Tuesday, November 1, 2016

"Ég gæti aldrei gert það sem þú gerir"

Þessa setningu heyri ég oft, nokkrum sinnum á ári jafnvel. En hvers vegna? Jú af því að ég er sjómannsfrú og maðurinn minn er heima sex mánuði ársins og hina sex er hann úti á sjó. Ætlaði ég mér að giftast sjómanni? Nei svo sannarlega ekki. Pabbi var skipstjóri í fjöldamörg ár og hét ég sjálfri mér því að ég myndi nú aldrei ná mér í sjómann, sem ég og gerði en maðurinn minn var ekki sjómaður þegar við kynntumst. En lífið er fer ekki alltaf eftir skipulaginu og í dag er ég gift sjómanni.

Gummi fór á sjó núna í október eftir fimm mánuði heima en hann meiddist á öxl og fór í aðgerð. Það gekk ýmislegt á hjá okkur á þessum fimm mánuðum enda erum við ekki vön því að vera límd saman nánast daglega en meiðslin hittu nefnilega upp á sumarfríið mitt og spilaði ég töluvert meira golf en eiginmaðurinn þetta sumarið í fyrsta sinn í okkar sambúð, takk góða veður í sumar!

Það segir það enginn að þetta sé auðvelt, það er ekkert auðvelt að hafa manninn sinn í burtu hálft árið en á móti hef ég hann heima hálft árið. Litlir pottormar sakna þó pabba síns og man ég sjálf enn þann dag í dag eftir þeirri tilfinningu, enda var pabbi sjómaður eins og áður sagði.


Verkfall er yfirvofandi, við skulum vona að það verði ekki langt ef það mun verða. Ég styð sjómenn samt sem áður og réttindabaráttu þeirra enda væri annað fáránlegt. Að sjálfsögðu styð ég minn mann, bróðir minn (sem er með honum á sjó) og alla hina. En á meðan hann er á sjó þá ætla ég að halda okkar rútínu áfram og hlakka til að fá hann í land eftir nokkrar vikur.

No comments:

Post a Comment