Tuesday, July 26, 2016

Fjallið mitt Þorbjörn

Eða Þorbjarnarfell öllu heldur, ég vil þó alltaf segja Þorbjörn, fjall, punktur.

Ég lofaði mér því fyrr í vor að ég ætlaði að vera dugleg að labba upp fjallið okkar Grindvíkinga mikið í sumar og ég hef svo sannarlega staðið við það enda hefur veðrið verið yndislegt í sumar, hlýtt, lítið rok og þó það rigni þá er samt hlýtt og logn!

Fyrir mér er ganga upp fjallið ákveðin hugleiðsla, ég er ein með sjálfri mér og ég nota þessa stund til að hugsa um daginn og veginn og jafnvel að skipuleggja framtíðina. Göngufélaginn minn hann Marri skilur samt ekkert í því hvers vegna ég er alltaf svona lengi upp og niður en þá er ég bara að njóta, vera í augnablikinu og hann passar upp á það að láta mig vita ef honum finnst ég hafa verið stop og lengi.

Það eru margar gönguleiðir upp og niður fjallið og ég hef farið þær allar í sumar nema Þjófagjá, hana á ég eftir að príla og mun gera það áður en sumrinu lýkur. Það er einnig hægt að ganga hringinn í kringum Þorbjörn og það er ansi góð ganga út af fyrir sig. Undanfarið hef ég farið upp veginn og farið niður að framan en það er skemmtileg leið sem tekur aðeins á jafnvægið og annað á niðurleiðinni.

Í dag var dásamlegt veður og ákvað ég að taka myndavélina með í þetta sinn enda var varla ský á lofti og sú gula fylgdi mér og Marra alla leiðina, alveg dásamlegt alveg hreint. Ef þú ert á suðvesturhorninu þá mæli ég með því að þú kíkir í göngutúr upp á Þorbjörn.



























No comments:

Post a Comment