Saturday, January 11, 2014

Helgarlíf grasekkjunnar

Að búa hálfpartinn "úti á landi" já ég segi hálfpartinn því Grindavík er nú ekki nema í 30 mín. frá höfuðborginni er ekkert sérlega spes um helgar með tvo litla gutta því framboðið af afþreyingu fyrir þá er takmarkað. Einnig eru fjögur ár á milli þeirra og áhugamálin alls ekki þau sömu. Vinkona mín sem býr erlendis kom til mín í heimsókn í vikunni og spurði hvað mömmur með lítil börn gerðu til að stytta sér stundir og ég gat eiginlega ekki svarað öðru en göngutúrar, mömmuhittingar og foreldramorgnar í kirkjunni. 

En ef maður ætlar að gera eitthvað innandyra eða hafa smá fjölbreytileika í tilverunni þá þarf maður að fara út fyrir litla bæinn sinn, sem kostar tíma, pening og jafnvel smá vesen.

Það versta við grasekkjulífið er að besti vinur manns sem maður talar við um allt og ekkert er ekki heima og maður finnur alveg að molarnir sakna pabba síns þegar hann er á sjó, núna er ég alls ekki að kvarta enda er þetta okkar val en ég hugsa að flestar sjómannskonur, grasekkjur eða aðrar konur sem búa í fjarbúð með börn fatta alveg hvað ég er að fara.

Suma daga langar mig einfaldlega að búa í borginni á meðan ég get ekki hugsað mér það aðra daga en eitt er víst að fjölbreytnin er þar en fjölskyldan er hér.

Stebbinn er í lögn núna, seinnipartslögn sem er alveg dásamlegt, já eða ekki, síðan bíður Stjórnarskrá Lýðveldisins eftir mér fyrir tíma á mánudaginn í skólanum. Spennandi kvöld framundan og ég vona að þið njótið helgarinnar.

No comments:

Post a Comment