Líkaminn minn er ekki ennþá búinn að átta sig á því að hann þarf að vakna annað slagið klukkan 03:50 til að koma sér í vinnu, reyndar höfuðið ekki heldur. Ég er búin að vinna núna á vöktum í einn og hálfan mánuð og ég er ennþá alltaf þreytt, þreytt þegar ég kem heim úr vinnunni og þreytt í vaktarfríunum.
Þrátt fyrir það er vinnan ótrúlega skemmtileg, ég er búin að mastera förðunarrútínuna upp á tíu og er enga stund að smella mér í sparigírinn klukkan fjögur að morgni til en að koma mér í hreyfingu er annað mál.
Mataræðið við skulum ekki ræða það því að kolvetnaskrímslið argar á mig á hverjum degi og heimtar orku, ég fjárfesti í B-vítamíni rétt áðan til þess að athuga hvort það kveiki í mér á einhvern hátt en þetta sukk og svínarí verður að fara að stoppa því ég var komin á svo sjúklega gott ról og í gott form.
Auðvitað veit ég líka að þetta er allt í hausnum á mér en það að vera með heimili, vinnu, börn, eiginmann og margt fleira er að taka sinn toll. Ég finn hvað líkaminn er að "slabbast" niður og ég er ekki með eins mikinn vöðvamassa og ég var með en núna þýðir ekkert annað en að rífa sig í gang og hætta að gangrýna kroppinn eins og hann sé ógeðslegur og ljótur!
Mataræðið skiptir líka gríðarlegu máli og núna þýðir ekkert annað en að keyra það í gang og borða hollt, sælgætisskrímslið er ekki sátt við mig núna en sveiattan, ávextirnir koma í staðinn.
Ég get verið rosalega dugleg að setja út á sjálfa mig og er í raun og veru minn versti óvinur þegar kemur að líkamsvirðingu til mín, ég er aldrei sátt og get sett út á allt sem mér finnst vera að, hvort sem það er keisarskurðurinn, litla bumban fyrir ofan hann, lærin eða bossinn sem fer stækkandi. Æji svona nú, það þýðir ekkert annað en að hætta þessu væli og fá höfuðið til að komast í réttan gír, hreyfa sig og borða hollt, þannig líður mér best, þreytan er án efa líka komin til vegna þess að ég hef ekki verið að borða hollan mat, þetta vinnur allt saman, það held ég nú!
Bráðlega eru breyttir tímar hjá mér en ég get ekki opinberað fréttirnar alveg strax, eftir helgi, já eftir helgina get ég sagt hvað er að fara að gerast hjá okkur, spennandi og krefjandi tímar framundan, látum það duga.
No comments:
Post a Comment