Thursday, February 27, 2014

Ökuníðingur á Akureyri

Rannslan er þekkt fyrir frábært aksturslag og óklessta bíla (skynjið þið kaldhæðnina). Eiginmaðurinn er alltaf að hrósa mér fyrir frábært ökulag eða aðstoðarökubílstjórakommentin og mömmu leiðist ekki að hafa mig sem einkabílstjóra annað slagið.

Við skvísurnar erum með bíl hérna fyrir norðan og litli hvíti Yarrinn hefur staðið fyrir sínu í snjónum hér fyrir norðan og höfum við farið ófáar ferðir uppá flugvöll eða uppí skóla í skutl og pikkerí.

Frú Rannveig hefur aðeins átt sjálfskipta bíla síðan árið sautjánhundruðogsúrkál og þegar hún svissar yfir í beinskipta þá er voðinn (stundum) vís! Það er stórkostleg gleði að drepa á bílnum í miðri ljósabeygju, keyra á eftir snjóplóg-langar laaaaangar leiðir og aka inn í götur sem eru botnlangi, já ég gleymdi að minnast á það að ég villtist "aðeins" í dag þegar ég var á leiðinni upp í íbúð eftir skólann og endaði hjá skautahöllinni en íbúðin er við KA völlinn.

Ég er voða ratvís (held ég) en ein vitlaus beygja kom mér í eitthvað rugl éggetsvosvariðþað!

En það verður smá slútt og tjútt í kvöld þar sem að þetta er síðasta lotan okkar allra saman, ég biðst afsökunar fyrirfram á Instagram geðveiki og Facebook myndum.





Wednesday, February 26, 2014

Öskrandi í flugvél

Ég á það til að vera eilítið hrædd í flugvélum þegar þær taka "fall" en það gerðist í gær þegar ég lenti hér fyrir norðan, vélin féll eilítið niður og frúin öskraði svona pent líka, sökk síðan ofan í sætið, setti hettuna yfir höfuðið og trefilinn fyrir andlitið.

Ég reyndi mikið að kúpla mig út í þessum aðstæðum og hugsaði um eitthvað fallegt á meðan ókyrrðin var í hámarki en svitnaði í staðinn köldum svita og langaði bara að knúsa alla gaurana mína. Gulla mín skemmti sér vel og fannst ég voða fyndin ásamt öllum hinum í vélinni. 

Eftir herlegheitin var nauðsynlegt að fá sér hvítvínsglas.....eða tvö.

Námslotan er hafin, nú skal læra!

Saturday, February 22, 2014

Hamingjusama átvaglið

Neikvæðnin er alls ekki að drepa mig þessa dagana en skólageðveikin hefur samt sem áður haldið áfram og ég virðist stundum ekki vita hvert ég er að fara eða hvað ég er að gera því fátt annað kemst að nema skóli, skóli og meiri skóli. Strákarnir eru farnir að kvarta yfir því að mamman sé alltaf að læra en það styttist í heimkomu pabbans sem hefur þá verið í burtu í tæpa tvo mánuði, já grasekkjulífið sko.

Norska fólkið okkar er í heimsókn og að sjálfsögðu troðum við drengirnir okkur í mat til tengdó á hverju kvöldi og í kaffitímum líka, frúnni leiðist ekki að borða og ég er ekki frá því að mittismálið hafi breikkað aðeins undanfarna viku einungis vegna þess að ég er búin að borða kökur, pönnukökur og góðan mat. Mamma bakaði einnig vínarbrauð og snúða í vikunni og ég læðist reglulega til hennar þegar skólinn er að drepa mig og fæ mér heimabakað bakkelsi enda fátt dásamlegra í heiminum en mömmubakstur.

Námslota nálgast óðfluga og niðurtalning fyrir heimkomu Gummalings er formlega hafin, við drengirnir hlökkum mikið til að knúsa þessa elsku. Stebbinn virðist grípa allt sem kallast veikindi þessa dagana en hann er kominn með hita enn eina ferðina og það fór að leka úr hinu eyranu hans í nótt en mamman á ennþá dropa handa honum en vonandi hristir hann þetta úr sér svo mamman verði ekki að drepast úr áhyggjum af barninu fárveiku á meðan hún er á Akureyri.

Hér að neðan getið þið síðan séð hamingjumyndir undanfarna daga.


Frúin var gríðarlega hamingjusöm að komast loksins aftur í ræktina eftir veikindi.

Þessar elskur gera mömmu sína mjög hamingjusama

Hoppandi glöð fyrir gymmið

Þessi elskar ömmupönnukökur

Hamingjusami námsmaðurinn á leið í dekurdag

Heimabakaðir kanilsnúðar ala mamma Gumma-dásamlegir!

Nýklipptir og þreyttir snúðar

Friday, February 14, 2014

100 hamingjusamir skóladagar

Þá er fyrsta og öðrum degi af 100 lokið (eða degi tvö að ljúka) og ég hef reynt að sjá eða finna hamingju í einhverju þrátt fyrir að vera að drukkna í lærdómi.

Það var einhver hrollur í frúnni í gær og ég gróf upp Swiss Miss pakka og gerði mér heitt kakó til að drekka með glósulestri ásamt því að naglalakka mig með nýju naglalakki úr Gwen Stefani línunni frá OPI, ég er sjúklega skotin í þessari línu og á þrjá liti-ÚPS (takk tax free dagar í Hagkaup).


Guðrún Veiga segir að lífið sé betra með lakkaðar neglur og svei mér þá ef ég er ekki sammála henni!

Dagurinn í dag hefur verið ein heljarinnar rússíbanareið og hefur lærdómur átt hug minn allan. Ég lærði í tæpa 10 tíma í dag, tók eitt próf og vann eitt heimapróf á þessum tíu tímum ásamt því að hlusta á einn fyrirlestur, þar sem að ég sá ekki fram á það að geta hlupið í búð til að kaupa mér að borða fékk ég dásamlegan matarpakka frá Höllu sem bjargaði lífinu mínu í dag.


Eins og sjá má voru glósur og Post it miðar hámóðins í dag, ég klúðraði reyndar prófinu sem ég tók í Keflavík eða allavega einni eða tveimur spurningum og þegar ég uppgötvaði hverju ég svaraði við síðustu spurninguna þegar ég leit á glósurnar heima þá hreinlega brast ég í grát og grenjaði úr mér augun! (lítil hamingja akkúrat þá stundina). Djöfull var ég svekkt, ohh sveiattan-breytti svarinu þrisvar sinnum hjá mér og auðvitað var fyrsta svarið rétt en skrifaði ég það niður, það held ég nú ekki.

Það er nú aldeilis kominn tími á svefn hjá frúnni núna enda Hot Yoga í fyrramálið og síðan ritgerðarvinna eftir það, já það er alltaf nóg að gera og ég verð að finna hamingjuna í skólanum þessa stundina, þýðir ekkert annað.


Thursday, February 13, 2014

Er hægt að vera hamingjusamur í 100 daga?



Ég er nú vanalega ekki einhver sem fylgir svona "fjöldapóstum" eða neinu slíku en 100 dagar af hamingju er eitthvað sem heillar mig, maður á ekkert að vera að springa úr hamingju í 100 daga enda er ég nokkuð viss um að maður þyrfti þónokkrar gleðipillur til þess að láta það ganga, tja eða vera í sólbaði með kokteil í hönd 100 daga í röð á Hawaii, ó ströndin!

Inn á síðunni www.100happydays.com er hægt að skrá sig og það er einmitt það sem neikvæða heimavinnanadi/skólafrúin er búin að gera.
Markmiðið með þessu er ekki að gera alla í kringum þig abbó eða neitt slíkt, þá ertu búin að tapa!

Hér að neðan er setning sem ég tók af síðunni þeirra og ég ætla að pósta einni mynd í 100 daga og sýna ykkur hvað gleður mig og hvað gerir mig hamingjusama!

"It is not a happiness competition or a showing off contest. If you try to please / make others jealous via your pictures - you lose without even starting. Same goes for cheating."



Wednesday, February 12, 2014

Snarklikkuð kerling sem er sjálfri sér verst!

Einhverja hluta vegna held ég stundum (ok oft) að grasið sé miklu grænna hinumegin en ég veit þó alveg innst inn í mér að það er alls ekki satt.
Ég er mikil Instagramdama og er að fylgjast með tæpum 1000 síðun (klikkun ég veit) og síðurnar eru allskonar, frá ofurfyrirsætum til líkamræktaheilræða og fleira.
Maður hefur ekkert rosalega gott af því að fylgjast með svona mörgum síðum því það eru allir ógeðslega happy, glaðir og í fantaformi á þessum myndum svo ekki sé minnst á sjúklega sætir.

Heimavinnandi neminn með skítuga hárið og hina áðurnefndu tussubumbu fer að hugsa um eitthvað sem hún ætti nú alls ekki að vera að hugsa um.

Af hverju er ég ekki svona mjó?
Hvers vegna er hárið mitt ekki svona flott?
Mig langar í öll fötin hennar! (Fjandans tíkin)!
Drullastu nú í ræktina bollan þín!
Vá hvað þetta er fullkomin fjölskylda!

Ég veit það alveg að enginn er fullkominn. Þrátt fyrir það byrja ég alltaf að efast um hversu "frábær" ég sé og byrja niðurrifið:

Mér finnst ég oftar en ekki ömurleg mamma og skil það stundum ekki að Gummi treysti mér fyrir drengjunum þegar hann er á sjó! 
Þetta er náttúrulega galið á svo háu stigi að það er ekki einu sinni hægt að lýsa því EN frúin rífur sig samt niður og finnst hún vera glötuð mamma!

Ég gæti nú alveg verið í betra formi og þarf nú að fara að hætta að borða þetta skítarusl sem fer inn fyrir mínar varir!
Jú gott og gilt en þegar ég er farin að "gleyma" að borða ansi oft og gleypi síðan í mig heilan kexpakka þá get ég nú sjálfri mér um kennt og veit það vel að maður kemst ekki í fínt form á því að stúta heilum kexpakka heldur með reglulegri hreyfingu og hollu mataræði.

Þú ert ömurlegur námsmaður!!
Já þetta er ég einmitt búin að hugsa mikið á undanförnum vikum en skólinn situr alveg á hakanum þegar veikindi eru annars vegar og skólaleiðinn er á sjúklega háu stigi svona á lokasprettinum.

Ég er klárlega ekki besta vinkona í heimi!
Ég veit að þetta er ekki satt en við æskuvinkonurnar búum út um allan heim og út um allar trissur og manni finnst maður bara stundum vera ömurleg vinkona þegar maður heyrir ekki í þeim mjög reglulega.

Af hverju er heimilið mitt ekki svona fallegt?
Að skoða innanhúsblöð, sjónvarpsþætti og annað hjá einhverjum frægum og sem á jafnvel skítnóg af seðlum er ekk gott fyrir sálina eða námsmannapyngjuna!

Þetta er aðeins brotabrot af því sem klikkaða kerlingin hugsar um á hverjum degi en ætli að ég sé sú eina sem er hugsa svona-alltaf að rífa sjálfa mig niður og efast um mitt eigið ágæti........

Æji ég veit ekki, ég vona ekki því þá er hugsanlega tími til kominn að kíkja til kú kú doksa!

Tuesday, February 11, 2014

Mögulega bestu spelt, Chia, bananapönnukökurnar í heiminum!



Hráefnið tilbúið og uppskriftin klár í tölvunni

Hún Margrét Pjattrófa er snillingur þegar kemur að því að malla eitthvað gúrme í eldhúsinu og mér finnst alls ekkert leiðinlegt að prufa uppskriftirnar hennar.
Þessar pönnukökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég geri þær stundum þegar Friðrik fær gesti í heimsókn og þær slá alltaf í gegn.

Komnar á pönnuna

Uppskriftin er hér en ég er eiginlega hætt að fylgja henni alveg þar sem að ég kann hana nánast orðið utan af því ég hef gert hana svo oft.
Ég hef líka breytt henni aðeins og set 2 egg og kókosmjöl í staðinn fyrir kókosflögur. Ég hef líka aðeins meiri kanil og slumpa Agave sýrópi yfir herlegheitin.
Það er gott að steikja þær upp úr bragðlausri Kókosolíu

Ég mæli með þessum dýrðardásemdar pönnukökum en það er voða gott að setja þær síðan inn í ísskáp (ef það er afgangur) og grípa í þær á kvöldin eða daginn eftir bakstur, þær eru súperhollar og sykurlausar.
Klappað og klárt og Vanilla Snowflake kertið frá Bath and Body Works, mmmmmm!

Verði þér að góðu!

Monday, February 10, 2014

Svík öll loforð......

Ekki veit ég hvað ég hef gert þessari flensu (já ég er enn að tala um hana) er búin að vera með svakalegt kvef og skítahósta í viku núna og ég held ég sé búin að gleyma því hvernig matur bragðast í raun og veru þar sem að ég finn ekkert bragð af neinu sem ég borða þessa dagana.

Var komin í svo sjúklega góða rútínu áður en ég varð lasin og svo bara BAMM, skotin niður á staðnum og er ekki ennþá staðin upp því alltaf þegar ég held að ég sé að verða góð þá fæ ég svakalegt hóstakast eða snýti úr mér nýrum og lungum.

Mataræðið er í algjöru ólagi hjá mér og ég hef ekki komist í ræktina í tæpar tvær vikur því ég myndi deyja á hlaupabrettinu og klárlega kafna í Hot Yoga eða spinning. Ég er mjög dugleg að gleyma því að borða og síðan loksins þegar ég fatta að ég er orðin svöng þá er blóðsykurinn í svo sögulegu lágmarki að ég gæti jafnvel borðað matinn hans Marra! Var að enda við að klára heilan Toffypops kexpakka alein og ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að hann hafi farið niður á fimm mínútum.
Snapchattið sem ég sendi vinum mínum áður en ég gleypti í mig kexið.


Ég var búin að lofa sjálfri mér að falla ekki í þessa gryfju aftur en ég á nóg af hollu snarli inn í skáp og ísskáp hjá mér en þetta heillaði bara meira þessa stundina, núna er ég komin með tussubumbu eftir hreyfingarleysið og ég dó næstum því á laugardaginn þegar ég þreif húsið og hóstaði eða snýtti mér á tveggja mínútna fresti.
Allt horfið, beint í tussubumbuna!!


Er að kafna úr kvefi og neikvæðni þessa dagana eitthvað, þessi flensa er líka búin að fara svo ógurlega í skapið á mér að ég er farin að hætta að fýla það að vera með sjálfri mér, sum sé mér finnst ég sjálf vera orðin leiðinleg! Ég er komin með hrikalegan skólaleiða, hugsanlega vegna þess að að eru tvö próf í vikunni og tvö skilaverkefni og mig langar bara ofboðslega mikið að fara að vinna og hitta fólk, ekki bara vera heima, læra, þvo þvott, sitja í sófanum og hlusta á fyrirlestra eða horfa á hundinn (ekki sjónvarpið og svo sannarlega EKKI á Friends í flakkaranum).

Vonandi fer jákvæðnin að kikka inn, ein skólavinkona mín sagði mér að fá mér Koníak þá hyrfi kvefið. Kannski ég kíkji til pabba og sjái hvort hann eigi Koníaksdreitil handa yngsta krakkanum sínum, hann á eftir að missa andlitið þegar ég spyr hann, kojufyllerí í kvöld!


Friday, February 7, 2014

Svefnvikan ógurlega

Öll þessi vika hefur farið í svefn, svefn og meiri svefn. Eftir að hafa verið skotin í kaf af Inflúensunni um síðustu helgi kom hósti og kvef eftir að hitinn var farinn og það þýddi bara eitt, S O F A!

Svefn er víst besta meðalið við þessari flensu en maður fær ekkert við henni, engin sýklalyf eða neitt gott stöff sem hjálpar manni við að losna við þennan pestagemling úr kroppnum. Þannig að ég hef farið með strákana í skólana og skriðið aftur í bælið eftir að þeir eru farnir og nánast legið fyrir alla vikuna.

Orkan hefur einnig verið á núllinu, engin matarlyst enda finn ég ekkert bragð og það er ekkert gaman að borða nema að maður finni bragð af matnum sínum-það finnst mér að minnsta kosti.

Fór á kaffihús í dag en stoppaði stutt þar sem að hor og hósti frúarinnar var ekki vinsæll á kaffihúsinu, það nennir enginn að hlusta á mann hósta úr sér lungun eða snýta úr sér nýrunum þegar hann ætlar að setjast niður og slaka á með kaffibollanum.

Þessa helgi er stóra vísindaferðin í skólanum en frúin verður heimavið sem þýðir að ég hef misst af öllum vísindaferðum skólagöngu minnar, heilsan leyfir mér bara ekki að vera á meðal fólks þessa dagana.

Það var mikil gleði hjá mér að tveir fyrirlestrar skyldu falla niður þessa vikuna þá hafði ég minna samviskubit yfir því að liggja og "leyfa" mér að vera veik. 

Vonandi kikka bragðlaukarnir inn eftir helgi og ég vona líka heitt og innilega að ég komist aftur á skrið í ræktinni og geti farið í rútínuna aftur, féll algjörlega af rútínuvagninum þessa vikuna.

Tuesday, February 4, 2014

Þegar Inflúensan slær mann gersamlega út af laginu!

Hér á bæ hefur verið sannkallaður Inflúensufaraldur en Stefán Logi byrjaði þriðja aldursár sitt með viku veikindum en hann er líka svo gersamlega uppgefinn eftir fyrstu tvo dagana á leikskólanum eftir veikindin að hann er farinn að biðja um að fara í "lúllið".
Friðrik Franz hefur einnig verið með ljótan hósta og virðist ekki vera að hrista hann úr sér.

Á laugardaginn var ég slegin niður af Inflúensunni svo heiftalega að ég var varla með meðvitund í tvo sólahringa, 40°hiti og svitakóf tóku við næstu 48 tímana. Það er foreldrum og tengdaforeldrum að þakka að börnin voru í góðum gír enda var ég ekki í neinu standi til að sinna þessum elskum.

Fyrir manneskju sem lifir í Exel skjali, sérstaklega á grasekkjumánuðunum þá eru það svona hlutir sem slá mig alveg út af laginu og út úr allri rútínu, skólinn fer í bið, líkamsræktin líka, mataræðið er búið að vera í tómu rugli en ég fékk óumbeðna þriggja daga föstu með þessum veikindum en það þýðir ekkert annað en að spýta í lófana þegar maður hressist og setja í áttunda gír!

Vonandi höfum við öll tekið okkar veikindaskammt út fyrir næstu mánuðina og rútínan og hið daglega líf getur hafið sinn vanagang.
Mælt er með að fólk sé duglegt að þvo hendurnar á þessum árstíma þegar flensan gerir vart við sig, er komin með svo þurrar hendur að ég held að allur handáburður í heiminum geti varla lúbað mig nógu vel upp! 

Svona hefur útitið verið á frúnni undanfarna daga, kannski að ég þvoi hárið á morgun svo það lúkki ekki lengur eins og úfið hreiður.