Saturday, January 31, 2015

Lang BESTA naglalakk sem ég hef prufað!

Frúin er annálað naglalakkafrík, ég man ekki eftir því hvenær það leið mánuður án þess að ég keypti mér naglalakk, já þetta er eiginlega vandamál. Hæ ég heiti Rannveig og ég er naglalakkafíkill!

Þetta þýðir að sjálfsögðu að ég á allnokkrar tegundir af lökkum og í mjög mörgum litum, hugsa að ég gæti verið með nýtt lakk á hverjum degi í nokkrar vikur-obbosí.

En að lakkinu sem ég ætla að fara að dásama hérna. Mér finnst lökkin sem ég set á mig endast nákvæmlega ekki neitt, þau kroppast af, smita frá sér ef maður rekst í eitthvað og svo framvegis. Hefur fríkið fjárfest í top coat? Nei ekki fyrr en nýlega, hvað er annars að frétta með það?




L´oréal naglalökkin hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér því það er hægt að kaupa þau í litlum glösum, það finnst mér æði ef ég fíla ekki litinn, ja og líka ef ég fíla litinn. Lökkin eru ekkert svo dýr og pensillinn er flatur þannig að það er auðvelt að lakka neglurnar á mettíma.

Nýjasta viðbótin í safnið er tvöfalda lakkið frá þeim. Snilldargræja! Ég keypti mér tímalausanl lit sem er númer 002 og heitir Gris Éternel. Hann er grár og svo fallegur og akkúrat í stíl við hárið mitt núna sem er orðið ansi grátt og ég er að fílaða.



Það sem ég gerði var að lakka eina umferð, ath já EINA umferð af lakkinu, smellti síðan yfirlakkinu á og voíla, neglurnar voru klárar. Lakkið þornar fljótt og þekur vel.

Í dag er laugardagur en myndirnar eru einmitt teknar í dag og ég lakkaði mig á þriðjudaginn! Það sér ekki á lakkinu, það hefur ekki smitað út frá sér, flagnað af eða neitt slíkt.

Ég keypti lakkið mitt í Lyfju, það fæst pottþétt líka í Hagkaup og á fleiri flottum stöðum. Mæli svo sannarlega með þessu lakki.

Sunday, January 25, 2015

Ég meina, hver fílar ekki stelpur með svakalega svitabletti undir höndunum!

Eða konu í mínu tilfelli. Ó jiminn eini það er fátt eins leiðinlegt eins og að vera búin að gera sig svakalega smart og fína, jafnvel nýkomin úr baði/sturtu, ilma eins og rósarengi og þá byrjar ballið! Svitinn byrjar að renna niður handleggina, peysan/bolurinn/kjóllinn orðið rennandi og þá tapar maður smartheitunum, lyftir helst ekki upp höndunum og er í lunta það sem eftir er dagsins.

Svona er saga lífs míns þessa dagana og hefur verið undandarin ár, þetta hefur þó magnast með árunum (kannski aldurinn) en þetta er farið að fara verulega í taugarnar á kellunni sem hleypur um með góðu lyktina allan daginn og spreyjar undir handakrikana til þess að það komi nú alveg örugglega ekki lykt. Þetta er nota bene ekki áreynslusviti, bara bleyta, kynæsandi og uppörvandi bleyta sem gerir lífið "skemmtilegt" eða í mínu tilfelli eilítið blautara........

Vegna þessa vel ég mér helst svartar flíkur að ofan, ég gerði heiðarlega tilraun um daginn að kaupa mér voðalega fallegan kóngabláan bol og var búin að vera í honum í smátíma og hvað gerðist? Jú Johnson var mættur á svæðið í öllu sínu veldi! CRAP, ég var ekkert voðalega hamingjusöm þennan dag og var ekki lengi að flýta mér úr flíkinni þegar ég kom heim og hefur bolurinn hangið inn í fataskáp síðan (þveginn). Stutterma flíkur henta mér einnig ágætlega því þá loftar vel um allt og svitinn minnkar.

Rannslan hefur prufað að vera með sérstaka púða sem voru festir með öryggisnælu undir hendurnar, hvað gerðist? Jú þeir urðu rennandi blautir. Dömu innlegg hafa einnig verið könnuð, þau voru ekki nógu rakadræg, kannski að ég prufi næturbindi næst, það gæti virkað........ Svitastopparar, barnapúður, saltsteinn og ýmislegt annað hafa einnig verið könnuð en viti menn EKKERT virkar.

Að vera í grúbbu sem er bjútí tengd er æðislegt, frúin lagði inn fyrirspurn og hef ég fengið dásamlegar ráðleggingar og reynslusögur, svei mér þá það er komin grúbba fyrir sveittar húsmæður!

Ég held að ég sé komið með lokaniðurstöðu en hún er að splæsa í aðgerð, láta skrúfa fyrir kranann for gúd! Ohh ég sé þannig líf í hyllingum, gangandi um frjáls í gráum bol eða jafnvel ljósum á heitum sumardegi og veifa einhverjum sem ég mæti af lífsins sálar krafti, því jú það er enginn svitablettur lengur undir höndunum!

Ætla að byrja að safna fyrir aðgerðinni NÚNA, þetta verður eitthvað........

Saturday, January 24, 2015

Engin drykkja, hress sem fress daginn eftir!

Það reyndi á "ég er hætt að drekka" áramótaheitið mitt, Gumminn skilur reyndar ekkert í þessu en þegar frú Rannveig er búin að bíta eitthvað í sig þá heldur hún sig við það. Mamma og pabbi buðu í smá þorrablót í gær og Rannslan drakk ekki dropa af áfengi þó svo að það væri alveg meira en nóg til. Það var líka bara ferlega í gær, skemmtilegur félagsskapur og gott að borða, vatnið bragðaðist heldur ekkert neitt illa.

Heimkoma var um hálfeitt og þá var farið beint að sofa, strákarnir voru meira að segja í næturpössun hjá tengdaforeldrum mínum þar sem þeir voru í sannkölluðu dekri (eða er það kannski mamman sem var dekruð í þessu tilfeli???)

Ég náði um níu tíma svefni og svaf eins og steinn, mikið agalega var nú gott að vakna hress, engin þynnka eða neitt vesen. Ég var meira að segja svo fersk að ég fékk mér hollan og góðan morgunmat, skúraði og ryksugaði allt húsið og fór síðan í magnaðan pallatíma þar sem að 700 kaloríur fuku!

Málið er nefnilega þannig að ef ég fæ mér smá að drekka (kannski bara eitt eða tvö glös) þá er dagurinn eftir eiginlega bara ónýtur. Ég var ekki svona, er þetta aldurinn? Veit ekki, finnst ég þola áfengi mun verr eftir að ég átti Stebbann og ég hreinlega nenni ekki að eyða heilum degi í að jafna mig eftir smá stuð-það er bara ekki þess virði.

Tíminn minn er dýrmætur, hvort sem það er með sjálfri mér, eiginmanninum eða börnunum. Hvers vegna að skemma þennan tíma með slöppum degi þegar maður getur sleppt því. Rannslan er líka þekkt fyrir það að vera mjög róleg týpa-eða þannig, get sko vel skemmt mér án þess að hafa áfengi við hönd. Það er líka gaman!

Knús í hús XO.

Tuesday, January 20, 2015

David Beckham ennþá pínu dirrtý en minna ber!

Síðast var ég slefandi af David á nærfötunum einum fata, nánast ber og svolítið dirtý seksý eitthvað, ok Gumminn er að koma í land-þetta er allt í lagi!

Þó að David sé í fatnaði á þessum myndum þá er hann samt sem áður voðalega sætur eitthvað, já hann er celeb crushið mitt þar til að hann fer að tala en hann hefur nú reyndar lagast í tónhæð held ég eitthvað kappinn. Mér fannst hann allavega ekkert hljóma illa í heimildarmyndinni sinni þegar hann ferðaðist á mótorhjóli um fjöll og í drullupollum en ég get ómögulega munað í hvaða landi það var, ég naut þess bara að horfa.....

Engar áhyggjur samt, Gumminn verður alltaf í fyrsta sæti hjá Rönnslunni. Hann er sem betur fer að koma í land á næstunni, ó þessi elska. Ég hef samt sem áður ákveðið að hann muni safna hári og fær að halda smá skeggi eins og Beckham, nei ok bara djók-Gumminn er sætur eins og hann er!

Hér að neðan eru nokkrar myndir af David Beckham og ég segi bara njótið og já þetta er fyrir H&M, allir að versla!!











Sunday, January 18, 2015

Just another manic sunday......

Jú lagið segir að vísu monday en þessi sunnudagur hefur verið ansi erilsamur og einkenndist af því að frúin þreif allt húsið hátt og lágt, tók af öllum rúmum, þvoði það og þurrkaði og setti aftur á, tók til í tveimur drengjaherbergjum (dæs) og þvoði tonn af þvotti meðí!
Ég ropaði út úr mér í miðjum klíðum við tiltekt hjá þeim eldri að við þyrftum nú kannski bara að að fara að kaupa plastdunka sem pössuðu undir rúmið hans, minn maður greip þá hugmynd strax, spurði mig hvað slíkt fengist og stakk síðan upp á Ikea ferð. Ekki neitaði Ikea fíkillinn því.

Eiginmaðurinn heyrði í mér rétt fyrir brottför og hafði miklar áhyggjur af því að engin bremsa væri með í för en elskan mín þegar Stebbi stuð er með í för gefst lítill tími til að gera neitt annað en það sem ákveðið var, því voru keyptir tveir plastdunkar ásamt sprittkertum sem eru lífsnauðsynleg, ég gleymdi reyndar að kaupa pítsuhníf/skera en það var líka tilgangur ferðarinnar, ég man það kannski næst ef ég fer ein í kaupstaðarferð, jú eða með bremsuna (Gumma) með mér.

Mataræðið er á blússandi siglingu, er á meðan er segi ég nú bara. Ég bíð eftir að kúlan springi, gerist yfirleitt á þriðju viku eða svo en ætla ekki að láta það gerast núna. Ég skrái mitt samviskusamlega inn á My Fitness Pal og allt gengur vel þar. Vaknaði með svakalegar harðsperrur eftir nostalgíu pallatíma í gær, vá hvað var gaman!

Ég ákvað að prufa blómkálspítsu í kvöldmatinn og nammi namm sú var góð, ég setti rauðlauk, græn epli, fetaost og klettasalatblöndu á hana og hefði alveg getað borðað hana alla en allt er gott í hófi og afgangurinn verður í hádegismat á morgun, ég mæli með því að þið prufið svona pítsu, mér fannst hún allavega góð og lítið mál að búa hana til en ég hef miklað þennan bakstur fyrir mér í marga maaaaarga mánuði en ætla að hafa hana reglulega í matinn núna, hollt og gott stöff hér á ferð.

En hvernig er það, getur fólk hætt að segja "gúrm" eða "gúrme"?? Eða fer þetta bara í taugarnar á mér? Jæja ætla að vippa mér í BA lærdóm...

Knús í hús xo

Saturday, January 17, 2015

Minn fitness félagi

Eða My Fitness Pal er frítt app sem er búið að vera ansi lengi í símanum hjá mér en ég hef ekki notað það í laaaangan tíma því ég nennti ekki að gúggla eða reikna út allar þær kaloríur sem ég var að innbyrða yfir daginn, mér fannst þetta bara allt of mikið vesen. Rannslan er ekki mikið fyrir það að hafa hlutina flókna, það er kannski ástæðan fyrir því að BA skrifin ganga svona hægt, þetta er of flókið núna til að byrja með.

En aftur að appinu, samstarfskona mín spurði mig um daginn hvort ég kannaðist við þetta app og þá útskýrði ég fyrir henni að mér hefði fundist þetta vera allt of flókið og að ég hefði ekki nennt að reikna og sitja sveitt yfir einhverjum útreikningum. En þá sýndi hún mér hreina snilld......það er hægt að skanna strikamerkið af því sem þú ert að borða og voila kaloríur og innihaldslýsingin kemur í ljós! Þarna opnaðist glænýr heimur fyrir mér en viðurkenni það fúslega að í dag er fyrsti dagurinn sem ég hef nennuna til að fylgjast með því sem ég er að borða enda er laugardagur, ekkert ys og þys eða þeytingur út um allt, bara hyggeligheit.

Til að byrja með skráir þú þyngd, hæð, aldur, kyn og fleira og tekur fram hversu aktív/aktívur þú ert og setur þér markmið hvaða árangri þú vilt ná eða hvort þú vilt þyngjast, léttast eða bara fylgjast með kaloríuinntöku dagsins. Ó hvað mér finnst þetta obboðslega sniðugt en ég fór í hörku old fashion nostalgíu pallatíma í morgun með mikilli brennslu og á því nokkrar kaloríur inni, kóýkveld í kvöld með snakki og dýfu, Yum, Yum.

Ætla að leyfa ykkur að fylgjast með gangi mála á næstu dögum.

Knús í hús xo.

Friday, January 16, 2015

Að klippa eða ekki klippa?

Ég dett reglulega í klippigírinn. Er þó ekki að meina að klippa aðra, þrátt fyrir að vera hársnyrtisveinn. Nei mitt hár, fæ gjarnan "leið" á hárinu mínu en ég er allt í einu komin með hár niður fyrir axlir og er alltaf með hárið í snúð. Nenni ekki að blása það eða slétta nema örfáa daga í viku og það er orðið pínu slitið og já ég er með fíííííínt hár! Ohh ég gæti stundum bilast á því að vera með svona ógeðslega fínt hár, langar oft að grenja!

Nýjasta nýtt er skálaklipping, þið vitið eins og Jim Carrey var með í Dumb and Dumber, kræst, þessi klipping fer ekki úr huga mínum og er búin að vera föst í huga mínum í nokkra mánuði. Ég er samt nokkuð viss um að ég muni líta út eins og Óli eða Siggi bróðir þegar þeir fermdust ef ég klippi mig þannig! Er ekki beint sú kvenlegasta í bransanum og sú klipping þýðir þvott, blástur og sléttun á hverjum morgni ef ég ætla ekki að vera með húfu á höfðinu en þá fyrst yrði ég eins og karlmaður því það kæmi ekkert hár undan húfunni. Mig langar reyndar líka í þungan topp en það þýðir að helmingurinn af hárinu mínu færi í toppinn og þá eru kannski tíu strá eftir í rest......

Ohhhhh ég veit ekkert hvað ég á að gera en næst þegar ég lita á mér hárið ætla ég að vera með dekkri gráan tón, gamla gamla. Sit núna útþemd eftir pítsuát og sterkar djúpur og pæli í hárinu mínu, nammidagur tvo daga í röð! Eins gott að það er pallatími á morgun......

Hér að neðan eru nokkrar hárhugmyndir sem ég var að gúggla og skoða á Pinterest

Semi pottaklipping

Töff litur

Æðislegur blástur, gæti alveg lagt meiri metnað í hárið á morgnana og blásið mig og sléttað eins og á þessari mynd

Svona toppaskipting er líka smart, þetta get ég líka gert núna

Sjabbí toppur er krúttaður

Krullur og djúp skipting, ótrúlega flott

Önnur semi pottaklipping

Liturinn ó fallegi liturinn

Dásamleger krullur

Ótrúlega smart klipping! Langar í þessa núna...

Þessi skvísa er með fínt hár eins og ég, gæti kannski púllað þessa. Hæ Rannvar!

Aðeins of töff klipping!

Þessi er líka allt í lagi


Wednesday, January 14, 2015

Bella símamær


Eitt af áramótaheitunum mínum var að minnka símanotkun mína og það hefur gengið alveg þokkalega, segi ekki meira en þokkalega.......obbosí. En þrátt fyrir að ég sé búin að strengja þau heit að minnka notkun snjalltækisins að þá þrái ég samt sem áður nýja græju, sjálfa sexuna!



Þannig er nefnilega mál með vexti að fjarkinn minn er orðinn pínu hægur, batteríið endist ekki neitt og selfie myndirnar eru bara of óskýrar fyrir minn smekk! Já og mig vantar líka stærra minni á símann enda tek ég mikið af myndum af drengjunum, hundinum og fullt af öðrum hlutum sem taka svolítið mikið pláss.



Annað sem er á óskalistanum er selfie stöng-enda nauðsynlegt í sjálfurnar sem yrðu stúderaðar í döðlur með nýjum síma. Ó silfurlitaða sexan verður mín á þessu ári (bara ekki segja Gumma það).

Your so vain.......

Monday, January 12, 2015

Súpu og safadagur frá Höllu

Jæja haldið þið að kjellan hafi ekki bara ákveðið að rífa sig í gang og taka súpu og safadag hjá Höllu. Halla María og hennar samstarfskonur eru snillingar þegar kemur að því að gera hollan mat sjúklega góðan, eiginlega svo góðan að maður fær ekki nóg.  Ef ég gæti væri ég með matarpakka frá henni alla daga vikunnar-já maturinn er það góður, þeir sem hafa prufað matinn vita hvað ég meina.

En að safa og súpudeginum. Ég var að troða (já ég tróð henni upp í mig var orðin svo svöng) í mig súpu en sú rann ljúft niður, pínu spæsí og saðsöm, ég var reyndar orðin það svöng að ég borðaði hana kalda, nennti ekki að hita hana og hún var alveg svakalega góð svona köld svei mér þá.

Svona leit dagurinn út hjá mér:


Safi 1-2 - mynta, lime, engifer, hunang

Safi 3 - rauðrófur, gulrætur, epli, appelsínur, engifer
boost 1 - spínat, epli, banani, hnetur, döðlur, kókosmjöl, djús 
boost 2 - bláber, hindber, jarðaber, banani, djús, hörfræ, chiafræ
te
súpa - kókos-karrí grænmetissúpa

Ég er ekkert svakalega svöng núna þrátt fyrir að hafa farið í magnaðan tíma í Söndru leikfimi áðan og ég á ennþá rauðrófusafann inni og ég mun innbyrða hann þegar tveir litlir maurar eru komnir í háttinn en þá verður me time með safann!

Hjá Höllu er þetta súpu og safa vika en ég ákvað að taka daginn í dag og miðvikudaginn, treysti mér ekki alveg í alla vikuna enda held ég að ég væri þá ekki fær að hafa samskipti við nokkurn mann því svöng Rannsla er ekki sú skemmtilegasta, ef að ég er pirruð þá spyr Gummi mig oft hvort ég þurfi nú bara ekki að fá mér að borða! 

Ég mæli svo sannarlega með Höllu og hennar matarpökkum, söfum, kökum, kjúklingasalati og og og svo mætti lengi telja. Þið finnið Höllu á Facebook https://www.facebook.com/hjahollu?fref=ts


Sunday, January 11, 2015

Partýlíf grasekkjunnar

Ég er annálaður partýpinni, treð mér í allar veislur, partý og viðburði og reyni að kreista út allt sem er frítt. Kræst nei, þessi lýsing er alveg öfug við Rönnsluna, ég er yfirleitt heima hjá mér að læra, þrífa, taka til eða í sófakúri með köllunum mínum. Væri samt alveg til í að vera annálaður partýpinni-bara svona upp á fönnið-eða hvað?

Og helgarnar, já helgarnar eru aðalpartýtíminn hjá okkur, úff ég bara veit eiginlega ekki hvað ég á að velja úr um helgar það er svo mikið að gera hjá mér. Enn og aftur fer ég með rangt mál.
Gærdagurinn var alveg magnaður, við Stebbi kíktum á bókasafnið þar sem að ég tók örugglega hálft safnið þegar kemur að heilsu og hreyfingu. Síðan var skellt sér á leikskólann í brekkuna þar og rólað eins og enginn væri morgundagurinn, það var svaka stuð! Síðan læddumst við inn á Ásabrautina í heitt kakó og meðí-ekki slæmt það.


Hér voru allir hressir og ferskir í kuldanum

Stefán Logi var reynar alveg búinn á því þegar heim var komið eftir að hafa vaðið snjó að hnjám og steinsofnaði í sófanum og á meðan ákvað mamman að safna heimildurm fyrir BA skrif, eigum við eitthvað að ræða það dæmi eða, halló þarf spark í rassinn núna. Dagurinn í dag verður tileinkaður BA vinnu.

Ákvað síðan að tríta gaurana í kvöldmatnum með grilluðum samlokum og Smoothie drykkjum, Spy Kids II var síðan bíómynd kvöldsins, ég meina hver stenst Antonio Banderas með yfirvaraskegg? Það voru nú ekki meiri partýheit en það að ég var farin upp í rúm klukkan hálfellefu.

Keyrum þetta í gang!

Núna sit ég fyrir framan tölvuna og bíð eftir að gólfið þorni þar sem að það er ný ryksugað og skúrað og drengirnir eru í einhverjum leik í sófanum-ég legg ekki meira á ykkur!

Kv. Rannsla partýpinni!

Saturday, January 10, 2015

Eldrauð í framan og við það að detta niður dauð!

Þannig var gærdagurinn hjá mér í þrekhring í Söndru leikfimi! Dæs.........Ég er endalaust svekkt út í sjálfa mig að vera komin í svona hrikalega slæmt form eftir að hafa verið fyrir ári síðan í góðu formi og var síðan í dúndurformi í maí á síðasta ári sem ég missti síðan alveg niður þegar ég fór í vaktavinnu og hef eiginlega ekki komið mér á rétt ról síðan, hef einfaldlega ekki gefið mér tíma til að hugsa um sjálfa mig! HVAÐ ER ÞAÐ!!

Einföldustu æfingarnar í gær voru erfiðar, eins og að hoppa til hliðar á palli, planki, framstig með lóð svo fátt eitt sé nefnt, ég hélt að þetta væri mitt síðasta og það eina sem ég hugsaði allan tímann var hvort að þetta gæti verið satt? Er ég virkilega búin að láta mig drabbast svona niður og komin á byrjunarreit? Jú það er víst satt, þarf líka að hugsa betur um mataræðið, pítsa tvö kvöld í röð hjálpar víst ekki til! Obbosí, jólin eru búin lömbin góð og tími til að husa betur um sjálfa sig, núna verður þetta lífsstíll ekkert bara einn mánuður eða þannig rugl!

Ég keypti mér æfingadýnu í Nettó á spottprís í gær, ísskápurinn er stútfullur af hollustu og ég er á leiðinni á bókasafnið til að næla mér í bækur sem snúa að heilsu og mataræði, þarf almennilegt spark í bossann! Ég veit að mörgum finnst þetta asnalegt, ég ríf mig niður eins og illa gerður hlutur en mér líður sjaldnast betur en þegar ég er í góðu formi og hugsa vel um það sem ég set ofan í mig. Ég sakna líka Metabolic, þarf að detta í gírinn aftur þar, ohhhh það eru dásemdartímar.......

Thursday, January 8, 2015

Hið fullkomna líf á alnetinu

Sumir eiga algjörlega fullkomið, hnökralaust og dásamlegt líf á netinu, Facebook, Instagram og fleiri síður eru stútfullar af svona fólki sem er alltaf brosandi, alltaf að dásama lífið í bak og fyrir, engar ljótar myndir og ég veit ekki hvað og hvað.

Mér fannst dásamlegt að sjá um daginn mynd af bræðrum sem höfðu verið að rífast og stríða hvor öðrum allan daginn og mamman var búin að fá nóg og setti því texta undir brosmildu myndina af drengjunum sínum þar sem að kom fram að þessi mynd var algörlega sviðsett af þeirra hálfu en þá voru bara nokkrar sekúndur frá því að þeir höfðu verið að pikka og pota í hvorn annan. Hver kannast ekki við svona daga þegar krakkarnir eiga í hlut. Jiminn eini, suma morgna er ég bara fegin að komast með mína drengi í heilu lagi í skólana!

Ég fylgi allskonar fólki á Instagram og sæki stundum innblástur þangað en stundum verður mér nóg boðið þegar kroppamyndirnar eru annars vegar en ég held að það séu öfgar í mörgu sem við gerum og mér finnst ég stundum vera alveg pínulítið peð í þessum heimi þegar ég skoða þessar myndir því mér finnst ég svo ómerkileg, er einhver grasekkja suður með sjó sem er með tussubumbuna í yfirstærð!

Allir eru skælbrosandi, með spariduckfésið, kreppta og stælta vöðva, fullkomið hár, skjannahvítar tennur og förðunin er upp á tíu. En það sem mig langar að vita er hvernig er lífið bakvið tjöldin? Er það bara dans á rósum, sykurpúðar og kandý floss?

 Æji ég veit ekki, örugglega ekki en fyrir Gunnu út í bæ (eða eina litla Rönnslu) virðist svo vera. Ég er farin að líta á ýmsa hluti með miklu gagnrýnni hug núna en ég gerði áður og svei mér þá það er enginn fullkominn. Þannig erum við bara, við berum ýmsar byrðar á baki okkar en hey ef þú þekkir einhverja sem eiga hið fullkomna líf, þá bara jibbíkóla-þvílíkur lottóvinningur.

Að sjálfsögðu má hverjum og einum finnast sitt líf vera fullkomið og dásamlegt, mitt er það svo sannarlega ekki en er það gott? Já ég held það bara? Er ég hamingjusöm? Já. Ég held að hamingjan skipti miklu meira máli heldur en eitthvað sem er fullkomið, vissulega væri ég til í að vera með aðeins tónaðri líkama, jafnvel eiga bílskúr við húsið mitt, eiga nokkrar krónur í viðbót inn á bankabók og vera með aðeins meiri sjálfsaga þessa stundina. En ég held samt sem áður að ég sé bara nokkuð sátt við það sem ég á og hef, ég er ekki að leita að fullkomnun-langt því frá. Ég er eins og ég er og nýt þess með köllunum mínum.

Knús í hús. x

Eitt uppstillt duckface fær að fylgja með, þess má geta að þetta var tilraun ég veitekkinúmerhvað til að fá sæmilega mynd, sem hún er svo kannski ekki. Jæja get að minnsta kosti þvegið eyelinerinn og maskarann af núna...............



Wednesday, January 7, 2015

Með fjörfisk í auganu......

Er að tryllast, gersamlega TRYLLAST á fjörfisknum í vinstra auganu mínu, hann stoppar nánast ekkert allan daginn, tekur stutt hlé við og við og mér líður eins og að ég sé alltaf að blikka fólk en enginn annar sér hann nema ég.

Augað er búið að vera skoppandi síðan fyrir jól, hef reynt allt, vera með maskara, ekki með maskara, með krem á auganu og ekki, tekið inn Magnesíum, drukkið vatn, sofið nóg og ég veit ekki hvað og hvað. Ef þið vitið um einhver töfraráð þá vil ég endilega fá að heyra.

Annars erum við Friðrik búin að hanga heima í allan dag en hann er með skítapest, Stebbinn er í feiknastuði og finnst ótrúlega gaman að vera kominn aftur á leikskólann eftir gott jólafrí. Ég er með svakalegar harðsperrur og mikið er það nú ljúft.

Lokaritgerðarskrif byrja um helgina, hólí mólí, nóg að gera alltaf. Vonandi fer fiskurinn að hætta að skoppa í auganu á mér bráðlega, áður en ég fríka gersamlega út!

Knús í hús.

Monday, January 5, 2015

Algjört ÓHÓF!

Já halló halló, nú er víst jólafríið búið en klukkan er rétt yfir 18:00 og ég er að sofna, steinsofna og þarf að hafa mig alla við að sofna ekki með andlitið á lyklaborðinu!

Ég og matur síðan 19.desember.....

Reif mig upp úr sófanum til að ég myndi ekki sofna þar en Stefán stuðbolti rotaðist rétt eftir kl.fimm, sé fram á gleðikvöld hér á bæ ef hann rumskar bráðlega, honum fannst það reyndar agalega sniðugt að vekja ig klukkan fimm í nótt en ég náði að sannfæra hann að það væri ennþá nótt og minn maður sofnaði (ekki fljótt þó) aftur og mamman vaknaði öll lurkum lamin eftir að hafa varla sofið dúr vegna fjörfisks í auganu og hræðslu um að ég myndi sofa yfir mig, náði ekki almennilegum svefni og var alltaf að vakna, kannski er það ástæðan fyrir því að ég berst núna við að halda augunum opnum.

Matargatið ég getur ekki hamið sig eftir jólaátið, jiminn eini hvað var gott að borða, njóta og slaka á allt jólafríið en núna þarf maður að fara að girða sig í brók og hugsa betur um sig, sykurátið var ekki að gera góða hluti, já ég sagði S Y K U R átið, Rannslan gat ekki hætt að borða sykur en stuttu eftir að ég ákvað að hætta að borða hann þá varð ég fárveik, ónæmiskerfið hló bara að mér og hélt að ég væri endanlega að klikkast, endaði með lungnabólgu og vesen og er nýbúin að jafna mig almennilega á því þannig að ég hreyfði mig ekkert í desember á meðan að sjóarinn síkáti var heima.

Það er ekkert smá mikið stuð hjá þeim!!


Ég er þó komin á námskeið sem samanstendur af pöllum og lóðum sem er 2x í viku, það er þó eitthvað. Þarf að vera duglegri að nota Fitnessblender síðuna og hreyfa mig eftir vinnu með aðstoð hennar, snilldar síða með fullt af góðum og skemmtilegum æfingum með mismunandi erfiðleikastig.

Rannslan á morgun? Veit þó ekki alveg með dressið.....


Þrátt fyrir að maður hreyfi sig skiptir mataræðið öllu máli, ohhhh það er bara svo gott að borða en þó í hófi og fjölbreytt og og og það má alveg borða smá sykur með, ekki þó of mikið-bara gæta hófs, þarf að detta í þann gír aftur eftir fjandi langt hlé.

Samhæfingin, hún skiptir höfuðmáli!


ÉG held að það vaxi food baby innan í mér, ekki þó alvöru barn, nei nei engan asa, sá tími er liðinn. Það er búið að loka barnamaskínu Rönnslunnar.
Vonandi mun ég geta andað fyrir harðsperrum á miðvikudaginn en fyrsti palla/lóða tíminn er á morgun, hóle móle hvað ég hlakka til!

Knús í hús.

Sunday, January 4, 2015

Úr óreiðu í rútínu

Jólin eru komin niður hjá frúnni, nokkur ljós fá þó að lýsa upp skammdegið í gluggunum en fara fljótlega niður enda jólafríið senn á enda ásamt því að R Ú T Í N A N hefst aftur-halelúja!

Kaffibollarnir verða nokkrir á morgun....


Börnin eru ekki verst í rútínuraskinu, ó nei! Það er mamman, mamman á það til að skríða svolítið seint framúr ásamt því að vera vakandi langt langt frameftir og gerir hvað.......nákvæmlega ekki neitt en hausinn er alltaf að skipa mér í bælið en þá æji bara einn þátt í viðbót eða eitthvað, takk Netflix fyrir að setja Friends inn hjá ykkur, Crap, ég elska Vini mína og kann nánast hvern einasta þátt enda kláraði ég flestar setningar og fór með nokkra vel valda frasa þegar ég horfði á þætti í gær.....

Þetta er of gott stöff, ætli að ég kunni ekki þennan dans-svei mér þá



Akkúrat á þessari stundu sitja tveir molar og ræða öll heimsins mál á meðan að þeir eru að fá sér að borða, átu þeir kvöldmat-já, eru þeir að sálast úr hungri-nei, er þetta orðinn hluti af jólarútínunni-gæti verið!

Obbosí, fyrsti vinnudagurinn á morgun eftir ótrúlega ljúft, notalegt og þægilegt jólafrí. Ég man ekki eftir öðru eins jólafríi þar sem að púlsinn fór örugglega ekki yfir 100 slög per mínútu, maginn var troðinn eins og þakkargjörðarkalkúnn og það er örugglega komin dæld í sófann eftir bossann minn, hef varla stigið uppúr honum á milli áts og jólaboða......

Svona verður Marri á morgun þegar hann reynir að vekja mig
Ég hlakka samt til að fá rútínuna aftur í líf mitt, Meyjan elskar rútínu og skipulag!

Knús í hús!



Thursday, January 1, 2015

Nýtt ár og ný tækifæri

Enn á ný er komið nýtt ár.......2015 takk fyrir túkall! Úff árið 2014 leið ansi hratt og mikið skemmtilegt gerðist á því ári en frúin var hvorki meira né minna en þriggja tuga gömul.
Ég er spennt fyrir 2015, ég veit ekki af hverju en ég hef góða tilfinningu fyrir árinu, ætla að gera þetta að mínu ári, eða þetta segi ég amk á hverju ári og svo verður ekkert úr því en núna skal ég gera það!


Já nú verða nokkrar góðar blaðsíður skrifaðar fyrir árið 2015. Það sem ber þó einna hæst á þessu ári er að ég mun klára BA gráðuna mína og útskrifast í sumar frá Háskólanum á Akureyri, stórt og merkilegt stökk þar á ferð. Næst á dagskrá er að koma sér í gírinn eftir letilíf jólafrísins og fara að gera beinagrind og afla heimilda fyrir lokaritgerðina.

En þá er komið að áramótaheitnunum, ætla ég að strengja einhver? Ó já! Ég ætla þó að reyna að gera þau eins raunhæf og ég mögulega get, það er ekkert meira leiðinlegt en að strengja heit og þau hverfa bara hviss bamm búmm því þau eru svo flókin og leiðinleg..........

  • Komast í betra form, hætta að koma fram við líkamann eins og ruslakistu og hreyfa mig meira.
  • Hætta að drekka gos, ég hætti því fyrir 4 árum síðan og byrjaði á því aftur á síðasta ári, nú er ég hætt aftur!
  • Hætta að drekka vín sem breytir manni í svín! Nei í alvöru, er hætt að drekka. Ég drekk svo hrikalega sjaldan að ég er ónýt eftir nokkur glös daginn eftir, ætla bara að hætta þessu alveg og njóta þess að vera alltaf fyr og flamme og hress daginn eftir að ég fer út að skemmta mér.
  • Spila golf! Já ég fékk golfsett í þrítugsafmælisgjöf og nú skal lækka forgjöfina í sumarfríinu með frumburðinum.
  • Minnka símanotknun mína, jiminn eini þessi sími, stundum slitnar ekki slefið á milli okkar!
  •  Eiga fleiri gæðastundir með fjölskyldunni, fara meira út að labba og stunda meiri útivist með þeim. 
  • Fylgja draumum mínum, æji ég á nokkra drauma í pokahorninu og þeir þurfa að verða að veruleika bráðlega, maður á að fylgja draumum sínum og gera það sem manni finnst skemmtilegt að gera.


Ég held að þetta séu flestallt raunhæf markmið sem ég mun fylgja eftir, mikið afskaplega hlakka ég mikið til ársins 2015-ár Rönnslunnar. Já svo er svo sem kannski hægt að bæta einu áramótaheiti við og blogga meira, úlallla!!

 Gleðilegt ár elskurnar mínar og takk fyrir liðið, hér að neðan eru svo nokkrar myndir frá desembermánuði en ég heiti rannveigjonina á Instagram, megið endilega fylgja mér.

Knús í hús.

Mæðgur á annan í jólum

Marri sætabrauð klár í sparifötunum

Árið 2014 gert upp í myndum

Aðfangadagskvöld

Dásamlegu æskuvinkonurnar

Stebbaknús!