Thursday, July 31, 2014

Blessað baðherbergið-flísarnar farnar

Þessar flísar-KRÆST!! Ég hef sjaldan orðið jafn mikið pirruð á einhverju og þessum flísum, sumar duttu strax af við það eitt að anda á þær á meðan að ég hefði þurft að vera með höggbor, terpentínu og jafnvel smá TNT sprengiefni til þess að losa aðrar frá veggnum! Næst tekur við að pússa og sparsla en þetta verkefni er eilítið flóknara og meiri vinna en ég bjóst við í upphafi, kannski sem betur fer-hefði aldrei lagt í þetta ef ég hefði fattað hversu viðbjóðslega mikið ryk kemur frá þessu öllu saman. Þetta er ekkert smá ryk heldur svona hveitiryk eða þið skiljið, það smeygir sér út um ALLT!

Svona lítur baðherbergið út núna, klósettsetan fékk vörn frá handklæði enda er salernið og setan spánýtt eða svo


Ég kom með tárin í augunum til eiginmannsins í gær og bað hann að hjálpa mér að taka restina f þessum pikkföstu flísum og þegar ég leit inn á bað til hans þá voru nokkrar blóðslettur eða klessur hér og það, já það er ekkert grín að rífa þetta af! Þegar Gumminn var kominn með nóg ákvað ég að klára afganginn af flísunum sem fór ekki betur en svo að þegar að sirka tíu flísar voru eftir þá steig ég vitlaust á baðkarið (sem ég stóð á), reyndi að grípa vegginn-gáfuð.....og hlunkaðist ofan í baðkarið en náði þó að reka mjöðmina í kranann í baðinu og er aum og marinn þar.

Stubbaflísarnar og bleiku neglurnar


Næst á dagskrá er fjarlægja vaskinn og litla skápinn en þar á bakvið leynast fleiri flísar-jiminn eini! Þetta hefði allt gerst í gær ef að stoppkrani eða hvað það nú heitir hefði verið til staðar, pípulagningavitið er ekki meira í okkur hjónum en það.

Þið kannski sjáið hvar var auðvelt að taka flísarnar af og hvar það var ekki auðvelt að taka þær af


En jæja þið fáið frekari fréttir af framkvæmdunum síðar, já og eiginmaðurinn ákvað að skella þvottarhúsinu í smá yfirhalningu í leiðinni og núna er ég komin með þetta glæsilega vinnuborð og nýjan krana, þessi elska, hann kannitta!

Baugótt, með rispur á olnboganum eftir fall gærdagsins og bleikar gelneglur!

Sunday, July 27, 2014

Baðherbergið tekið í gegn

Ó þegar mér dettur eitthvað í hug þá þarf það að gerast núna, strax, helst á einni sekúndu takk fyrir. Höfuðið snýst í skrilljón hringi og áður en ég veit af þá er helmingurinn af flísunum í stórri hrúgu á baðherbergisgólfinu......eiginmaðurinn gekk inn á bað, leit á mig, hristi höfuðið og gekk út-smiðurinn þið skiljið!

Eftir að allar flísarnar sem duttu af við að anda á þær voru farnar niður ásamt ónýtum ljósakappa, speglinum og skápunum sem ég kom varla naglaþjöl inn í vegna þess að þeir voru svo litlir leit maðurinn minn loksins á mig og spurði, "og hvað nú??" Shit ég veit það ekki eða jú þú skilur ég ætla að mála og málið er dautt.

Ekki rétt, því þegar eiginmaðurinn spurði hvort ég vildi ekki setja nýjan vask inn á baðherbergi fór höfuðið aftur á yfirsnúning, já já já!! það tókst! smiðurinn er kominn í gang! Engan asa vinan, þetta var ekki alveg svo gott-til að byrja með.

Ohhh þetta baðherbergi sko, mikið hlakka ég til að losna við þessar flísar!

Á þessum "bjarta" og ekki riginingarlausa sunnudegi dreg ég elskuna í Ikea þar sem að hann smellti upp gamefésinu ÁÐUR en við gengum þar inn, þar var hver krókur og kimi skoðaður og pælt og spjallað-án þess að einhver lunti eða trunti mætti á svæðið, ókey núna lýg ég það var alveg hækkaður málrómurinn nokkrum sinnum og svona.

Við fundum skáp í Ikea en leist ekki á vaskana eða annað þar þannig að við brunuðum í Bauhaus þar sem að verðið er lygilegt, ég er að segja það krakkar LYGILEGT!! Vel þess virði að gera sér ferð þangað ef manni vantar eitthvað svona égeraðbreytatil dótarí.

Næsta verk er að taka restina af flísunum niður, mála og fiffa smá til, breyta skáp og fleira, jii ég ískra inn í mér úr spennu, loksins fæ ég aðeins fallegra baðherbergi sem gestir í dirtý thirtý geta skvett úr sér og skolað hendur, jafnvel speglað sig í leiðinni, já og það koma líka myndir-svona þegar allt er orðið klárt að hætti meyjunnar!

Sunday, July 20, 2014

Að breyta hugarfarinu eða mataræðinu?

Samband mitt við mat þessa dagana er ekki alveg það besta, eina sem ég hugsa um er að líkaminn fái bensín-alveg sama í hvaða formi það er, helst í sykurformi, súkkulaði, eða orkudrykkjarformi, sveittir hammarar, pítsur og mikið af kolvetnum eru mínir bestu vinir þessa stundina.

Erum við ekki öll AWESOME??

Það hlýtur að breytast því að ég er komin á dag og kvöldvaktir í vinnunni sem þýðir að ég þarf ekki að vakna eldsnemma á morgnana og kem þannig líkamsklukkunni á réttan snúning, það er alveg magnað hvað ég hef verið slöpp í hreyfingu og hollu mataræði þetta sumarið en ég vil líka meina að þetta sé veðrið-kroppurinn er bara að búa sig undir vetur, eða heldur að það sé vetur? Ég vil að minnsta kosti meina það, já ég skálda allt til að sannfæra sjálfa mig um að þetta sé ekki ég heldur eitthvað utanaðkomandi eins og veðrið, kennum því um allt sem fer miður þetta sumarið, það er bara ágætt!

Ég fékk meira að segja komment um það um daginn í vinnunni að kjóllinn sem ég er í væri orðinn aðeins þrengri en síðast en það var ennþá sami kjóllinn og ég byrjaði að vinna í-ekki annar þrengri! Obbosí!! Margir hrista hausinn yfir þessu en maður finnur sjálfur kroppinn sinn breytast og hluti færast til (stækka) þó að aðrir sjái það ekki-kannski tek ég upp á því að fasta tvo daga í viku, sjáum hvað setur-ég þarf að minnsta kosti að gera eitthvað í þessu áður en að sykurbólunum fjölgar í smettinu! 

Já og hugarfarið, þarf að breyta því, sykurpúkinn þarf að fá hvíld og hreinna mataræði þarf að mæta á svæðið.........

Friday, July 18, 2014

Rassinn á Kim Kardashian fer bráðum að heimta sitt eigið póstnúmer!

Ég er raunveruleikaþáttafíkill, það er eiginlega hlægilegt hvað ég veit mikið og fræga fólkið og líf þess á meðan ég veit minna um ýmislegt annað en maður þarf nú að vera sérfræðingur í einhverju-er haggi?

Kim Kardashian er ein af þeim sem ég hef fylgst mikið með og veit ýmislegt um hana, hún er reyndar orðin snobbhæna dauðans eftir frægðina-hvaða frægð samt sem áður spyr maður? Eitt stykki "sex tape" og leikinn raunveruleikaþáttur. Kjellan fær ógrynni af peningum borgað fyrir að mæta á einhverja viðburði og segja hæ, ásamt því að gratis fatnaður og ýmislegt annað fylgir frægðinni.

Kanye er reyndar þekktari en Kim-eða hvað? Hann hefur allavega unnið fyrir sínu með tónlistinni og hatar þennan blessaða þátt hennar Kim, neitar að koma fram í honum og harðneitar að láta North litlu koma í mynd. Hann gaf þó undan og E! sjónvarpstöðin fékk að mynda brúðkaupið þeirra-peningarnir þið skiljið, all about the money money!

Kim finnst ekki leiðinlegt að sýna á sér bossann og er víst með sér saumamanneskju on call 24/7 til að laga buxur og fatnað, því það segir sig eiginlega sjálft að bossinn hennar kemst ekki fyrir í öllum fatnaði! Kim kaupir stór númer og lætur síðan minnka flíkurnar í kringum rassinn-jahér!

Hér eru nokkrar bossalegar myndir af Kim-teknar af henni sjálfri eða papparössunum!











Wednesday, July 16, 2014

Hin óendanlega sjálfsgagnrýni með dassi af fullkomnunaráráttu

Allt í lagi þegar ég skrifa með "dassi" þá lýg ég, ég er svo sannarlega meyja sem verður að hafa allt tip top og upp á tíu, frídagurinn í dag fór meðal annars í það að þrífa heimilið þar sem að meyjunni þótti ástandið vera orðið óíbúðarhæft-sem það var að sjálfsögðu ekki en hey, þrifin friðuðu samviskuna, kræst samviskuna yfir því að hér búa fjórar manneskjur og einn ferfætlingur.........

Samviskan nagar mig líka því mér finnst ég alltaf vera að vinna eða alltaf frá, ef ég er ekki að vinna þá er ég að vinna upp svefn eða hreyfingarleysi, knúsa síðan og kyssi kallana mína í drasl inn á milli, sá yngsti er ekkert rosalega hrifinn af öllu þessu knúsi og kjamsi en hann er ansi auðvelt skotmark þar sem að við eyðum miklum tíma tvö saman, hann ýtir mér bara frá og þurrkar kossafarið af kinninni og biður mig vinsamlega að fara fram-Ipadinn er miklu skemmtilegri en mamma sem er ofurknúsari!

Ég veit ekki hvort það er sólarleysinu að kenna eða svefnleysi að ég er í stöðugri gagnrýni við sjálfa mig, einhvern veginn finnst mér ekkert vera nógu gott sem ég geri og hausinn er á stöðugu hringsóli, gleðin er þó oft við völd og við tökum oft léttan afstress dans við mæðgin hér heimafyrir og ef ég myndi ekki vinna með öllum þessum gleðipinnum þá væri vinnan ekki eins skemmtileg, eiginmaðurinn er alltaf jafn þolinmóður en við höfum ekki átt deitstund saman í langan tíma en Bryan Adams ætlar að redda því og er mikil tilhlökkun fyrir þeim tónleikum!

Mikið agalega hlakka ég samt til þegar þessu sumri lýkur og nýjir og spennandi tímar taka við, ég er hrikalega spennt fyrir nýju vinnunni, ameríkuferðinni í september og ferð til þýskalands er í kortunum líka. Elsku Gummi minn er kominn með fastráðningu á frystitogara þannig að grasekkjulífið hefst aftur í haust en við erum öllu vön og hlökkum til að takast á við áskoranir næsta árs. Skólinn klárast einnig hjá mér næsta vor og mikið verður nú gott að halda á BA gráðunni, þá verð ég stolt af sjálfri mér og mun ekkert rífa mig niður......

En af hverju í fjandanum bý ég ekki fyrir austan núna? Þar er sko sumarið og glaðir kroppar sem sóla sig daglega, hér er bara rigning og drukknandi gróður, ég þrái sól, D vítamín og Pollýanna er löngu komin í frí, það er bara ekki hægt að vera endalaust jákvæður þegar veðrið er ekki að gera góða hluti-þið jákvæðnispinnar verðið bara að fyrirgefa mér.....

Læt nokkrar instagram myndir fylgja með í þetta sinn, endilega fylgið mér á www.instagram.com/rannveigjonina

Þarna var frúin þreytt en dreif sig samt í 90 mín. spinningtíma!

Sigga sæta er ofurkona og spinningtímarnir hennar eru ÆÐI!

Fallegi Friðrik Franz minn er afar einbeittur hér að horfa á golfþátt, hann á eftir að ná langt á því sviði-ég finn það á mér!

Frúin fór í útskriftarveislu, þá var sko tilefni fyrir eins selfie!

Önnur selfie, þarna nennti ég ekki í ræktina og var klædd eins og jólatré-skrautlegur fatnaður er möst í rigningunni!

The ultimate selfie-hárið komið í rugl og allt en það er bara gaman!

Stebbinn er mjög alvarlegur og duddan, við skulum ekkert ræða það mál hérna....

Mágkonur mættar á puttanum fyrir vinnu, nei bara grín!

Sætu strákarnir mínir-þarna var róleg stund aldrei slíku vant.....



Wednesday, July 9, 2014

Amino Energy Kanínan

Þið kannist öll við Duracell kanínuna, hún stoppar aldrei, já ég er einmitt þannig þessa dagana í vinnunni, hvers vegna? Jú Amino Energy bjargar deginum, kaffið hjálpar einnig stundum til en Amínóið mæ ó mæ, þvílíkur orkugjafi!

Svei mér þá krafturinn í þessu, ég viðurkenni það þó alveg að ég reyni að slaka á því þegar ég er í vaktarfríi eða reyni það ekki heldur hvíli mig á því.
Bentu á þann sem að þér þykir bestur

Amino bjargaði mér í gegnum prófin í vor og ég er alltaf að prufa nýtt bragð, melónu er núna uppáhalds, grapefruit er í pásu þar sem að ég ofgerði því-já ég á það til að taka "túra" þegar kemur að því að bragða einhverjar nýjungar.....þið skiljið, ýkta gellan.

Amino orkan er að leka úr mér akkúrat núna, ræs kl 03:50 en dunkurinn og brúsinn eru einmitt klár í veskinu fyrir morgundaginn.......

Tuesday, July 8, 2014

Naktir, stæltir og fallegir íþróttakroppar!

Ég bíð alltaf spennt eftir "The Body Issue" frá ESPN en þar eru frægar íþróttastjörnur fengnar til þess að sýna listir sínar á íþróttasviðinu án klæða. Það er óhætt að segja að erfiði þeirra innan sem utan íþróttar sinnar skili sér enda eru flestir þessir kroppar stæltir og nánast lýtalausir.

Það er augljóst að þetta íþróttafólk hugsar vel um kroppinn en það sem mér finnst einna fyndnast er brókarfarið hjá nokkrum karlmönnum þarna, jiminn eini þvílíkir kroppar! Ég læt nokkrar myndir fylgja með en fleiri myndir er einnig hægt að skoða HÉR.


















Monday, July 7, 2014

Tíu hlutir sem allar mömmur ættu að vita! (fyndið stöff)

Já ég skrifaði fyndið stöff, ég er eiginlega í kasti yfir þessu krakkarassgati á myndbandinu hér fyrir neðan. Hann heitir Kid President á Youtube, er hrikalega fyndinn og er eins og fullorðinn einstaklingur í krakkakropp!

Mömmur eiga samkvæmt honum að þrífa minna, dansa meira og hætta þessu símaveseni alltaf hreint! Heimurinn er frábær því að mömmur eru til, þar hafið þið það.

                                          Skoðið þetta myndband hér fyrir neðan.


Einu sinni var........gymmið, hlaup og gamlir tímar

Ó elsku sól vertu velkomin, þó það sé ekki nema í nokkra klukkutíma, við Marri vorum að klára útihlaup í sólinni, reyndar var ansi mikill mótvindur aðra leiðina og ég táraðist eins og enginn væri morgundagurinn en við látum það sko ekki á okkur fá eftir að hafa tekið útihlaup í alls konar veðri. Marri var reyndar eitthvað forvitinn og ætlaði að fara út á Grindavíkurveg og ég trylltist, kallaði (argaði) á hann og minn maður kom skömmustulegur til baka og fór beint í ólina, meiri forvitnin í þessum ferfætling alltaf hreint!
Marri, Rannveig, pallurinn og sól-eintóm gleði!

Helgin einkenndist af vinnu og ræktinni. Ég ákvað að keyra þetta í gang aftur og byrja að hreyfa mig aftur enda komin með leið á því að vera alltaf þreytt og eins og undin tuska vegna óhollustu og lítið af hreyfingu. Á föstudaginn ákvað ég að byrja loksins á nýja lyftingarprógraminu og laugardagurinn var HELL, leg day fyrsta dag helgarvaktar er ekki það gáfulegasta, fór reyndar í 90 mín spinning á laugardeginum til að reyna að hrista þetta úr mér en sunnudagurinn var bara verri fyrir vikið, það er fyrst núna sem ég finn að harðsperrurnar eru að hverfa, hlakka mikið til að taka efri líkamann, get örugglega ekki borðað eftir þann dag.....

LEG DAY, jiminn einn og einasti! Og speglaselfie-nauðsyn í ræktinni.
Ég elska að sýna fólki gamlar myndir af mér eftir meðgöngu, ég kíkji líka alltaf reglulega á þær til þess að minna mig á að dugnaður fleytir manni langa leið, endorfínflóðið er um allt í kroppnum á mér núna eftir útihlaupið og það er gott að finna fyrir þeirri tilfinningu og líða vel, ég persónulega verð að minnsta kosti afar þung og grumpy þegar ég kemst út að hlaupa eða í ræktina.
Á vinsti myndinni fannst mér ég vera sjúklega flott-hæææææ undirhaka!
Dirty thirty nálgast er handan við hornið og ég held að ég sé að sætta mig við þetta smám saman að vera ekki lengur tuttuguogeitthvað! *dæs*. Er maður ekki bara jafn gamall (gömul) og manni líður? Mér líður að minnsta kosti ekki eins og ég sé að verða þrítug, er ennþá sautján ára idjot inn við beinið-en samt aðeins gáfaðri en ég var þá og farin að meta lífið og tilveruna mun betur.
Alsæl lengst til hægri daginn fyrir hálfmaraþon fyrir tveimur árum síðan!
Vonum bara að þessi veðurblíða sé komin til að vera það sem eftir er af sumrinu, það þarf voða lítið til að gleðja mann, bara minni eða engin rigning og málið er dautt!
Hlaupafélagarnir búnir á því!

Thursday, July 3, 2014

Victoria Beckham, stuttbuxur, stígvél og Vogue

Ég er með eitthvað blæti þegar kemur að Beckham hjónunum, David í gær og Victoria í dag.
Þeir sem misstu af heimildarmyndinni með Beckham í gær á RÚV ættu að kíkja á hana, magnað hvað frægðin gerir fólk einangrað eins og David sagði, hann kynnist voða lítið af nýju fólki og fannst æðislegt að komast á meðal frumbyggja þar sem enginn þekkti hann og hann þurfti meira að segja að útskýra hvernig fótbolti gengur fyrir sig-í fyrsta sinn á ævinni!

En að Victoriu, tímaritið Vogue elskar hana, hún hefur prýtt nokkrar forsíður þar á bæ og er meðal annars forsíðustúlka ágústmánaðar.

Myndirnar af henni eru nokkuð flottar, búið er að birta þrjár en þar heldur hún meðal annars á hundi og á einni myndinni er hún í stígvélum og stuttbuxum en það var ljósmyndarinn Patrick Demarchelier sem tók myndirnar af Queen V.

Victoria er smart kona að mínu mati, frekar horuð en tískuheimurinn virðist krefjast þess að konur séu helst í stærð "zero" ef það er nú til, það er örugglega líka fjandi mikið álag á kjellu, fjögur börn, heitur eiginmaður og tískufyrirtæki, æji ég þarf bara að koma mér í ræktina aftur en mun aldrei verða eins og Victoria, mér fannst hún líka sjúklega sæt á sínum Spice Girls árum þegar hún var með smá utan á sér.

Hér að neðan eru myndir af Victoriu úr Vogue, fyrstu þrjár eru úr nýjasta tímaritinu og hinar eru eldri, myndirnar af henni og David eru ótrúlega flottar, æji þau eru eitthvað svo sæt saman....