Monday, August 1, 2016

Að fá að vera maður sjálfur

Ég er hávær, mjög tilfinningarík en það þarf lítið til þess að ég hreinlega fari að háskæla, létt og væmið Youtube myndband fær mig stundum til að grenja úr mér augun. Ég er skrautleg á köflum, mjög hávær, tala mikið, hreinskilin, get átt það til að blóta eins og versti togarasjómaður en ég er einfaldlega ég.

Mér finnst að maður eigi að fá frelsi til þess að vera maður sjálfur, vissulega veit ég það að það líkar ekki öllum við mig en þannig á það líka að vera, heimurinn er ekki bara sykurpúðar og regnbogar. Ég er þannig gerð að ég gef öllum séns, mér er alveg sama hver þú ert eða hvað hefur verið sagt um þig, ef ég þekki þig ekki neitt þá hef ég engan rétt til þess að dæma þig eða þína persónu.

Keppnisskapið mitt er stórt og ég fagna smáum sigrum eða afrekum eins og ég væri komin í úrslit á EM. Skipulagið er aldrei langt undan hjá mér en samt þrífst ég best í pínu kaosi-vil hafa nóg að gera því ef það er ekki nóg að gera hjá mér þá fer mér einfaldlega að leiðast, þarf að hafa eitthvað fyrir stafni til þess að geta skipulagt það. Það finnst engum gaman að leiðast!

Sumarið hefur farið í ítarlega sjálfsskoðun en ég lofaði sjálfri mér að næsta haust og næsti vetur yrði ekki eins og síðastliðið ár, ég ætla mér að standa við það og ætla að vera svolítið frek á sjálfa mig, setja mig svolítið ofar en ég hef verið að gera. Hugarfarið er að breytast í rétta átt, það er alltaf góðs viti. Ég er einstök og ætla að leyfa mér að vera það áfram og nú mana ég þig til að telja hversu oft ég skrifaði ég í þessari færslu!


No comments:

Post a Comment