Frúin er annálað naglalakkafrík, ég man ekki eftir því hvenær það leið mánuður án þess að ég keypti mér naglalakk, já þetta er eiginlega vandamál. Hæ ég heiti Rannveig og ég er naglalakkafíkill!
Þetta þýðir að sjálfsögðu að ég á allnokkrar tegundir af lökkum og í mjög mörgum litum, hugsa að ég gæti verið með nýtt lakk á hverjum degi í nokkrar vikur-obbosí.
En að lakkinu sem ég ætla að fara að dásama hérna. Mér finnst lökkin sem ég set á mig endast nákvæmlega ekki neitt, þau kroppast af, smita frá sér ef maður rekst í eitthvað og svo framvegis. Hefur fríkið fjárfest í top coat? Nei ekki fyrr en nýlega, hvað er annars að frétta með það?
L´oréal naglalökkin hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér því það er hægt að kaupa þau í litlum glösum, það finnst mér æði ef ég fíla ekki litinn, ja og líka ef ég fíla litinn. Lökkin eru ekkert svo dýr og pensillinn er flatur þannig að það er auðvelt að lakka neglurnar á mettíma.
Nýjasta viðbótin í safnið er tvöfalda lakkið frá þeim. Snilldargræja! Ég keypti mér tímalausanl lit sem er númer 002 og heitir Gris Éternel. Hann er grár og svo fallegur og akkúrat í stíl við hárið mitt núna sem er orðið ansi grátt og ég er að fílaða.
Það sem ég gerði var að lakka eina umferð, ath já EINA umferð af lakkinu, smellti síðan yfirlakkinu á og voíla, neglurnar voru klárar. Lakkið þornar fljótt og þekur vel.
Í dag er laugardagur en myndirnar eru einmitt teknar í dag og ég lakkaði mig á þriðjudaginn! Það sér ekki á lakkinu, það hefur ekki smitað út frá sér, flagnað af eða neitt slíkt.
Ég keypti lakkið mitt í Lyfju, það fæst pottþétt líka í Hagkaup og á fleiri flottum stöðum. Mæli svo sannarlega með þessu lakki.
No comments:
Post a Comment