Tuesday, November 4, 2014

Að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur




Ég er stundum óttalega meyr og finnst allt svo dásamlega yndislegt. Suma daga langar mig bara að faðma heiminn og dásama það sem ég á og hef. Ég held að í samfélaginu okkar í dag finnist okkur og jafnvel börnunum okkar sumir hlutir sjálfsagðir, ég hef upplifað það sjálf sem barn og sé að synir mínir eru stundum þannig.

Við hjónin erum nýkomin heim frá Boston og syni mínum fannst það bara alveg sjálfsagt að við keyptum hitt og þetta án þess að blikka auga. Hann fékk ekki allt sem hann bað um (eða það bíður til jóla og afmælis) og ég held að við þurfum að kenna börnunum okkar að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut. Hann var samt sem áður afar glaður með það sem hann fékk og þakkaði okkur kærlega fyrir, þó sérstaklega fyrir Fifa 15 leik í tölvuna sína-hann hefði verið sáttur bara með hann.



Ég er til dæmis ofboðslega þakklát fyrir að eiga fjölskylduna mína að, Gummi minn er yndislegur og stundum skil ég ekki (og örugglega aðrir) hversu lengi hann hefur hangið með mér, komin tæp tólf ár takk fyrir en ég er ekki sú auðveldasta í sambúð held ég en er alltaf að bæta mig og að vinna í sjálfri mér sem ég held að sé reyndar eilífðarverkefni.

Synir mínir eru algjörir gullmolar (þó ég segi sjálf frá) en að fá þá til að vera til og lifa í þessum heimi var þrautin þyngri og oft á tíðum var ég að gefast upp á allt og öllu því það gekk ekkert upp og að eiga börn hvað þá heilbrigð er eitthvað sem ég þakka fyrir á hverjum degi.



Foreldrar mínir hafa alltaf verið mín stoð og stytta og betri eintök er ekki hægt að eiga að sannkallaðir gullmolar. Það sama get ég sagt um tengdaforledra mína en þau eru svo sannarlega dásamleg-hvað þá sem "tengdó" eintök (trúið mér ég hef heyrt ýmsar hryllingssögur sem varða tengdaforeldra). Það er þeim öllum að þakka að Gummi getur stundað sjómennsku og ég fæ aðstoð frá þeim öllum ef eitthvað bjátar á eða mig vantar pössun.




Ég er líka bara þakklát fyrir allt það sem ég á og hef, gæti ekki beðið um meira-fyrir hvað ert þú þakklát/þakklátur fyrir?

No comments:

Post a Comment