Monday, September 12, 2016

Uppáhalds vörurnar mínar frá Garnier



Ég er snyrtivörudræsa, já ég sagði það dræsa! Ég þarf virkilega að hafa fyrir því núna að kaupa sem minnst þar sem að ég ætla að missa mig nett í Glasgow í byrjun nóvember en þar er víst hægt að versla dágóðan slatta af snyrtivörum, mér væri svo sem alveg sama þótt ég færi ekki heim með eina flík (nei nú lýg ég) ef ég kæmi heim með kúfulla tösku af snyrtivörum.


Garnier er merki sem heillar mig sífellt meira, Michellar hreinsivatnið hef ég notað mjög lengi frá þeim og nýjustu hreinsiklútarnir í þeirri línu eru æðislegir! Dúnamjúkir og mikið af vökva í hverjum klút sem mér finnst æði, þoli ekki hálf þurra klúta með engu til þess að þvo sér með, til hvers þá að nota þá? Ég nota klútana til þess að þvo af mér meiköppið fyrir ræktina og svo hreinsa ég húðina almennilega eftir að ég er búin í baði.



Nýjasta nýtt frá Garnier eru rakamaskar og ég varð að prófa þá! Já ég VARÐ! Kræst, laumaði tveimur stykkjum með í körfuna í Krónunni um helgina og ég verð að viðurkenna að ég er ástfangin. Raki, raki og raki er það eina sem mér dettur í hug þegar ég segi frá þessum klútum. Fjölskyldumeðlimir fengu hins vegar vægt sjokk þegar ég mætti með herlegheitin framan í mér rétt eftir kvöldmat og sá yngri grenjaði næstum úr sér augun af sjokki (kannski að ég hafi líka nýtt mér smá spúkí útlitið og hrætt hann, skál, mamma ársins).



Margar af vinsælustu bjútí snöppurum landsins hafa verið að prófa þennan maska og ég beið spennt eftir að ég fyndi hann í Hagkaup eða Krónunni. Steinunn Edda á Trendnet skrifaði einmitt um þennan maska um daginn og hér má skoða nánari lýsingu af honum.

Mér finnst Garnier vörurnar dásamlegar, sérstaklega hreinsivörurnar, mæli hiklaust með þeim.

Fylgdu mér á Snapchat: rannveigjonina

Sunday, September 11, 2016

Að velja það að hægja á sér

Sumarið fór í ákveðna naflaskoðun, naflaskoðun um það hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, ég er nefnilega bara 32 ára gömul og hef ennþá tíma til þess að ákveða hvað mig langar að gera í framtíðinni. Enn sem komið er er ég með sveinspróf, stúdentspróf og BA gráðu. Ég hef alltaf verið í námi fyrir utan þann tíma sem ég gekk með drengina okkar, mér leiddist meira að segja svo mikið þegar Stefán Logi var sex mánaða að ég skráði mig í fullt háskólanám og hefur lífið verið rússíbanareið síðan þá.

Manni finnst maður alltaf þurfa að gera allt, vill fylgja börnunum sínum á alla þeirra viðburði, komast í ræktina, sinna sinni vinnu 100% og allt þar á milli en stundum gefur eitthvað eftir og heilsan gaf sig hjá mér síðasta vetur, vítamínskortur, inflúensa, magapestir og margt margt fleira ásamt því að skrifa lokaritgerð tóku sinn toll og ég er eiginlega enn að jafna mig eftir öll þessi herlegheit og fæ hroll niður á bak þegar ég hugsa um síðastliðið ár.

Þannig ár vil ég ekki upplifa aftur. Ég var búin að skrá mig í meistaranám í vetur, M.Ed. í kennslufræði nánar tiltekið. Þegar ég hugsaði um það að fara í skóla í vetur með fullri vinnu fékk ég kökk í hálsinn, illt í magann og þennan ónotahnút sem fylgdi mér í allt sumar af stressi við að standa mig í námi og vinnu í vetur. Ég vil standa mig vel í vinnu og einnig í náminu mínu en ég er algjör A manneskja og vil helst vera farin upp í rúm kl níu á kvöldin og ég var farin að sjá fyrir mér bauga niður á bringu eftir kvöldlærdóm og ræs klukkan sex til að koma sér í gang fyrir daginn.

Tankurinn var orðinn tómur og ákvað ég að fresta náminu í ár amk, þetta ár ætla ég að reyna að komast að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór, langar mig að kenna áfram? Ég veit það ekki, mig hefur alltaf langar að starfa í fjölmiðlum enda fór ég í nám sem tengist þeim geira.

Það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verð ég komin í M.Ed. nám eftir ár, kannski á nýjan starfsvettvang, kannski ekki, það er gefandi að kenna en einnig mjög erfitt, það vita það allir sem sinna því starfi. En lífið er ekkert alltaf dans á rósum og ég er ekkert að væla neitt, maður þarf bara stundum að staldra aðeins við, hugsa um hvað maður vill gera og ákveða það á sínum eigin forsendum en ekki af því að einhverjir aðrir vilja að þú gerir það.

Þú getur einnig fylgt mér á Snapchat: rannveigjonina