Monday, April 27, 2015

Rannslan mælir með : HREYFINGU



Ég elska E L S K A að hreyfa mig, ég myndi kalla mig líkamsræktarnörd því ég er festi mig nánast aldrei í því sama, ég hef prufað spinning, body pump, pallatíma, Þitt Form hjá Freyju, Foam Flex, Hot Yoga, Lyft lóðum, hlaup, göngur, fjallgöngur, Metabolic og æfði fótbolta í fjöldamörg ár.

Mér finnst fjölbreytnin æðisleg og ég get ekki beðið eftir að ný aðstaða komi í gömlu sundlaugarbygginguna eftir nokkrar vikur, þá getur maður farið að hlaupa, lyfta og mætt í einhverja skemmtilega tíma sem verða vonandi í boði þar, ég mun að minnsta kosti halda áfram að hoppa og skoppa hjá Söndru, það er alveg á hreinu.

Ég hef meira að segja gengið svo langt að ég á pall, ketilbjöllu, lóð, dýnu og sippuband hér heima svona til að redda mér þegar grasekkjumánuðirnir mæta á svæðið, strákarnir fá alltaf pínu hláturskast þegar mamman blastar tónlistinni í botn og byrjar að hoppa og skoppa á einhverjum palli með tilheyrandi hávaða. 

Það sem mér finnst þó mikilvægast af öllu er að maður hafi gaman af því sem maður er að gera og það á einnig við um hreyfinguna, það er ekkert leiðinlegra en að mæta í tíma eða ætla að gera eitthvað í sínum málum þegar kemur að hreyfingu og finnast það síðan hundleiðinlegt! Ég hef ekki ennþá fundið fyrir því að það sem ég vel mér sé leiðinlegt en ég er algjört kamelljón og finnst gaman að prufa nýja hluti. 

Ég mæli svo sannarlega með því að þú finnir hreyfingu sem er við þitt hæfi, hvort sem það er ganga, hlaup, lyfta lóðum eða eitthvað annað. Ég get ekki beðið eftir því að veðrið batni svo ég komist út að hlaupa með fjórfættu gelgjuna mína.....................jú þá á ég við hundinn!

Friday, April 24, 2015

Rannslan mælir með: SÚPU OG SAFADAGAR

Maginn á mér hefur verið í tómu tjóni í marga mánuði og ég hef ekkert skilið hvers vegna, hef reynt að taka hitt og þetta út úr mataræðinu en það hefur engu máli skipt hvað ég hef gert. Þar til að ég prufaði súpu og safadaga hjá Höllu. Dagarnir voru fjórir og voru alls ekki eins erfiðir og ég bjóst við.

Dagarnir innihéldu safa, súpur, chia grautar voru tvo daga og til þess að það myndi ekki líða yfir mig með fullri vinnu, tvo grísi og leikfimi þá fékk ég mér 2-3 egg á dag ásamt því að borða banana fyrir æfingar. Ég fékk mér einnig smá sykurlaust og mjög gróft hrökkkex með súpunni.

Svona lítur einn dagur út á súpu og safadögum.


Ég fann aldrei fyrir því að ég væri eitthvað svöng, önug eða neitt annað. Mér leið ótrúlega vel og eftir dagana sá ég það út að ég þoli ekki mjólkurvörur, um leið og ég borða eitthvað sem er mjólkurtengt þá fæ ég nístandi sviða í magann og langar helst að liggja fyrir. Akkúrat núna er ég í slíkum aðstæðum en mig langaði alveg agalega mikið í "eðlu" og hún inniheldur rjómaost og ost, hvað er að frétta? Maður virðist aldrei læra.

Ég hef prufað laktósafríu vörurnar frá Örnu eða "arna" og þær fara vel í mig. Ég hef samt sem áður ekki verið að borða mikið af mjólkurvörum undanfarna mánuði en þó hafa nokkrar læðst með yfir daginn og þá er eins og mallinn verði aftur á sjöunda mánuði meðgöngunnar, allur útbelgdur og leiðinlegur.

Það er frábært að taka svona safadaga eða hreinsunar daga og núllstilla meltinguna, mér fannst þetta að minnsta kosti frábært eftir kjöt, köku og súkkulaðiát páskanna.

Safarnir sem eru í uppáhaldi hjá mér eru rauðrófusafinn og græni safinn með hnetum, döðlum, bönunum og fleira góðgæti, namm ég fæ vatn í munninn! Síðan er Chia grauturinn líka guðdómlegur. Þú finnur hjá Höllu á Facebook, mæli svo sannarlega með henni.

Sunday, April 19, 2015

Rannslan mælir með: SKIPULAG

Ef það er eitthvað sem ég hef hlotið meistaragráðu í án þess að sækja neitt námskeið né skóla til að hljóta þá er það að vera skipulögð, ég skipulegg allt út í ystu æsar og það kemur sér afar vel þegar maður þarf að koma tveimur litlum gaurum út en þeir eru mishressir á morgnana, suma daga eru þeir kampakátir en aðra gengur aðeins verr að koma þeim af stað fyrir skólana.

Það sem hefur reynst best á þessu heimili er að vera með allt klappað og klárt daginn (kvöldinu) áður, þá meina ég ALLT. Ekkert hálfkák hér takk fyrir túkall!

Föt strákanna klár, skólataska Friðriks, taskan mín og íþróttafötin hans Friðriks.


Ég finn föt fyrir þá kvöldinu áður og tek mið af því hvað þeir eru að fara að gera daginn eftir, Stefán er nánast alltaf í einhverju ofur þægilegu enda fátt verra en að vera í fötum sem hefta mann þegar maður er fjögurra ára skopparabolti sem leikur sér allan daginn.
Á morgun er fótboltaæfing hjá Friðriki Franz og þá fer hann í fótboltabuxum og bol í skólann, sundfötin hans eru líka klár ásamt takkaskónum í töskunni.

Það dugar ekkert minna en stór innkaupapoki fyrir útifötin.


Á mánudegi þarf leikskólataskan að vera tilbúin með öllum útifötunum hans Stefán en á Íslandi er jú ennþá allra veðra von og taskan inniheldur meðal annars kuldagalla, vindbuxur, pollabuxur, hlýja peysu og annað sem þarf til að líða vel og verða ekki kalt í útiveru.

Nestið tilbúið fyrir vinnuna.

Ég nesta mig upp fyrir hvern dag í vinnunni, ég prufaði fjóra daga í súpu og safadögum hjá Höllu í síðustu viku og komst að því að meltingin varð allt allt önnur eftir þá daga, mjólkurvörur eru að fara mjög illa í mig og því hef ég hægt og rólega minnkað þær í mataræðinu. Egg, ávextir og safi verða í nesti á morgun en ég borða hádegismat í skólanum.

Við höfum alltaf sömu rútínuna á hverjum virkum morgni hér á bæ, vakna, borða morgunmat, klæða sig, bursta tennur, útiföt og út í bíl með gengið.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum óskipulögðum að skipuleggja morgnana hjá sér, ég lofa-dagurinn verður bara allt annar!!

Saturday, April 18, 2015

Rannslan mælir með- ANDLITIÐ

Ég er ótrúlega dugleg að prufa ýmislegt þegar kemur að snyrtivörum og ýmsu öðru, ég ákvað því að reyna að vera duglegri að deila því með ykkur elskurnar mínar en mér finnst fátt skemmtilegra en að skoða síður sem mæla með einhverju, reyndar er ég að kaupa mitt stöff sjálf, fæ það ekki gefins þannig að ég get lofað ykkur því að ég er alveg 100% hreinskilin.

Húðin mín í andlitinu er búin að vera í tómu tjóni undanfarnar vikur og ég skrapp því í Lyfju hér í Grindavík til að tékka hvað væri þar í boði. Mig sárvantaði eitthvað til að hreinsa andlitið-daglega, ekki eitthvað sem ég gæti bara notað einu sinni eða tvisvar í viku. Ég mála mig dags daglega fyrir vinnuna, mismikið þó en ég finn það alveg hvað húðin fær að finna fyrir því að vera förðuð á hverjum degi, þó ég sé bara með létt BB krem.



Visibly Clear Pink Grapefruit Daily Scrub frá Neutrogena er málið get ég sagt ykkur, ég þvæ húðina mína með skrúbbnum að minnsta kosti einu sinni á dag, stundum tvisvar en það má samkvæmt umbúðunum og þvílíkur munur! Húðin er ekki 100% laus við bólur en mun betri heldur en hún var.

Fílapenslarnir hafa minnkað mikið og húðin er opnari og öll mun betri viðkomu en hún var áður. Ef þig vantar eitthvað gott fyrir andlitið til að hreinsa það, þá mæli ég hiklaust með þessari vöru!

Saturday, April 4, 2015

Hvað er til ráða með aulann mig?

Ég man ennþá hvernig mér leið eftir jólin, ég hef aldrei á minni þrjátíu ára ævi borðað jafn mikið og þá í jólafríinu, þá var ég nýskriðin upp úr lungnabólgu og batteríin voru búin. Núna er sama sagan, fyrir utan það að ég er ekki nýbúin að vera með lungnabólgu en í staðinn kom þetta blessaða hjartavesen-kræst það er alltaf eitthvað!

Núna borða ég eins og enginn sé morgundagurinn, fjandans páskaegg, ég er sykurfíkill af verstu gerð, maginn minn er alltaf eins og ég sé kominn nokkra mánuði á leið og ég veit að það er mataræðinu að kenna, ég spái alls ekki nógu mikið í það hvað ég er að setja ofan í mig, finnst svona kúrar og annað bara vesen, eiginlega of flókið.

Ég á það til að "springa" eftir 2-3 vikur þegar ég byrja að rífa mig í gang í sambandi við hollustu og annað, get ekki hætt að borða sætabrauð, sælgæti og lakkrísinn, ég ætla ekki einu sinni að byrja á honum.

Mig vantar eitthvað solid, eitthvað stöff sem virkar fyrir mig, veit bara ekki við hvern ég á að tala eða hvað ég á að gera, ég borða of lítið yfir daginn, hef uppgötvað það á MyFitnesspal og er eiginlega alltaf þreytt og oftar en ekki er nennan í lágmarki, keyri mig áfram á þrjóskunni.

Hvað með ykkur, hafið þið upplifað svona og hvað gerðuð þið til að laga ástandið?

Frúin í sínu fínasta pússi fyrir átveislur gærdagsins.



Thursday, April 2, 2015

Þegar líkaminn segir hingað og ekki lengra!

Ég er ein af þeim sem er annálaður partýpinni, félagsvera af verstu gerð og finnst fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi, gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni, stunda líkamsrækt af kappi, sinna vinnunni minni vel og svo margt margt fleira.

Þegar það er nóg að gera hjá manni, kannski of mikið á köflum þá gefur eitthvað eftir, í mínu tilfelli var það hjartað sem sagði hingað og ekki lengra! CRAP hugsaði ég, pabbi nýskriðinn saman eftir hjáveituaðgerð og þarf litla stelpan núna að vera með eitthvað fjandans vesen, já mér finnst þetta vesen og ekkert annað takk fyrir pent-það er nett klikkun!

Ég hef verið með ofurpúls eins og ég kýs að kalla það í mörg mörg ár, fæ reglulega of hraðan hjartslátt í hvaða aðstæðum sem er og já hvenær sem er. Fyrir um viku síðan er ég að puða og púla í pallaleikfimi og er nýkomin af pallinum þegar ég leggst niður til að gera magaæfingar og þá bara BÚMM, hjartað á milljón og ég lá róleg, andaði djúpt og beið eftir að hjartað myndi róa sig niður.

Hjartað hægir yfirleitt á sér eftir nokkrar mínútur, hef aldrei upplifað þetta lengur en í fimm mínútur, fyrr en í síðustu viku. Þá var hjartað á fullu í 200+ slögum á mínútu í meira en tuttugu mínútur og ég beið og beið og beið eftir að það myndi hægja á sér, ekkert gerðist og Arna súpergörl hringdi á sjúkrabíl og svo í Gumma og brunað var til Keflavíkur í tékk. Lítið sem ekkert kom út úr því og ég var aum, þreytt og með verki í bringunni daginn eftir.

Ég hafði engan kraft í líkamanum, átti erfitt með að draga andann djúpt og svimaði við minnstu hreyfingar. Þá var mér hætt að lítast á blikuna og þá brunaði Gummi með mig inn á Hjartagátt en við rötuðum nú alveg þangað eftir að pabbi lá þar inni.

Blóðprufur voru teknar, hjartalínurit og fleira. Að lokum kom læknirinn til mín og miðað við lýsingarnar er ég með aukarafskaut við hjartað sem er víst mjög algengt hjá ungum konum, þetta böggar suma ekki neitt, aðra mikið. Í mínu tilfelli er þetta farið að gerast mjög reglulega núna og "kastið" var svo langt síðast að næsta skref er hjartaómskoðun og línurit í sólahring, svo verður maður bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman.

Ég er alveg pollróleg yfir þessu enda lítið hægt að gera nema að taka því rólega og slaka á en líkaminn minn var kominn á endastöð hvað varðar úthald og orku. Hef verið að vesenast í hinu og þessu undanfarnar vikur og haft býsna mikið að gera, enda er það þannig sem ég vil hafa það en öllu má ofgera og það kom í ljós í síðustu viku.

Síðustu átta daga hef ég nánast verið að bora í nefið að mínu mati, ég kann þetta alls ekki, kann eiginlega ekki heldur við þetta að slaka svona á! Jiminn eini, ég þrái að fara í ræktina, Metabolic og þeytast út um allt núna. En ætla að hlýða læknum og fólkinu í kringum mig og slaka á, njóta þess að borða góðan mat í páskafríinu, sofa-hef gert mikið af því undanfarið (Já Gummi meira en vanalega)!! Og njóta þess að vera með ungunum mínum sem eru agalega ánægðir með það að vera komnir í páskafrí!

Gleðilega páska sykurpúðar og njótið þeirra með þeim sem ykkur þykir vænt um, það ætla ég að minnsta kosti að gera, kossar og knús!