.l. skilar færri tímum í endurmenntun. Starfsdagar, já elsku bestu blessuðu starfsdagarnir og viðtalsdagarnir. Allir starfsdagar eru pakkaðir, mjög þétt pakkaðir enda í nægu að snúast þegar kemur að námi grunnskólabarna. Viðtalsdagar eru skemmtilegir og krefjandi og gríðarlegur undirbúningur fer í einn svoleiðis dag, jafnvel margir dagar því það þarf að sinna undirbúningi viðtalanna ásamt því að undirbúa kennslu.

Það er ekki mikil aðsókn í það að vera kennari. Skoðið bara hversu margir sóttust eftir því að fara í grunnmenntun kennaranáms á þessu ári og hversu margir eru að sækjast eftir því að næla sér í mastersgráðuna og kennsluréttindin. Gríðarlega lítil nýliðun er í stéttinni og tengist það launum vil ég meina að öllu leyti. Ekki nóg með það að nýliðun sé lítil, heldur eru margir kennarar að fara á eftirlaun á næstu árum sem þýðir að færri menntaðir kennarar munu vera innan veggja skólanna. Svo ég tali nú ekki um alla þá kennara sem eru að hætta eða jafnvel hættir að kenna til þess að fara í betri launuð störf.

Við sem vinnum við kennslu eigum rétt á okkar fríi (þið vitið rauðu dagarnir), jól, páskar, áramót og svo framvegis. En hinir dagarnir sem koma á milli, til dæmis páska og jólafrí eru dagar sem við fáum svo sannarlega ekki gefins, heldur erum við búin að vinna þá af okkur. Æji þið vitið, við vinnum aðeins lengri vinnuviku en hinir án þess að fá kost á því að fá það borgað sem yfirvinnu en í staðinn fáum við nokkra aukadaga svona til að bæta þetta allt upp. Já fyrir þá sem eru að vinna en eru ekki alltaf í fríi eins og sagt er.

Ekki erum við bara að undirbúa kennslu þegar henni er lokið á daginn, heldur sitjum við einig ógrynni af fundum sem koma skólastarfinu við. Námsmat, innleiðing nýrrar námskrár, foreldrasamstarf og svo margt margt fleira er hluti af skóla og kennslustarfi okkar og er mikilvægur hlekkur í skólastarfinu. Stundum (nei ég meina mjög oft) er ekki hægt að klára að undirbúa kennslu eða undirbúa (búa til) námsefni innan vinnurammans og þá eru góð ráð dýr, ekki mætir maður óundirbúinn í kennslu, nei borðstofuborðið verður undirlagt svæði eða svokölluð “vinnustöð”.

Yfirferð verkefna, undirbúningur kennslu, nú eða eitthvað annað spennandi sem maður sér og veit að maður getur nýtt sér í kennslu hugsar maður um daglega, því jú, maður veit hvað nemendum sínum finnst skemmtilegt og ekki. Þannig  reynir maður að búa til fjölbreytt og skemmtilegt námsefni og gera eitthvað sem höfðar til þeirra en er samt samkvæmt námskrá og öllu hinu. Því við verðum jú að passa upp á það að allt sé gert rétt.

Sjálf er ég með BA gráðu í fjölmiðlafræði og er þetta á heildina litið mitt fimmta kennsluár en ég kenndi einnig austur á landi í tvö ár ótrúlega skemmtilegum nemendum og öðlaðist þar góða og gagnlega reynslu. Ég ákvað að hætta við það að fara í mastersnám í kennslufræðum nú í haust þar sem að ég var ekki alveg viss um það að mig langaði til þess að hafa gráðu í hendinni sem gæfi mér ekki betri laun en þau sem ég myndi hafa að námi loknu. Kannski fer ég næsta haust, kannski ekki. Ég gæti verið komin á allt annan starfsvettvang að ári liðnu.

Kennarastarfið er gríðarlega krefjandi og við leysum hin ýmsu vandamál daglega, stór og smá. Sumir segja að það geta allir kennt, þar er ég ekki sammála. Það þarf ákveðna lund til þess að sinna þessu starfi og einnig þykkan skráp. Ég hef gaman af því sem ég er að gera núna, það er gaman og gefandi að kenna og dýrmætt að fá að kynnast einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skólaskref í lífinu. Ég hef vonandi gefið þeim eitthvað gott veganesti út í lífið sem þau nýta sér í framtíðinni.

Það þýðir líka ekki að sakast út í kennara í sambandi við vinnutíma þeirra eða frí, þeir ákveða það ekki sjálfir, heldur eru það þeir sem stjórna sem ráða því. Nemendur þurfa að skila ákveðnum skóladögum ár hvert, kennarar þurfa að skila inn ákveðnum starfs og endurmenntunardögum ár hvert og þannig hefur þetta alltaf verið. Hugsanlega þarf forystan og þeir sem ákveða kennslu og frídaga í skólakerfinu að skýra betur út á hvað allir þessir “frídagar” ganga og hvers vegna við eigum þá inni en ég er ekki með nógu nákvæmar tölur eða annað slíkt mér við hlið til þess að útskýra það nánar.

En ég get allavega sagt það að það eru fáir kennarar sem stimpla sig út eftir vinnu og vinna ekkert eftir það heima eða koma aftur í vinnuna til þess að undirbúa sig, ég tala nú ekki um þá sem þurfa einnig á því að halda að vinna 2 aukavinnur í viðbót til þess að ná endum saman, eftir sitt fimm ára háskólanám.

Rannveig Jónína Guðmundsdóttir.




Sunday, November 13, 2016

G J A F A L E I K U R

Þá er komið að öðrum gjafaleik hér á blogginu, eða nánar tiltekið á INSTAGRAM og SNAPCHAT.

Í vinning í þessum gjafaleik er They´re real maskari frá Benefit. Take með to thread naglalakk frá Essie og natural glow  shadow and prime pallette frá Barry M.


Það sem þarf að gera til þess að eiga möguleika á því að næla sér í þennan vinning er að vera vinur minn á Snapchat: rannveigjonina. ( Ekki er verra ef þú mælir með mér þar líka).

Þegar þú ert orðinn vinur minn þar þá skottast þú á Instagram- smellir á FOLLOW en þar heiti ég einnig rannveigjonina, setur hjarta á myndina og skrifar eitthvað skemmtilegt undir hana.



Knús og kærleikskveðja, Rannveig Jónína. 




Tuesday, November 1, 2016

"Ég gæti aldrei gert það sem þú gerir"

Þessa setningu heyri ég oft, nokkrum sinnum á ári jafnvel. En hvers vegna? Jú af því að ég er sjómannsfrú og maðurinn minn er heima sex mánuði ársins og hina sex er hann úti á sjó. Ætlaði ég mér að giftast sjómanni? Nei svo sannarlega ekki. Pabbi var skipstjóri í fjöldamörg ár og hét ég sjálfri mér því að ég myndi nú aldrei ná mér í sjómann, sem ég og gerði en maðurinn minn var ekki sjómaður þegar við kynntumst. En lífið er fer ekki alltaf eftir skipulaginu og í dag er ég gift sjómanni.

Gummi fór á sjó núna í október eftir fimm mánuði heima en hann meiddist á öxl og fór í aðgerð. Það gekk ýmislegt á hjá okkur á þessum fimm mánuðum enda erum við ekki vön því að vera límd saman nánast daglega en meiðslin hittu nefnilega upp á sumarfríið mitt og spilaði ég töluvert meira golf en eiginmaðurinn þetta sumarið í fyrsta sinn í okkar sambúð, takk góða veður í sumar!

Það segir það enginn að þetta sé auðvelt, það er ekkert auðvelt að hafa manninn sinn í burtu hálft árið en á móti hef ég hann heima hálft árið. Litlir pottormar sakna þó pabba síns og man ég sjálf enn þann dag í dag eftir þeirri tilfinningu, enda var pabbi sjómaður eins og áður sagði.


Verkfall er yfirvofandi, við skulum vona að það verði ekki langt ef það mun verða. Ég styð sjómenn samt sem áður og réttindabaráttu þeirra enda væri annað fáránlegt. Að sjálfsögðu styð ég minn mann, bróðir minn (sem er með honum á sjó) og alla hina. En á meðan hann er á sjó þá ætla ég að halda okkar rútínu áfram og hlakka til að fá hann í land eftir nokkrar vikur.

Monday, September 12, 2016

Uppáhalds vörurnar mínar frá Garnier



Ég er snyrtivörudræsa, já ég sagði það dræsa! Ég þarf virkilega að hafa fyrir því núna að kaupa sem minnst þar sem að ég ætla að missa mig nett í Glasgow í byrjun nóvember en þar er víst hægt að versla dágóðan slatta af snyrtivörum, mér væri svo sem alveg sama þótt ég færi ekki heim með eina flík (nei nú lýg ég) ef ég kæmi heim með kúfulla tösku af snyrtivörum.


Garnier er merki sem heillar mig sífellt meira, Michellar hreinsivatnið hef ég notað mjög lengi frá þeim og nýjustu hreinsiklútarnir í þeirri línu eru æðislegir! Dúnamjúkir og mikið af vökva í hverjum klút sem mér finnst æði, þoli ekki hálf þurra klúta með engu til þess að þvo sér með, til hvers þá að nota þá? Ég nota klútana til þess að þvo af mér meiköppið fyrir ræktina og svo hreinsa ég húðina almennilega eftir að ég er búin í baði.



Nýjasta nýtt frá Garnier eru rakamaskar og ég varð að prófa þá! Já ég VARÐ! Kræst, laumaði tveimur stykkjum með í körfuna í Krónunni um helgina og ég verð að viðurkenna að ég er ástfangin. Raki, raki og raki er það eina sem mér dettur í hug þegar ég segi frá þessum klútum. Fjölskyldumeðlimir fengu hins vegar vægt sjokk þegar ég mætti með herlegheitin framan í mér rétt eftir kvöldmat og sá yngri grenjaði næstum úr sér augun af sjokki (kannski að ég hafi líka nýtt mér smá spúkí útlitið og hrætt hann, skál, mamma ársins).



Margar af vinsælustu bjútí snöppurum landsins hafa verið að prófa þennan maska og ég beið spennt eftir að ég fyndi hann í Hagkaup eða Krónunni. Steinunn Edda á Trendnet skrifaði einmitt um þennan maska um daginn og hér má skoða nánari lýsingu af honum.

Mér finnst Garnier vörurnar dásamlegar, sérstaklega hreinsivörurnar, mæli hiklaust með þeim.

Fylgdu mér á Snapchat: rannveigjonina

Sunday, September 11, 2016

Að velja það að hægja á sér

Sumarið fór í ákveðna naflaskoðun, naflaskoðun um það hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, ég er nefnilega bara 32 ára gömul og hef ennþá tíma til þess að ákveða hvað mig langar að gera í framtíðinni. Enn sem komið er er ég með sveinspróf, stúdentspróf og BA gráðu. Ég hef alltaf verið í námi fyrir utan þann tíma sem ég gekk með drengina okkar, mér leiddist meira að segja svo mikið þegar Stefán Logi var sex mánaða að ég skráði mig í fullt háskólanám og hefur lífið verið rússíbanareið síðan þá.

Manni finnst maður alltaf þurfa að gera allt, vill fylgja börnunum sínum á alla þeirra viðburði, komast í ræktina, sinna sinni vinnu 100% og allt þar á milli en stundum gefur eitthvað eftir og heilsan gaf sig hjá mér síðasta vetur, vítamínskortur, inflúensa, magapestir og margt margt fleira ásamt því að skrifa lokaritgerð tóku sinn toll og ég er eiginlega enn að jafna mig eftir öll þessi herlegheit og fæ hroll niður á bak þegar ég hugsa um síðastliðið ár.

Þannig ár vil ég ekki upplifa aftur. Ég var búin að skrá mig í meistaranám í vetur, M.Ed. í kennslufræði nánar tiltekið. Þegar ég hugsaði um það að fara í skóla í vetur með fullri vinnu fékk ég kökk í hálsinn, illt í magann og þennan ónotahnút sem fylgdi mér í allt sumar af stressi við að standa mig í námi og vinnu í vetur. Ég vil standa mig vel í vinnu og einnig í náminu mínu en ég er algjör A manneskja og vil helst vera farin upp í rúm kl níu á kvöldin og ég var farin að sjá fyrir mér bauga niður á bringu eftir kvöldlærdóm og ræs klukkan sex til að koma sér í gang fyrir daginn.

Tankurinn var orðinn tómur og ákvað ég að fresta náminu í ár amk, þetta ár ætla ég að reyna að komast að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór, langar mig að kenna áfram? Ég veit það ekki, mig hefur alltaf langar að starfa í fjölmiðlum enda fór ég í nám sem tengist þeim geira.

Það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verð ég komin í M.Ed. nám eftir ár, kannski á nýjan starfsvettvang, kannski ekki, það er gefandi að kenna en einnig mjög erfitt, það vita það allir sem sinna því starfi. En lífið er ekkert alltaf dans á rósum og ég er ekkert að væla neitt, maður þarf bara stundum að staldra aðeins við, hugsa um hvað maður vill gera og ákveða það á sínum eigin forsendum en ekki af því að einhverjir aðrir vilja að þú gerir það.

Þú getur einnig fylgt mér á Snapchat: rannveigjonina


Sunday, August 21, 2016

Útlitsdýrkunarheilkennið

Útlitsdýrkun: Samfélagið í hnotskurn. Þú ert ekki maður með mönnum nema að lúkka eða svo segja þeir. 

Gagnrýnisraddirnar eru alls staðar, komdu þér í form, misstu svona mörg kíló fyrir jólin, í kjólinn fyrir jólin og ég veit ekki hvað og hvað.

Nú er ég nýkomin heim frá Krít þar sem ég átti yndislega tíu daga með fjölskyldunni og mínar helstu áhyggjur áður en ég fór út voru þær að ég væri nú ekki bikiníhæf, ég er í kjörþyngd og ég er heilbrigð (tja að vissu leyti, er stundum talin nett klikkuð en það er önnur saga). Og já þetta voru mínar helstu áhyggjur að ég væri nú ekki hæf á sudlaugarbakkann því að maginn minn væri svona, rassinn hinsegin, lærin smellast saman og ég veit ekki hvað og hvað. 

Hvað er að klikka hjá manni? Af hverju getur maður ekki verið sáttur við það sem maður hefur? Ungt fólk í dag þorir orðið ekki að birta mynd af sér á samfélagsmiðlum því það er hrætt um það að fá ekki nógu mörg "like" á myndina, eins og að þumlarnir skilgreini hvernig þú ert, sama hvernig myndin er!

Ég naut mín í botn á Krít, borðaði góðan mat, drakk bjór, hvítt, rósavín, breezer og var bara slétt sama hvað ég var að borða, hugsanir mínar um maga, rass og læri hurfu eins og dögg fyrir sólu á örskotstundu því ég ákvað að njóta án þess að spá í útlitið, ég hreinlega nennti ekki að vera í einhverjum feluleik eða stressi með það sem ég hef enda eru Krítverjar súper sallý og rólegir og þetta er yndislegasti staður sem ég hef farið í sólarlandaferð. Hafði reyndar pínu áhyggjur af því að ég væri ekki nógu "tönuð" en kjellan er með nett brons eins og eiginmaðurinn orðar það.

Þegar ég komst á netið þar sem að Wi-fi-ið var ekki það hraðasta í heiminum, bara sallý eins og innfæddir þá kom hún Kim vinkona mín nokkur Kardashian ansi oft upp á skjáinn í gegnum Facebook því hún lúkkar nú orðið ansi vel samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs "þrátt fyrir" að eiga tvö börn. Hvernig fer hún að þessu? Jú laser aðgerðir, einkaþjálfari, einkakokkur og svo framvegis, kjellan á sand af seðlum til þess að gera sig og græja. 

Ég er farin að hrista höfuðið yfir þessu öllu saman, djöfull get ég orðið þreytt á þessu, ef manni líður vel í eigin skinni, af hverju má maður það ekki bara í friði? Við fengum þennan eina líkama sem við eigum og það er okkar hlutverk að fara vel með hann. Útlitsdýrkun er gersamlega að fara með samfélagið ásamt dómhörku, við dæmum vinstri hægri án þess að spá neitt í því, teljum okkur bara hafa nokkuð mikinn rétt til þess að dæma aðra án þess að vita neitt um þeirra hagi eða baráttu.

Ég fékk þó svolítið samviskubit yfir því að hafa dottið aðeins af Vegan vagninum úti en er byrjuð að Vegan væða mig aftur, mér líður einfaldlega bara betur þannig- ekki dæma, ég er ekki að dæma þig út af því sem þú ert að gera, munum það, allir eru að berjast við sína innri djöfla og reyna bara að synda með straumnum dag frá degi án þess að bugast.

Þú getur fylgst með mér á Snapchat: rannveigjonina




Monday, August 1, 2016

Að fá að vera maður sjálfur

Ég er hávær, mjög tilfinningarík en það þarf lítið til þess að ég hreinlega fari að háskæla, létt og væmið Youtube myndband fær mig stundum til að grenja úr mér augun. Ég er skrautleg á köflum, mjög hávær, tala mikið, hreinskilin, get átt það til að blóta eins og versti togarasjómaður en ég er einfaldlega ég.

Mér finnst að maður eigi að fá frelsi til þess að vera maður sjálfur, vissulega veit ég það að það líkar ekki öllum við mig en þannig á það líka að vera, heimurinn er ekki bara sykurpúðar og regnbogar. Ég er þannig gerð að ég gef öllum séns, mér er alveg sama hver þú ert eða hvað hefur verið sagt um þig, ef ég þekki þig ekki neitt þá hef ég engan rétt til þess að dæma þig eða þína persónu.

Keppnisskapið mitt er stórt og ég fagna smáum sigrum eða afrekum eins og ég væri komin í úrslit á EM. Skipulagið er aldrei langt undan hjá mér en samt þrífst ég best í pínu kaosi-vil hafa nóg að gera því ef það er ekki nóg að gera hjá mér þá fer mér einfaldlega að leiðast, þarf að hafa eitthvað fyrir stafni til þess að geta skipulagt það. Það finnst engum gaman að leiðast!

Sumarið hefur farið í ítarlega sjálfsskoðun en ég lofaði sjálfri mér að næsta haust og næsti vetur yrði ekki eins og síðastliðið ár, ég ætla mér að standa við það og ætla að vera svolítið frek á sjálfa mig, setja mig svolítið ofar en ég hef verið að gera. Hugarfarið er að breytast í rétta átt, það er alltaf góðs viti. Ég er einstök og ætla að leyfa mér að vera það áfram og nú mana ég þig til að telja hversu oft ég skrifaði ég í þessari færslu!