Mér fannst dásamlegt að sjá um daginn mynd af bræðrum sem höfðu verið að rífast og stríða hvor öðrum allan daginn og mamman var búin að fá nóg og setti því texta undir brosmildu myndina af drengjunum sínum þar sem að kom fram að þessi mynd var algörlega sviðsett af þeirra hálfu en þá voru bara nokkrar sekúndur frá því að þeir höfðu verið að pikka og pota í hvorn annan. Hver kannast ekki við svona daga þegar krakkarnir eiga í hlut. Jiminn eini, suma morgna er ég bara fegin að komast með mína drengi í heilu lagi í skólana!
Ég fylgi allskonar fólki á Instagram og sæki stundum innblástur þangað en stundum verður mér nóg boðið þegar kroppamyndirnar eru annars vegar en ég held að það séu öfgar í mörgu sem við gerum og mér finnst ég stundum vera alveg pínulítið peð í þessum heimi þegar ég skoða þessar myndir því mér finnst ég svo ómerkileg, er einhver grasekkja suður með sjó sem er með tussubumbuna í yfirstærð!
Allir eru skælbrosandi, með spariduckfésið, kreppta og stælta vöðva, fullkomið hár, skjannahvítar tennur og förðunin er upp á tíu. En það sem mig langar að vita er hvernig er lífið bakvið tjöldin? Er það bara dans á rósum, sykurpúðar og kandý floss?
Æji ég veit ekki, örugglega ekki en fyrir Gunnu út í bæ (eða eina litla Rönnslu) virðist svo vera. Ég er farin að líta á ýmsa hluti með miklu gagnrýnni hug núna en ég gerði áður og svei mér þá það er enginn fullkominn. Þannig erum við bara, við berum ýmsar byrðar á baki okkar en hey ef þú þekkir einhverja sem eiga hið fullkomna líf, þá bara jibbíkóla-þvílíkur lottóvinningur.
Að sjálfsögðu má hverjum og einum finnast sitt líf vera fullkomið og dásamlegt, mitt er það svo sannarlega ekki en er það gott? Já ég held það bara? Er ég hamingjusöm? Já. Ég held að hamingjan skipti miklu meira máli heldur en eitthvað sem er fullkomið, vissulega væri ég til í að vera með aðeins tónaðri líkama, jafnvel eiga bílskúr við húsið mitt, eiga nokkrar krónur í viðbót inn á bankabók og vera með aðeins meiri sjálfsaga þessa stundina. En ég held samt sem áður að ég sé bara nokkuð sátt við það sem ég á og hef, ég er ekki að leita að fullkomnun-langt því frá. Ég er eins og ég er og nýt þess með köllunum mínum.
Knús í hús. x
No comments:
Post a Comment