Wednesday, March 11, 2015

Ef að frúin færi á sjó

Þegar ég var lítil snót þá var pabbi á sjó, mamma sá um mig og bræður mína eins og ekkert væri og gerði það með stakri prýði. Þegar pabbi hætti á sjó sagðist ég aldrei, ALDREI ætla að ná mér í sjómann, boy was I wrong.......enda er framtíðin ekki ráðin þegar maður er um tíu til tólf ára aldurinn.

Þegar við Gummi kynntumst var þessi elska líka ekki sjómaður heldur fjallmyndarlegur smiður (hann er enn gordjöss þessi elska). Þar datt ég svo sannarlega í lukkupottinn enda erum við gift tæpum tólf árum seinna og eigum tvo drengi. Mér leiddist alveg hrikalega í fæðingarorlofunum mínum, mér fannst tíminn líða hægt, fór stundum ekki út úr húsi heilu og hálfu dagana og hreinlega fílaði þetta "ástand" ekki. Alls ekki!

Þegar Stefán Logi (yngri) var sex mánaða gamall leiddist mér svo mikið að ég skráði mig í fullt háskólanám sem ég ætla mér að ljúka í sumar en þá mun ég skrifa ritgerðina mína og skila henni inn seint í sumar. Á þessum tímapunkti var ég búin með sveinspróf í hársnyrtiiðn og stúdentspróf og 27 ára aldurinn nálgaðist, mig langaði að verða eitthvað! Var ekki viss um hvað það var en ákvað að skrá mig í fjölmiðlafræði og sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag, BA gráðan nálgast, loksins.

Í dag fjórum árum seinna er ég umsjónarkennari í fyrsta bekk, ennþá móðir tveggja drengja, hundur hefur bæst í vísitölufjölskyduna og Gumminn er á sjó! Já á S J Ó! Eitthvað sem átti ekki að gerast en neyðin kennir naktri konu (karli) að spinna þegar frúin ákveður að fara í háskólanám, Lín framfleytir seint fjögurra manna fjölskyldu.

Ég hef oft samt sem áður velt því fyrir mér hvað ef þessu væri snúið við? Ef að ég færi á sjó í 25-30 daga og væri bara heima annan hvern mánuð? Nú veit ég að það kemur svipur á marga en ég er ekki frá því að Rannslan myndi plumma sig vel sem háseti á togara, langaði alltaf að fara einn og einn túr á sumrin þegar ég var nokkrum árum yngri en Daddy cool hélt nú ekki og Gummi hlær ennþá þegar ég minnist á þetta.

Þrátt fyrir að hafa leiðst í fæðingarorlofum drengjanna minna þá elska ég þá afar heitt og hef alltaf verið til staðar fyrir þá, hef líka stundum þurft að vera mamman og pabbinn og tel mig hafa tekist á við það hlutverk nokkuð vel. Ég er ekki ofurkona, þetta er bara eitthvað sem þarf að gera og hafa margar konur tæklað þetta hlutverk með stakri prýði eins og mamma og gera enn þann dag í dag.

Mér líður vel á þeim stað sem ég er í dag í lífinu og ætla að láta draumana mína rætast í framtíðinni, ætla ekki að láta samfélagið ráða því hvaða vinnu ég vinn eða hvar ég vinn hana, ég er og verð alltaf mamma og mömmur þurfa líka að láta draumana sína rætast, lífið fer ekki í bið þegar litlir einstaklingar bætast í það. Þeir gera lífið innihaldsríkara og ennþá skemmtilegra.

Hættum að dæma þá sem láta draumana sína rætast og elska það sem þeir gera.


Monday, March 9, 2015

Að efast um allt, meðal annars móðurhlutverkið

Ég á það til að detta í gírinn þar sem að mér finnst ég alveg gersamlega ómöguleg-í öllu, bókstaflega.
Ég hef sagt frá því áður og þessi gír vill oft kikka inn þegar grasekkjumánuðurinn á sér stað, Rannslan er hin týpíska meyja sem vil hafa allt á hreinu og svei mér þá ef það er ekki bara allt á hreinu hjá mér flesta daga. Nema þá daga sem allt er á hvolfi, í hausnum á mér.

Ég steig á vigt um daginn, hvernig mér datt það í hug hef ég ekki hugmynd um enda ekki stigið á vigt í laaaaaangan tíma en hey, hvers vegna ekki! Hefði betur látið það ógert þar sem að hausinn fór á fullt, hvað er ég að gera/ekki gera, bla bla bla bla bla!

Hvað er síðan málið með gelluna sem er undirfatamódel komin átta mánuði á leið og lítur út eins og ég þegar ég var í mínu besta formi-C R A P hugsaði ég, djöfulsins ofurkona!

Ég á tvo kröftuga orkubolta sem krefjast mikillar þolinmæði ásamt dassi af mömmuást, knúsum og aga, ég held þessu í góðu jafnvægi (held ég) en við eigum öll okkar daga þar sem að bensínið er búið og þegar maður hefur ekki átt eina stund með sjálfri sér og farið bara að sofa þegar drengirnir fara að sofa þá líður ekki á löngu að manni líður eins og tusku sem er búið að vinda þar til að ekkert ef eftir. Ég lá upp í rúmi um daginn og hristi bara hausinn yfir sjálfri mér því á einhverjum tímapunkti fór ég að spá í því hvort ég væri alveg glötuð sem uppalandi, sökkaði sem mamma!!

Elsku pabbi er á batavegi, hægum en góðum, svona akkúrat eins og allt á að vera eftir svona aðgerð. Vissulega var það sjokk þegar fréttirnar bárust að Daddy cool væri á leiðinni í svona stóra aðgerð og það gerðist allt í einum hvelli, sjúkrabíll, hjartaþræðing, hjáveituaðgerð og BÚMM, kallinn kominn heim og ekki fleiri ferðir í bili á Reykjanesbrautinni. Við erum öll ennþá að reyna að átta okkur á því að hann hafi farið í þessa aðgerð en jiminn eini hvað ég er þakklát og hamingjusöm að hann er hérna ennþá en samkvæmt lækninum sem skar hann upp mátti hann eiginlega ekki vera lengur í "umferð" eins og hann orðaði það enda var aðalæðin orðin 95% stífluð.

Það sést alltaf á andlitinu á mér þegar það er álag og stress á kjellu, núna er ættarmót, jafnvel með nokkrum ættliðum, ohhh hver elskar ekki svoleiðis daga, ljótan á háu stigi með rotturót í hárinu, útþaninn mallakút og allar græjur........Ritgerðin mín er líka á smá hold, ætla að finna nýtt efni til að skrifa um og skrifa hana í sumar, það bætir líka á stressfaktorinn- að vita nákvæmlega ekkert um hvað maður ætlar að skrifa, skál fyrir því!

En vil ég vera fullkomin, með lága tölu á vigtinni, með allt fullkomið í uppeldinu og allt á hreinu alla daga. Nei svo sannarlega ekki, lífið er í öllum heimsins litum og fjölbreytilegt, maður þarf bara stundum að minna sig á það hvað lífið er gott og þakka fyrir það sem maður hefur, svo ég tali nú ekki um heilsuna, tu tu fyrir henni, það er ekki sjálfgefið að hafa hana í toppformi, ó nei svo sannarlega ekki.