Sunday, June 22, 2014

Er stolt mamma í dag!

Fjölskyldan í Grindavíkurpeysunum frá Jóa útherja-það er möst að vera í stíl á slíku stórmóti!

Það er óhætt að segja að mömmuhjartað sé fullt af stolti í dag en eldri sonurinn varð Norðurálsmeistari B-liða í íslensku deildinni í dag. Strákarnir í liðinu hans spiluðu svo sannarlega með hjartanu og það var magnað að fylgjast með baráttuandanum og samheldninni í hópnum þeirra.

Stoltir sigurvegarar eftir síðasta leik á degi 2

Hver og einn fékk að njóta sín og það var liðsheildin sem skilaði þeim titilinum og eru þeir vel að honum komnir, þeir voru afar stoltir peyjar í dag og að fá að fara upp á svið fyrir framan öll liðin var án efa hápunktur mótsins, þeim leið eins og kvikmyndastjörnum þar sem að það var alltaf verið að smella myndum af þeim og voru þeir svei mér þá orðnir ansi vanir að pósa fyrir framan vélarnar/símana.

Allur hópurinn samankominn með verðlaunin sín ásamt Pálmari þjálfara

Á þessu móti eru margir efnilegir knattspyrnudrengir að stíga sín fyrstu skref í boltanum og það er magnað að fylgjast með þessum litlu kroppum spreyta sig á stóra sviðinu og það eru án efa margir framtíðaratvinnumenn sem spiluðu á Akranesi um helgina.

Gaupi kom og tók viðtal við drengina 

Allur hópurinn frá Grindavík var frábær og stóðu allir sig vel, einnig þeir sem voru að mæta á sitt fyrsta mót en það er fátt eins skemmtilegt eins og að fá að gista í skólastofu í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta, minn maður spurði okkur einmitt fyrra kvöldið hvort við værum nú örugglega ekki að fara að koma okkur heim til Ríkey frænku, ætlaði sko að fá að njóta sín þrátt fyrir að vera svolítill mömmu og pabba kútur.

Ánægður ungur drengur með fyrsta stórmótsbikarinn

Hann Friðrik minn hefur tekið miklum framförum undanfarið ásamt öllum hinum strákunum, hann er grannur og smávaxinn en ég veit að það er hörkukraftur í mínum manni og hann sýndi það og sannaði um helgina þegar hann skoraði þrjú mörk!

Stebbinn var svo sannarlega ekki alltaf í stuði!

Leiðin að þessum árangri hefur svo sannarlega ekki alltaf verið dans á rósum en við foreldrarnir teljum okkur samt sem áður hafa takið réttar ákvarðanir varðandi þennan unga mann og gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að honum líði sem allra best og erum við ásamt öðrum sammála um það að Friðrik er svo sannarlega á réttri leið.

Nýkomnir af stóra sviðinu

Ég vil þakka öllum foreldrum Grindavíkurdrengjanna fyrir samveru helgarinnar, Pálmari þjálfara og Skagamönnum fyrir frábært mót og góða skipulagningu, svona mót verður ekki til á einni nóttu og ÍA menn kunna svo sannarlega að halda svona stórmót fyrir 1260 drengi því skipulagið var 100%

Og til hamingju með Norðurálstitilinn strákar, þið eigið hann svo sannarlega skilið!

No comments:

Post a Comment