Saturday, January 24, 2015

Engin drykkja, hress sem fress daginn eftir!

Það reyndi á "ég er hætt að drekka" áramótaheitið mitt, Gumminn skilur reyndar ekkert í þessu en þegar frú Rannveig er búin að bíta eitthvað í sig þá heldur hún sig við það. Mamma og pabbi buðu í smá þorrablót í gær og Rannslan drakk ekki dropa af áfengi þó svo að það væri alveg meira en nóg til. Það var líka bara ferlega í gær, skemmtilegur félagsskapur og gott að borða, vatnið bragðaðist heldur ekkert neitt illa.

Heimkoma var um hálfeitt og þá var farið beint að sofa, strákarnir voru meira að segja í næturpössun hjá tengdaforeldrum mínum þar sem þeir voru í sannkölluðu dekri (eða er það kannski mamman sem var dekruð í þessu tilfeli???)

Ég náði um níu tíma svefni og svaf eins og steinn, mikið agalega var nú gott að vakna hress, engin þynnka eða neitt vesen. Ég var meira að segja svo fersk að ég fékk mér hollan og góðan morgunmat, skúraði og ryksugaði allt húsið og fór síðan í magnaðan pallatíma þar sem að 700 kaloríur fuku!

Málið er nefnilega þannig að ef ég fæ mér smá að drekka (kannski bara eitt eða tvö glös) þá er dagurinn eftir eiginlega bara ónýtur. Ég var ekki svona, er þetta aldurinn? Veit ekki, finnst ég þola áfengi mun verr eftir að ég átti Stebbann og ég hreinlega nenni ekki að eyða heilum degi í að jafna mig eftir smá stuð-það er bara ekki þess virði.

Tíminn minn er dýrmætur, hvort sem það er með sjálfri mér, eiginmanninum eða börnunum. Hvers vegna að skemma þennan tíma með slöppum degi þegar maður getur sleppt því. Rannslan er líka þekkt fyrir það að vera mjög róleg týpa-eða þannig, get sko vel skemmt mér án þess að hafa áfengi við hönd. Það er líka gaman!

Knús í hús XO.

No comments:

Post a Comment