Saturday, September 20, 2014

Ofurkonan ég, þú og allar hinar......

Hvað er það sem skilgreinir hina einu og sönnu ofurkonu? Hvaðan kemur orðið ofurkona? Erum við ekki allar ofurkonur þar sem við erum dags daglega að glíma við okkar innri djöfla? Eða jafnvel djöfla sem koma frá hinum ýmsu fjölmiðlum, glanstímaritum og jafnvel frá hvor annari eða samfélaginu almennt.

Ég veit ekki með þig en oftar en ekki er ég meira að pæla í því hvað aðrir segja eða halda um mig þegar ég fer út úr húsi heldur en eiginmaðurinn þar sem að hann hefur séð mig í ýmsum múnderingum-misglæsilegum þó. Ég veit að hann elskar mig í blíðu og stríðu en hið almenna alþingi er kannski ekki alveg á sama máli og fnnst ég kannski vera hin versta trunta eða hrikalega leiðinleg, jafnvel eitthvað verra. Þetta er drullusvað sem ég dett stundum í en næ þó í flestum tilfellum að rífa mig uppúr sem betur fer, gef bara skít í álit annara-leyfum þeim bara að tala og smjatta, ég er fabúlöss!

Tímarit eru stútfull af kjaftæði og þvælu sem innihalda meðal annars fyrirsagnir sem hljóða til dæmis svona: “missti 52 kíló á einu ári”, “aldrei liðið betur en núna-léttari sem aldrei fyrr”, “svona færðu flottari líkama á mánuði”. Skiljum við ekki enn þann dag í dag að lífið er langferð en ekki spretthlaup, líkami okkar breytist eins og flest annað sem er á lífi, lífið er ekki alltaf eins heldur upp og niður og það sama mætti segja með líkamann okkar. Minn hefur að minnsta kosti rokkað frá því að vera svo grannur að það sást ekkert nema bein og svo feitlaginn að hnén voru farin á yfirsnúning undan álagi.

Aldrei erum við sáttar, alltaf erum við að miða okkur við hvað grasið er grænna hinu megin………æji kræst hvað mig langar samt að elska keisaratotuna mina-lesist “tussubumban”.

Svo er það hin eina og sanna ofurkona, sú sem er í skóla, vinnu, á börn, stundar ræktina, er sjúklega sæt alla daga, aldrei með rót í hárinu og alltaf alsæl, jiminn eini þessi gella hlýtur að vera á einhverju sterku-jafnvel ólöglegu!

Sjálf er ég í dag í 100% vinnu, einu fagi í háskóla, á tvo dásamlega drengi, eiginmann, hund og sé um heimilið ásamt manninum og ég sit slefandi á sófanum hjá mér á hverju kvöldi klukkan níu því ég er búin á því-rafhlaðan er tóm. Vinnan mín er hinsvegar dásamleg, ég kenni frábærum snillingum og vinn með æðislegu fólki en ofurkonan ég er örmagna eftir langan dag, þvott, þrif, vinnu, heimanám og fleira.

Af  hverju getum við ekki bara sagt sannleikann og talað hreint út? Þetta er ótrúlega erfitt, gaman, skemmtilegt en erfitt og oft á tíðum óyfirstíganlegt en reddast þó oftast allt að lokum. Það er enginn fullkominn og ef þú heldur að einhver ákveðin manneskja sé fullkomin eða líf hennar þá veistu ekki helminginn eða jafnvel meira en það. Þú veist ekkert hvað konan sem situr við hliðina á þér er að glíma við eða hvað hún upplifði áður en hún fór út úr húsi, kannski var morguninn hennar skelfilegur en hú fór út-feisaði lífið og er stolt af sér!

Suma daga er maður bara ekki í “formi” með bauga sem ná inn í höfuðkúpuna, mallakútinn uppþemdan og jafnvel bjúg því æji poppið var girnilegt í gær en maður fer samt sem áður út, dílar við lífið og tilveruna og heldur áfram.

Elskan, ég þú og allar hinar erum OFURkonur á hverjum degi, það skiptir engu máli hvað þú ert að gera, hvað þú gerir eða hvað þú gerir ekki líf þitt og tilveran þín er alveg jafn merkileg og mín og allra annara. Mundu það. Grasið er ekki alltaf grænna hinumegin og virðum okkur fyrir það sem við erum, konur, sterkar, flottar og frábærar-allar með tölu!